Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Yst í Ísafjarðardjúpi, skammt vestan við Bolungarvík liggur Skálavík, stutt og breið vík með fallegri sandfjöru fyrir opnu hafi.
Yst í Ísafjarðardjúpi, skammt vestan við Bolungarvík liggur Skálavík, stutt og breið vík með fallegri sandfjöru fyrir opnu hafi.
Mynd / Hörður Kristjánsson
Fréttir 25. maí 2022

Takk fyrir mig

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Allt á sér upphaf og endi og þannig er það líka með mitt mjög svo krefjandi, en um leið afar skemmtilega starf sem ritstjóri Bændablaðsins. Þann 31. maí lýkur minni vakt á þessum vettvangi og við keflinu tekur fyrsti kvenritstjóri blaðsins frá upphafi.

Vissulega var það mikil áskorun að taka að sér ritstjórn á þessum fréttamiðli Bændasamtaka Íslands í janúar 2011 og standa undir væntingum um að auka veg þess og virðingu í þjóðfélaginu.

Miðað við viðbrögð okkar frábæru lesenda í lestrarkönnunum í fjölmörg ár, sýnist mér að þokkalega hafi til tekist. Það skilar sér síðan í því að blaðið er orðið að öflugum auglýsingamiðli sem auglýsendur sjá sér hag í að nýta. Ég skila því af mér þessum áfanga í lífi mínu með góðri samvisku.

Þó ég hafi ákveðið að hefja ekki formlega starf á Bændablaðinu fyrr en á sjálfan bóndadaginn 25. janúar 2011, þá skrifaði ég fyrstu forsíðufrétt mína í fyrsta tölublað þess árs 13. janúar. Það var svo sem við hæfi að hún væri af mínum heimaslóðum í Skutulsfirði þótt umfjöllunarefnið væri fremur dapurlegt, eða um áhrif mengunar á kúabúskap í Engidal. Þetta mál varð þó til þess að velt var við fleiri steinum í sorpeyðingarmálum á Íslandi. Það sorglegasta við þetta allt er þó að pólitískt rétthugsandi dragbítar hafi orðið til þess að koma í veg fyrir að hefja alvöru úrlausn sorpeyðingarmála öll þessi ár.

Nú, 2022, liggur fyrir að menn eru komnir upp að vegg í sorpeyðingarmálum. Í árslok stóð til að banna alla urðun á sorpi á Íslandi. Þrátt fyrir að góðir menn hafi bent á lausnir varðandi smíði á hátæknilegri sorporkustöð og jafnvel fjármögnun, þá hefur enn ekkert orðið af því. Það blasir því við að ekkert annað er eftir í stöðunni en að skríða eins og lúbarðir hundar fyrir fætur ráðamanna í öðrum Evrópulöndum. Biðja þá um að brenna fyrir okkur ruslinu til orkuframleiðslu sem við höfum ekki haft rænu á að gera sjálf.

Þótt ábendingar um það sem betur má fara í þjóðfélaginu séu mikilvægar, þá hefur líf okkar á Bændablaðinu miklu frekar snúist um að draga fram það jákvæða í lífi fólks. Starf mitt sem ritstjóri Bændablaðsins fyrir Bændasamtök Íslands hefur því verið afskaplega gefandi og ánægjulegt. Það eru forréttindi að hafa fengið að vera í þessari aðstöðu, sem gaf manni ómetanlega innsýn í íslenskan landbúnað og líf fólks í landinu.

Ég fæ aldrei fullþakkað öllu því frábæra starfsfólki Bændasamtakanna sem tók mér opnum örmum strax í upphafi. Þar voru elskulegheitin og hjálpsemin alltaf í fyrirrúmi og svo er enn. Það væri kannski ósanngjarnt að nefna einhver nöfn umfram önnur í því sambandi, en helst vildi ég setja hér allan nafnalista starfsmanna samtakanna alveg frá ársbyrjun 2011. Skrifstofufólkið, starfs­menn og sviðsstjórar hinna ýmsu sviða og frábærir ráðunautar hafa reynst mér og Bændablaðinu einstaklega vel. Sama má segja um bændur, búalið og aðra um land allt sem ég hef átt í samskiptum við, sem og pistlahöfunda og auglýsendur.

Auðvitað hefur fólk ekki alltaf verið sammála um efni Bændablaðsins. Ég vil samt hrósa öllum stjórnum Bænda­samtakanna, ásamt formönnum og framkvæmda­stjórum, fyrir að hafa treyst mér til að stýra blaðinu eftir mínu höfði allan þennan tíma, og að standa þétt við bakið á mér. Úr þeim ranni hef ég líka fengið margar góðar ábendingar um landbúnað og hjálp við úrlausn mála.

Að lokum vil ég þakka mínu kæra og einstaka samstarfsfólki á Bændablaðinu og verktökum fyrir frábært samstarf. Guðrúnu Huldu Pálsdóttur, verðandi ritstjóra, óska ég svo gæfu og velfarnaðar í starfi.

Kæru vinir, þið eruð öll einstök!
Takk fyrir mig og kær kveðja,
Hörður Kristjánsson.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...