Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Festino IQF Mozzarella Pizza Mix.
Festino IQF Mozzarella Pizza Mix.
Fréttir 30. júní 2021

Tekist á um hvort ostur sé ostur eða jurtaostur

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þann 11. júní sl. fór fram munn­legur málflutningur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-2209/2021. Stefnandi er Danól og stefndi er íslenska ríkið. Málið varðar úrskurð tollgæslustjóra nr. 3/2021 þess efnis að vara sem ber heitið Festino IQF Mozzarella Pizza Mix, sem er rifinn ostur (82-83% mozzarella) blandaður við jurtaolíu (11-12% pálmaolía) auk sterkju, skuli tollflokkast sem ostur.

Upphaf málsins má rekja til 17. febrúar 2020 en þá gaf tollstjóri út bindandi álit um tollflokkun sömu vöru og að hún skyldi flokkast í tollflokk 0406.2000. Sá flokkur tekur til rifins osts og ber 30% verðtoll auk magntolls á innflutning utan tollkvóta.

Telur ost sem er að uppistöðu til úr mjólk sé jurtaostur

Danól fór þess á leit að varan sem um ræðir yrði flokkuð sem jurtaostur, sbr. tollskrárnúmer 2106.9068. Tollyfirvöld tóku hins vegar ákvörðun um að varan skyldi flokkuð undir tollskrárnúmeri 0406.3000. Var sú ákvörðun kærð til tollgæslustjóra, sem kvað upp úrskurð nr. 3/2021 um að varan skyldi flokkast undir tollskrárnúmer 0406.2000. Dómsmál Danóls leitast við að fella þennan úrskurð tollgæslustjóra úr gildi.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur fór annars vegar fram skýrslutaka af vitnum og hins vegar munnlegur málflutningur. Sækjandi, Danól, leiddi fram þrjá starfsmenn tollafgreiðsludeildar Skattsins en lögmaður ríkisins kvaddi til deildarstjóra endurskoðunardeildar Skattsins.

Þrír starfsmenn Skattsins töluðu um „óeðlileg afskipti Bændasamtakanna“

Erna Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá MS, sat þinghaldið meðan skýrslutökur fóru fram. Hún segir að það hafi komið mjög á óvart að hlýða á þrjá starfsmenn Skattsins lýsa óeðlilegum afskiptum Bænda­samtakanna, sem hefðu með aðgerðum sínum náð að hafa áhrif á hærra sett stjórnvald (fjármálaráðuneytið) sem hefði í kjölfarið mælt fyrir um þá toll­flokkun að umrædd vara skyldi tollflokkast sem ostur.

Erna segir að þessi framganga sæti nokkrum tíðindum, ekki síst þar sem vitnin héldu því öll fram að þau væru ósammála tollflokkun embættisins sem birtist í tilvitnuðum álitum og úrskurðum.

Vitnuðu gegn afstöðu eigin embættis fyrir dómi

„Í lögum um meðferð einkamála er mælt fyrir um reglu sem felur það í sér að embættismönnum sé óskylt að koma fyrir dóm til að vitna um atvik sem hafi gerst í embætti þeirra ef unnt er að staðfesta það með opinberu skjali.

Í málinu lá afstaða tollyfirvalda gagnvart flokkun vörunnar fyrir í formi bindandi álits frá 17. febrúar 2020 og var niðurstaða í úrskurði tollgæslustjóra nr. 3/2021 í samræmi við hana. Því verður vart séð hver hafi verið þörfin á að leiða starfsmenn tollafgreiðsludeildar fyrir dóm til að segja til um þeirra skoðanir á tollflokkun varanna,“ segir Erna í samtali við Bændablaðið.

Hún segir á móti að málflutn­ingur ríkislögmanns hafi byggt á fyrirliggjandi niðurstöðum í bindandi áliti frá 17. febrúar 2020. Þetta staðfesti deildarstjóri endurskoðunardeildar og varan ætti réttilega að vera flokkuð sem ostur.

Deildarstjóri hafnaði því að afskipti hagsmunaaðila hafi haft áhrif á málið

Þegar deildarstjórinn var spurður um það sem kom fram í máli yfirtollvarðar tollafgreiðsludeildar, um að vöruna ætti að skrá undir tollskrárnúmerið 2106.9099, kvað hann það af og frá. Hann hafnaði jafnframt að athafnir hagsmunaaðila hefðu átt þátt í máli þegar úrskurður sama efnis og fyrrnefnt bindandi álitið er, var felldur í máli nr. 3/2021.

Umrætt mál er rekið sem flýtimeðferðarmál og er því dóms jafnvel að vænta innan skamms. Sumarlokun í Héraðsdómi Reykja­víkur hefst 19. júlí og telur Erna fullvíst að dómur verði kveðinn upp fyrir þann tíma. Hún segist þó jafnframt reikna með að dómnum verði áfrýjað á hvorn veginn sem hann fer, enda málið sérstakt á margan hátt og að mikið hljóti að vera í húfi fyrir stefnanda, fyrst málinu var veitt flýtimeðferð.

Skylt efni: jurtaostur

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...