Stytting á eldistíma holdablendinga borgar sig
Í Hofsstaðaseli í Skagafirði er rekið stórt holdakúabú sem framleiðir um 400 sláturgripi á ári. Á búinu eru um 200 holdakýr og samhliða því að ala holdagripi eru einnig alin naut af íslenska kúakyninu.
Haustið 2022 hófst fóðurathugun með holdablendinga í Hofsstaðaseli. Verkefnið var unnið af RML í samvinnu við Bessa Vésteinsson í Hofsstaðaseli og Þórodd Sveinsson hjá LbhÍ og er verkefnið styrkt af þróunarfé nautgriparæktar.
Alls var 108 nautum skipt í þrjá fóðurflokka eftir þyngd og aldri (9 stíur samtals). Hóparnir fengu fóður sem innihélt mismikið af korni, 0%, 21% eða 37% af heildarþurrefnisáti. Nautunum var slátrað þegar meðalþungi stíunnar var um 620-630 kg. Þannig var hægt að sjá áhrif fóðrunar á vaxtarhraða og sláturaldur ásamt kjötmatsflokkun. Gróffóðrið í Hofsstaðaseli var af góðum gæðum. Fyrstu þrjá mánuðina var gefið heimaræktað súrsað bygg sem var aðeins undir meðalgæðum en þá var skipt yfir á kögglað bygg frá Bústólpa. Mögulega væri meiri munur milli hópa á vexti gripanna ef notað hefði verið aðkeypt kögglað bygg strax þegar athugunin hófst, vegna slakra gæða heimaræktaða kornsins sem notað var í upphafi.
Korngjöf styttir eldístímann
Við uppgjör á athuguninni var sláturaldur fóðurflokkanna leiðréttur að 630 kg lífþunga en það gerir niðurstöðurnar samanburðarhæfari. Það munaði að meðaltali um 99 dögum á sláturaldri gripa sem fengu eingöngu gróffóður og gripa sem fengu 37% korn. Gripir sem fengu 21% korn þurftu að meðaltali 63 dögum lengra eldi en gripir sem fengu hærri korngjöfin (mynd 1). Það var því minni munur á sláturaldri heynautanna og þeirra sem fengu fóður með 21% kornhlutfalli en milli hópanna sem fengu korn. Þrátt fyrir mismunandi sláturaldur var enginn marktækur munur á EUROPflokkun gripa (R2+) og því má segja að tekjurnar fyrir sláturgripi á mismunandi korngjöf hafi verið eins.
Gripir sem fengu korn höfðu marktæk meiri vaxtarhraða en gripir sem fengu eingöngu hey (tafla 1). Þá var marktækur munur á sláturaldri gripa milli allra fóðurflokka (leiðrétt að 630 kg lífþunga). Ekki er ólíklegt að ávinningurinn við korngjöf væri enn meiri ef gróffóðrið væri ekki eins gott og það var í þessi athugun.
Tafla 1. Áhrif af mismunandi korngjöf á eldístíma, sláturaldur, vaxtarhraða, EUROP-flokkun og fóðurát á grip. Mismunandi upplyftir stafir sýna marktækan mun milli fóðurflokka.
Fóður og fóðurleifar voru skráð að mestu allan eldistímann og því hægt að áætla át gripa sem fengu mismunandi korngjöf. Það gerði okkur kleift að áætla fóðurát (tafla 1) og fóðurkostnað.
Heildarfóðurkostnaður óx með aukinni korngjöf vegna hærra verðs á korni samanborið við gróffóður. Á móti kemur að kostnaður vegna aðstöðu og launa er lægri við aukna korngjöf vegna lægri sláturaldurs gripa (mynd 2). Til að áætla aðstöðukostnað voru notaðar tölur um meðalbyggingakostnað úr rekstrarverkefni nautakjötsframleiðenda sem er unnið af RML. Í útreikningunum miðar launakostnaður við dagvinnutaxta sem notaður er við gerð fjárfestingaáætlana í landbúnaði (5.145 kr./klst.) en það er ljóst að raunlaun bænda er töluvert lægri. Með breyttum forsendum um aðstöðu- og launakostnað getur hagnaður við eldi breyst þónokkuð og í þessu má búast við að töluverður breytileiki sé milli búa.
Það ber að hafa í huga að útreikningur á hagnaði í þessum tölum stendur fyrir mismun á tekjum og eldiskostnaði sem í þessu tilfelli var frá 12.12.2022 fram að slátrun hópanna. Engar kostnaðartölur um eldi frá fæðingu fram að byrjun fóðurathugunar og kostnaður við að halda kýrnar er tekinn með. Kálfarnir voru búnir að vera á húsi í að meðaltali 25 daga áður en fóðurathugunin byrjaði og eru þeir dagar ekki með í kostnaðarútreikningunum.
Túlkun á niðurstöðum
Niðurstöður sem eru kynntar hér byggja á ákveðnum forsendum, en þær sýna okkur að það launar sig að stunda krafteldi á holdablendingum. Eldistíminn í fóðurathugunni styttist það mikið að þó svo að fóðurkostnaðurinn sé meiri er aðstöðu- og launakostnaðurinn hlutfallslega lægri, sem skilar því að eldið með 37% korngjöf skilar mestum hagnaði. Áhugavert er að það virðist ekki vera hagstæðara að ala gripina á fóðri sem inniheldur 21% korni samanborið við að ala þá eingöngu á heyi og skýrist það af eldistímanum. Eldistíminn styttist aðeins um 40 daga með því að gefa 21% korn í fóðrinu samanborið við að gefa eingöngu hey, en um 99 daga sé gefið fóður sem er 37% korn, miðað við að gefa eingöngu hey. Þannig er meiri ávinningur af meiri korngjöf (37%) en minni (millileiðin með 21% korn).
Eins og kemur fram er launakostnaðurinn sem notaður er í útreikningum hér hærri en raunlaun bænda eru. Með því að lækka launakostnaðinn í útreikningunum í algjört lágmark væri hægt að snúa dæminu við þannig að það væri hagstæðast að fóðra eingöngu á góðu gróffóðri. Raunin er þó að bændum ætti að vera kleift að greiða sér ásættanleg laun. Þar sem eldiskostnaðurinn hér er einfaldaður og tekur ekki mið af rekstri holdakúanna og þeim mánuðum sem kálfarnir ganga undir kúnum má ekki oftúlka niðurstöðurnar. Í nýbirtri skýrslu frá RML um afkomu nautakjötsframleiðenda 2021-2023 má sjá að nautakjötframleiðsla er rekið með 99 kr. tapi á kg kjöts.
Megnmarkmið fóðurathugunar í Hofsstaðaseli var að kanna áhrif af mismunandi korngjöf á vaxtarhraða og sláturaldur holdablendinga. Hún gaf okkur í rauninni miklu meira en það og lesa má margt úr gögnunum sem við fengum. Í verkefninu voru síðan tekin sýni úr 48 gripum sem fóru í kjötgæðarannsókn hjá Matís.
