Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
„Ég held að þetta sé góð þróun að lækka þröskuldinn í 8,0 fyrir hægt tölt svo fjögurra og fimm vetra hross eigi möguleika á hærri einkunnum fyrir tölt.“ segir Helga Una Björnsdóttir sem sýnir hér Bárð frá Sólheimum á Landsmóti hestamanna 2022.
„Ég held að þetta sé góð þróun að lækka þröskuldinn í 8,0 fyrir hægt tölt svo fjögurra og fimm vetra hross eigi möguleika á hærri einkunnum fyrir tölt.“ segir Helga Una Björnsdóttir sem sýnir hér Bárð frá Sólheimum á Landsmóti hestamanna 2022.
Mynd / ghp
Fréttir 12. júní 2023

Telur breytingar á vegvísi kynbótasýninga jákvæðar

Höfundur: Þórdís Anna Gylfadóttir

Vorsýningar kynbótahrossa fara rólega af stað. Nokkrar breytingar hafa orðið á vegvísi um kynbótahross sem kynbótaknapi telur gagnlegar.

Fyrsta kynbótasýning sumarsins er haldin dagana 5.–9. júní á Hellu. Þar eru 128 hross skráð til leiks. Fyrsta kynbótasýningin var á dagskrá 30. maí–2. júní en var aflýst þar sem ekki var næg skráning, en lágmarksfjöldi hrossa á hverja sýningu eru 30 hross. Sömu sögu er að segja um kynbótasýningar sem átti að halda í Víðidal vikuna 5.–9. júní og í Spretti vikuna 12.–16. júní.

Elsa Albertsdóttir ræktunarleiðtogi segir að á hverju ári mæti um 1.000 hross til dóms. Vorsýningarnar fari hægt af stað en það virðist vera hefðin þegar ekki er um Landsmótsár að ræða. Þá sé yfirleitt meiri ásókn í miðsumarssýningarnar. Elsa hvetur alla þá sem huga á sýningar til kynbótadóms að kynna sér vel efni og innihald vegvísis um kynbótadóma hrossa sem gefin er út af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) á hverju vori. Þar er að finna allar helstu upplýsingar um reglur og framkvæmd sýninganna, s.s. ræktunarmarkmiðin, dómsskalann, siðareglur og upplýsingar um leyfilegan búnað. Í vegvísi hvers árs er einnig að finna ýmsar áhugaverðar tölulegar upplýsingar.

Leyfilegur beislisbúnaður í stað bannlista

Elsa segir að helsta breytingin á reglum er varða kynbótasýningar hrossa sé sú að nú er tilgreindur listi yfir leyfðan beislabúnað.

„Í stað þess sem áður var þá var tilgreindur bannlisti og því allt leyft sem ekki var á bannlistanum. Ákveðið var að breyta þessu til einföldunar og birta eingöngu lista yfir þann beislabúnað sem er leyfður.“ Leyfilegur búnaður eru hringamél og stangir með einum taum og mélalaus búnaður með skilyrðum. Einjárnungar með vogarafli (stöngum) eru ekki leyfðir. 

Ein breyting hefur verið gerð er varðar fyrirkomulag reiðdóma, svokallaða þröskulda fyrir hærri einkunnir. Til glöggvunar þá er gefin einkunn fyrir tölt í hæfileikadómi sem hefur 16% vægi. Einnig er gefin einkunn fyrir hægt tölt sem hefur ekki vægi en sú einkunn hefur sterk tengsl við tölteinkunnina og þarf að ná ákveðnum þröskuldum svo hægt sé að gefa hærri einkunnir fyrir tölt.

„Ákveðið var að láta það sama gilda hjá fjögurra og fimm vetra hrossum varðandi tengsl á milli hægs tölts og tölts, þannig að þröskuldurinn verði 8,0 fyrir hægt tölt svo þau eigi möguleika á 9,0 í einkunn fyrir tölt.

Áður var þröskuldurinn 8,5 fyrir hægt tölt hjá fimm vetra hrossum svo þau ættu möguleika á 9,0 fyrir tölt,“ segir Elsa. Ástæðuna fyrir þessari breytingu segir hún vera að fimm vetra hross séu óhörðnuð og þurfa ekki að sýna sömu burðareiginleika á hægu tölti og eldri hross en ættu samt að eiga möguleika á hærri einkunnum fyrir tölt.

Lækkun á þröskuldi jákvæð

Kynbótaknapi ársins 2022, Helga Una Björnsdóttir, er í óða önn að undirbúa hross fyrir kynbótasýningar sumarsins. Aðspurð sagðist Helgu Unu lítast vel á kynbótasumarið sem er fram undan og þá sérstaklega ef veður færi að skána. Helga Una stefnir með þó nokkurn fjölda hrossa til sýninga. „Þetta eru svona um 20– 30 hross sem ég stefni með í sýningu núna á vorsýningunum. Ég er með fullt af fínum ungum hrossum og svo einnig einhver aðeins eldri.“

Aðspurð um uppfærslur vegvísis kynbótadóma hrossa taldi hún þær jákvæðar og þá sérstaklega lækkun á þröskuldi er varðar tengsl á milli hægs tölt- og tölteinkunna.

„Ég er þó þeirrar skoðunar að það ætti að prófa það að dæma þessa eiginleika í sitthvoru lagi, án þröskulda, hægt tölt og tölt. Ég held að það gæti komið betur út.

En ég held að þetta sé góð þróun að lækka þröskuldinn í 8,0 fyrir hægt tölt svo fjögurra og fimm vetra hross eigi möguleika á hærri einkunnum fyrir tölt.“

Betra ef fleiri hross kæmu til dóms

Helga Una segir að miklar kröfur séu gerðar til hrossa sem mæta til kynbótadóms, þau hross þyrftu að geta ótrúlega mikið til að komast vel í gegnum kynbótadóm. „Það eru til dæmis ekki mörg fjögurra vetra hross sem þola mikla þjálfun og að hægt sé að sýna þau til afkasta á vellinum. Hrossin eru þó alltaf að verða betri og betri heilt yfir.“ Hvað varðar fjölda hrossa sem mæta til kynbótasýninga telur Helga Una að farið sé að velja meira úr hvaða hross mæta til dóms heldur en áður. „Það er leiðinlegt ef hross sem eru fín, en kannski engir ofurhestar, mæti ekki til dóms. Það væri skemmtilegra ef fleiri hross myndu mæta í dóm, til að sjá betur heildarmyndina,“ segir Helga Una.

Að loknum vorsýningum ættu línur svo að fara að skýrast hvaða hross fara fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramót íslenska hestsins sem haldið verður í Hollandi í ágúst.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...