Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Heimildasafnið um Svein Sveinsson búfræðing hafði Tómás Helgason frá Hnífsdal búið vandlega um, innbundið með gylltum titlum og merkingum.
Heimildasafnið um Svein Sveinsson búfræðing hafði Tómás Helgason frá Hnífsdal búið vandlega um, innbundið með gylltum titlum og merkingum.
Líf&Starf 13. október 2021

Sveins saga búfræðings

Höfundur: Bjarni Guðmundsson

Sveinn Sveinsson hét hann, Aust­firðingur, fæddur á Ormsstöðum í Norðfirði 21. janúar 1849. Hann braust til búnaðarnáms á Norðurlöndum, ekki síst fyrir atbeina og með dyggum stuðningi Jóns Sigurðssonar forseta.

Sveinn nam við Búnaðarskólann á Steini við Bergen í Noregi árin 1869-1872, en bætti síðan við sig námi við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Sveinn var enda talinn lærðasti íslenski búfræðingur sinnar tíðar. Um árabil starfaði hann sem farandbúfræðingur (ráðunautur) hjá Búnaðarfélagi Suðuramtsins (sem var forveri Búnaðarfélags Íslands, síðar Bændasamtaka Íslands), m.a. með stuðningi Landbúnaðarfélagsins danska. Í því starfi ferðaðist Sveinn víða um sveitir landsins og sagði fyrir um nýja búhætti.

Sveinn Sveinsson búfræðingur (1849–1892). Minningamark um hann í skólagarðinum á Hvanneyri.

Á þeim árum fólst starf búnaðarráðunauta í því að vinna verkin sjálfir með bændum og fyrir þá. Starfið var því öðrum þræði verkleg kennsla í nýjum og endurbættum vinnubrögðum, einkum varðandi áveitur, gerð vörslugarða og -skurða sem og túnasléttun. Þá hafði Sveinn lært mjólkurvinnslu, smjör- og ostagerð, svo hann leiðbeindi einnig á þeim sviðum. Loks má nefna að Sveinn skrifaði afar efnismiklar fræðslugreinar um öll þessi viðfangsefni, greinar sem hver um sig mátti kalla tímamótaverk. Landmælingar hafði Sveinn búfræðingur, eins og hann var jafnan nefndur, lært og hann gerði m.a. kort af Reykjavík 1876 og 1887, sem nú teljast vera stórmerkar heimildir um byggð vaxandi höfuðstaðar. Merka bók um búverkfæri, raunar þá fyrstu á íslensku, skrifaði Sveinn, en hún kom út árið 1875.

Svo kom það í hlut Sveins að stýra Búnaðarskólanum á Hvanneyri í gegnum stofnun hans árið 1889 og fyrstu starfsárin. Þótt hann væri líklega sá Íslendingur sem þá var faglega hæfastur til þess að móta og kenna við skóla fyrir bændur lenti hann í mótvindi, sem mjög reyndi á hann. Á hann sótti alvarlegt þunglyndi, segja samtímaheimildir, og hann féll frá með voveiflegum hætti eftir aðeins þriggja ára starf við skólann, vorið 1892.

Tómás Helgason frá Hnífsdal, sá þekkti og ötuli bókasafnari og fræðimaður, hafði dregið saman mjög mikinn fróðleik um Svein Sveinsson, ævi hans og störf, og m.a. ritað greinar um tvo ævikafla Sveins, búnaðarnámið og skólastjórnina. Drög hafði Tómas lagt að fleiri greinum, en entist ekki aldur til þess að ljúka þeim. Sveinn búfræðingur var Tómási afar hugleikinn og hóf Tómás oft máls á sögu Sveins við mig. Með einstakri elju og fágætri vandvirkni hafði Tómás dregið saman og flokkað allt ritað efni sem hann fann eftir Svein og um hann. Um það bjó Tómás í bókasafni þeirra hjóna sem þau gáfu Bændaskólanum á Hvanneyri á aldarafmæli skólans 1989.

Að mér hefur hvarflað að reyna að ljúka verkinu, sem Tómás frá Hnífsdal hóf honum til heiðurs og þakklætis. Það ætti svo sem að vera viðráðanlegt í ljósi þess að Tómás hafði lokið langmestu af heimildaöfluninni. Þótt mér sé mætavel kunn nákvæmni Tómásar og langur tími sé liðinn frá hérvistardögum Sveins Sveinssonar búfræðings datt mér í hug að segja hér í Bændablaðinu frá Sveini og hugmynd minni um að ljúka verki Tómásar, ef vera kynni að einhver lesandi hins víðlesna Bændablaðs væri aflögufær um ábendingar. Þær væru þá líklega helst á formi munnmæla eða allt að því þjóðsagna um Svein eða tengjast honum á einhvern máta, svo sem frásagnir sem kunna að hafa lifað á bæjum er hann heimsótti til jarðabóta. Til dæmis grunar mig að enn megi finna minjar um jarðabætur sem Sveinn vann og skrifaði lýsingar á í starfsskýrslum sínum.

Sem fyrr hef ég netfangið bjarnig@lbhi.is og símann 894 6368.

Bjarni Guðmundsson
Hvanneyri

Skylt efni: Sveinn Sveinsson

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...