Teigur 1 verðlaunað
Félagsbúið Teigur 1 í Fljótshlíð var útnefnt ræktarbú ársins 2022 í Rangárvallasýslu á Degi sauðkindarinnar, sem fór nýlega fram á Hvolsvelli.
Sauðfjárræktarbúið er í eigu hjónanna Guðna Jenssonar og Örnu Daggar Arnþórsdóttur, ásamt Tómasi Jenssyni. Við val á ræktunarbúi er stuðst við reglur RML, sem samþykktar hafa verið af fagráði í sauðfjárrækt.
„Í Teigi 1 hefur verið stunduð metnaðarfull sauðfjárrækt til fjölda ára sem m.a. endurspeglast í háu kynbótamati ærstofnsins. Ærnar eru frjósamar og mjólkurlagnar og lömbin væn og vel gerð. Meðal heildareinkunn kynbótamats ánna er 105,2 stig. Þá hefur búið lagt nokkuð til hins sameiginlega ræktunarstarfs í landinu en þaðan hafa komið hrútar sem þjónað hafa á sauðfjársæðingastöðvunum. Teigur 1 var einnig valið ræktunarbú ársins árið 2016,“ segir m.a. í umsögn RML.
Þá kemur fram í umsögninni að á árinu 2022 voru meðalafurðir eftir hverja á á búinu 37,4 kg, frjósemin var 2,17 lömb eftir fullorðna á og 2,01 lömb til nytja. Veturgömlu ærnar stóðu sig einnig afbragðs vel, en þær skiluðu að jafnaði 21,9 kg og 1,16 lömbum til nytja. Meðalfallþungi dilka var 18,0 kg, einkunn fyrir gerð 10,1 og fyrir fitu 6,5. Hlutfall gerðar og fitu var 1,55.
