Stóraukin meðalnyt í Færeyjum
Hver mjólkurkýr í Færeyjum framleiðir að meðaltali 9.359 lítra af mjólk á ári. Er það talsverð aukning frá árinu 1995 þegar meðaltalið var 5.102 lítrar.
Heildarinnlegg bænda til mjólkursamsölunnar MBM í Færeyjum voru 7.243.500 lítrar af mjólk á síðasta ári. Er það 213.800 lítrum meira en árið 2023. Frá þessu greinir Dimmalætting.
Árið 2016 var slegið met í mjólkurinnleggi hjá MBM þegar bændur skiluðu inn 7.742.900 lítrum af mjólk. Árið 1990 tók mjólkurbúið á móti 5.849.000 lítrum, sem er 1.394.500 lítrum minna en í fyrra. Árið 1995 voru 1.206 mjólkurkýr í Færeyjum, en í dag eru ekki nema 774 eftir. Til samanburðar má nefna að á síðasta ári voru 25.104 árskýr á Íslandi sem skiluðu 6.523 kílógramma nyt að meðaltali.
Færeyingar eru 55.000 og þýðir þetta því að þarlendar mjólkurkýr framleiða tæplega 132 lítra á hvern íbúa á ári. Íslendingar eru tæplega 392 þúsund og heildarinnlegg mjólkur á Íslandi var 152,4 milljónir lítra árið 2024, sem þýða 389 lítrar á hvert íslenskt mannsbarn.
