Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir árið 2024 þurftu nautakjötsframleiðendur að greiða 19 krónur með hverju framleiddu kílói það ár.
Sú gjörbreyting hefur þó orðið á rekstrarumhverfinu að tapið hefur farið úr 347 krónum á hvert kíló árið 2021. Árið 2022 reiknaðist tapið 242 krónur á kílóið og 61 krónu tap var árið 2023.
Yfirlitið er það nýjasta hjá RML og tóku 36 bú þátt í verkefninu á árinu 2024 en voru 20 í upphafi.
Í yfirlitinu, sem Kristján Óttar Eymundsson, ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði RML, hefur tekið saman, kemur fram að ýmislegt jákvætt sé í þróun rekstrar nautakjötsframleiðenda á Íslandi. „Það er jákvæð þróun í vaxtarhraða og kjötgæðum hjá ungneytunum. Því má þakka að stærstu leyti aukinni hlutdeild Angus-gripa í ræktuninni. Nýting á aðföngum er hagstæð á tímabilinu frá 2021 þar sem breytilegi kostnaðurinn hækkar einungis um 4%. Þó að enn reiknist tap af nautaeldinu að meðaltali, þá hefur það gjörbreyst milli áranna 2021–2024. Vegna minni nautakjötsstuðnings árið 2025 er þó hætt við því að tapið hafi eitthvað aukist á því ári.
Eitt stærsta sóknarfærið í nautaeldinu á næstu árum er kyngreining á nautasæði. Þannig geta kúabændur til að mynda sætt lakari kýrnar sínar með holdanautasæði og komið þeim kálfum í áframhaldandi eldi,“ segir Kristján.
Á tímabilinu frá 2021 hafa nautgripatengdar tekjur aukist um 43% á innlagt kjöt. Sjálfar afurðatekjurnar hafa hækkað þar mest, eða um 54%. Einskiptisgreiðslur frá ríki hafa skipt verulegu máli. Á árinu 2024 komu einnig viðbótargreiðslur, sem voru greiddar í gegnum nautakjötsstuðninginn, eða svokallað sláturálag. Um var að ræða 100 milljónir króna frá ríki og til viðbótar var ákveðið að nýta fjármuni upp á 50 milljónir króna af framleiðslujafnvægislið í búvörusamningi.
Á árinu 2024 var framleiðsla þessara 36 búa um 24% af allri nautakjötsframleiðslu á landinu. Stór hluti nautakjötsframleiðslunnar á landinu fer fram á búum sem eru í mjólkurframleiðslu. Samkvæmt skýrsluhaldskerfinu Huppu hefur það hlutfall farið lækkandi á síðustu árum og var komið niður í 60% árið 2024.
