Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hálfdán Óskarsson mjólkur­fræð­ingur er stofnandi, eigandi og fram­kvæmdastjóri Örnu.
Hálfdán Óskarsson mjólkur­fræð­ingur er stofnandi, eigandi og fram­kvæmdastjóri Örnu.
Mynd / HKr.
Fréttir 10. febrúar 2022

Stefnt að útflutningi á laktósafríu skyri til Frakklands á næstu mánuðum

Höfundur: smh

Arna mjólkurvinnsla í Bol­unga­rvík áformar að hefja útflut­ning á laktósafríu skyri til Frakk­lands á næstu mánuðum. Samninga­viðræður standa yfir við franska stórmarkaðskeðju og er stefnt að því að skyrið verði selt í um 300 verslunum þess.

Hálfdán Óskarsson mjólkur­fræðingur er stofnandi, eigandi og framkvæmdastjóri Örnu. Hann segir að viðskiptasamningurinn við Frakk­ana sé ekki alveg frágenginn en ferlið sé á lokametrunum. Um mjög spennandi verkefni sé að ræða. Unnið hafi verið að því í tæpt ár og náið samstarf hafi verið við franska fyrirtækið varðandi vöruþróun.

Hann segir að ýmis önnur áhugaverð verkefni séu á teikni­borðinu hjá mjólkurvinnslunni, enda hafi framsækin vöruþróun ávallt verið metnaðarmál þar innanbúðar.

Hafrajógúrt og hafraskyr

Arna mjólkurvinnsla hóf starfsemi árið 2013 og skapaði sér strax þá sérstöðu að bjóða upp á mjólkurvörur án mjólkursykurs, sem kallað er laktósafrítt, og hafa allar götur síðan einbeitt sér að slíkum vörum. Þær vörur opnuðu möguleika þeirra með mjólkursykursóþol að neyta hefðbundinna mjólkurvara.

Að sögn Hálfdáns er ætlunin að halda því áfram, en hins vegar sé markviss stefnumótunarvinna í gangi þar sem gert er ráð fyrir afgerandi hliðarspori í nánustu framtíð meðfram kúamjólkurvinnslunni. Arna ætlar sér nefnilega stóra markaðshlutdeild á því sem kallað er „jurtamjólkurvörur“ á Íslandi, til dæmis með framleiðslu á sýrðum afurðum úr haframjólk eins og hafrajógúrt og hafraskyri.

„Við fengum styrk úr Mat­vælasjóði til að framleiða hafraskyr úr íslenskum höfrum. Við verðum í samstarfi við Sandhól í því verkefni, en þau rækta mikið af íslenskum höfrum og hafa verið að vinna að verkefni sem snýr að þróun á íslenskri haframjólk. Fókusinn í okkar verkefni verður á þróun sýrðra hafraafurða úr haframjólk, þar sem við ætlum að beita aðferðum sem ekki hafa verið nýttar í þessum tilgangi neins staðar í heiminum áður, að ég best veit. Slík vinnsla úr haframjólk verður mun flóknari en þegar unnið er úr hefðbundinni mjólk. Í grundvallaratriðum má segja að aðferðin felist í að hækka próteinhlutfallið þannig að það þykkni nægilega mikið til að hægt sé að kalla vöruna hafraskyr,“ segir mjólkurfræðingurinn og er ekkert feiminn við að nota þetta heiti, eða orðið „mjólk“ sem viðskeyti við plöntuheiti. Þetta sé orðið mjög útbreitt víða um heim og viðurkennt. Hann segir að engin bindiefni eða hjálparefni séu notuð í framleiðsluferlinu.

Mikil tækifæri á plöntumjólkurmarkaðinum

„Við sjáum mikil tækifæri á svoköll­uðum plöntumjólkurmarkaði, enda vex hann mjög hratt bæði hér á Íslandi og annars staðar,“ segir Hálfdán og bendir á að sífellt stærri hluti af mjólkurmarkaðinum hér á landi sé slík mjólk. „Ég held að ástæðan fyrir því að fólk hefur í auknum mæli farið yfir í þessar tegundir mjólkur sé ekki einungis sú að það vilji sneiða hjá dýraafurðum, heldur er þetta orðið að umhverfismáli líka. Það er mjög góður tími núna til að koma inn á þennan markað og við sjáum alveg fyrir okkur útflutning á þessu líka ef við náum að framleiða afurðirnar í þeim gæðum sem við stefnum að. Við höfum ekki enn getað notað íslenskan grunn í okkar prófunum, en miðað við hvernig okkur hefur gengið með þetta hingað til þá lofar þetta mjög góðu – það má segja að við séum komin vel á veg.“

Eigin jarðarberjaframleiðsla

Ýmislegt annað er í þróunarferli hjá Örnu þessi misserin, en þar hafa nú í nokkra mánuði verið uppi áætlanir um ræktun jarðarberja til nota í mjólkurvörurnar. Til stóð að ræktunin hæfist síðsumars á síðasta ári, en Hálfdán segir að það hafi ekki gengið sem skyldi í fyrstu atrennu.
„Við erum engir sérfræðingar í jarðarberjaræktun og þurfum bara að læra þetta jafnóðum,“ segir hann. Nú sé hins vegar allt á réttri leið og er búist við að fyrstu jarðarberin verði tínd á vormánuðum, en allt verður ræktað upp af fræi – í svokallaðri lóðréttri ræktun á sex hæðum. Með vorinu er einnig ætlunin að uppskera eigin kryddjurtir, en Arna notar nokkuð af þeim í framleiðslu sína.

„Þegar við höfum náð tökum á jarðarberjunum förum við í kryddjurtirnar,“ segir Hálfdán. Aðalbláber til framleiðslunnar hefur mjólkurvinnslan meðal annars keypt af öflugu berjatínslufólki á Vestfjörðum.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...