Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kornakur í Gunnarsholti 2021.
Kornakur í Gunnarsholti 2021.
Mynd / Þóroddur Sveinsson
Á faglegum nótum 10. mars 2022

Stríð og korn

Höfundur: Jóhannes Kristjánsson  og Hrannar Smári Hilmarsson

„Milli austurs og vesturs þar geisar stríð, á Kanasjónvarpið horfir fjallkonan fríð“
– Sonja Bára & Tryggvi Már Baldursbörn.

Öll erum við meðvituð um þá hræðilegu atburði sem eiga sér stað í Úkraínu um þessar mundir.

Á meðan hugur okkar er hjá hinu hrjáða fólki þar í landi áttar maður sig á smæð þeirra vandamála sem við hér á Íslandi þurfum að kljást við. Vonir stóðu til að 2022 yrði árið sem allt kæmist á réttan kjöl á ný. Við okkur blasti stöðugleiki, gleði og uppgangur. En málin þróuðust á annan veg og enginn veit hve lengi hörmungarástandið mun vara. En eitt er víst, að fullur þungi loftslagsbreytinga hefur ekki enn á okkur dunið, og hann mun verða þyngri en annar helvítis andskoti hingað til.

Þrátt fyrir það þurfum við m.a. að bregðast við því ástandi sem er að skapast í landbúnaðarframleiðslu heimsins. Mikilvægt er að hafa í huga að hlutfallslega lítill hluti af landbúnaðarframleiðslu er á heimsmarkaði og því getur uppskerubrestur í þeim fáu löndum sem leggja til stóra hluta af honum haft mikil áhrif.

Verulegar hækkanir hafa orðið á kornverði í heiminum undanfarið ár. Frá janúar 2021–janúar 2022 hækkaði heimsmarkaðsverð á byggi um 25%, maís um 18% og hveiti um 23% skv. verðlagseftirliti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Skýringuna á þeirri hækkun má að vissu leyti rekja til áhrifa Covid-19 en einnig til annarra þátta. Meðal annars höfðu gríðarlegir þurrkar og hitabylgjur (>50°C) í Kanada neikvæð áhrif á kornuppskeru. Kanada er sjötta stærsta kornræktarland á heimsvísu og því höfðu þessir atburðir áhrif á heimsmarkaðsverð korns.

Miklar hækkanir voru einnig á áburðarverði á árinu 2021 eins og allir hafa orðið varir við, eða 142% meðalhækkun á heimsvísu. Þar sem þessi hækkun var mest á seinni hluta ársins 2021 er því spáð að hún muni ekki skila sér að fullu í hærra markaðsverði kornafurða fyrr en á miðju ári 2022.

Rússland og Úkraína eru stór framleiðslulönd korns en samanlagt flytja þessi lönd út um 29% af því hveiti sem er selt í alþjóðaviðskiptum. Einnig má nefna að Rússland er stærsti byggframleiðandi heims og Úkraína sjötti stærsti. Innan landamæra Úkraínu er gríðarlega frjósamur jarðvegur, og er hún stundum kölluð brauðkarfa Evrópu.

Næstu vikur eru sáðtími á sléttum Úkraínu og ætla má að stríðsástand muni tefja fyrir sáningu á voryrkjum.

Viðskiptabann vestrænna ríkja gegn Rússlandi og stríðsástandið í Úkraínu mun að öllum líkindum valda skerðingu á framboði kornvara á markaði. Þessi skortur leiðir til verðhækkana á markaði til viðbótar við hækkanirnar sem eru tilkomnar vegna áburðarverðs og uppskerubrests 2021. Kornrækt á Íslandi

Kornrækt verður hagkvæmari hérlendis

Það virðist stefna í að verð á innfluttu fóðri til bænda muni hækka verulega á þessu ári. Allar slíkar verðhækkanir á innfluttu korni breyta samkeppnisstöðu innlendrar kornræktar og gerir hana hagkvæmari í samanburði. Það gæti því orðið ábótasamt fyrir bændur að auka kornrækt í sumar.

Bygg, sex raða bygg sérstak­lega, er þeim hæfileikum gætt að skila meiri uppskeru á frjósömum mýrarjarðvegi með lægri áburðarskömmtum en til dæmis á rýrum jarðvegi sem krefst hárra áburðarskammta. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að byggið er af lakari gæðum. Einnig fylgja önnur vandamál við ræktun korns á mýri, jarðvegurinn getur verið erfiður yfirferðar í vætutíð, kornið þroskast seint og er oft með lágt þurrefnisinnihald við skurð. Auk þess á það heldur til að leggjast í svo frjósömum jarðvegi samanborið við harðari jörð.

Í þessu sambandi má einnig nefna að til þess að þessar frjósömu mýrar skili áburðarefnunum í plönturnar þarf jarðvegurinn að losa talsvert magn kolefnis á móti. Á móti kemur að með háum áburðarskömmtum á sandjarðvegi er verið að binda kolefni í jarðvegi. Að sá byggi í mýrarjarðveg sem lið í sáðskiptum getur minnkað áhrif hækkunar áburðarverðs á ræktunarkostnað.

Bygg í sáðskiptum í túnrækt er mikill kostur. Áburðarefni sem eru til staðar í jarðvegi en ekki aðgengilegar grösum í eldri túnum geta losnað við jarðvinnslu og orðið aðgengilegar korni. Þannig má uppskera fleiri áburðarefni en borið er á.

Á meðfylgjandi töflu má sjá samanburð á uppskeru og áburðarnotkun við byggrækt á mismunandi jarðvegi og gróffóðurræktun. Tölurnar fyrir uppskeru og áburðarmagn byggs eru meðaltöl 32 yrkja úr tilraunum á Hvanneyri og í Gunnarsholti. Sambærilegar tölur fyrir gróffóður koma úr tilraunum á  Hvanneyri, annars vegar úr langtímatilraun lögð út 1977 og enn uppskorin árlega, og hins vegar úr sláttutímatilraun sem lögð var út 2018. Fóðureiningar uppskeru byggs voru miðaðar við 1,1 FEm/kg þe en tölur fyrir gróffóður eru byggðar á niðurstöðum heyefnagreininga.Niðurstöður töflunnar benda til þess að hvert áborið N kg skilar sér í flestum fóðureiningum í byggrækt.

Það má því segja að hagkvæmni byggræktunar aukist með hækkandi áburðarverði og hægt sé að fá ódýrari fóðureiningar þar en með annarri ræktun.

 

Jóhannes Kristjánsson  og Hrannar Smári Hilmarsson.
Höfundar starfa hjá LbhÍ. Jóhannes er búfræðikennari og Hrannar tilraunastjóri í jarðrækt.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...