Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Stærri og öflugri sveitarfélög
Lesendarýni 14. október 2025

Stærri og öflugri sveitarfélög

Höfundur: Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra

Við viljum öll búa í samfélagi þar sem grunnstoðirnar eru sterkar, þar sem börnin okkar ganga í góða skóla, samgöngur greiðar og stjórnsýsla skilvirk og þjónar íbúum sínum. Þetta er forsenda fyrir jöfnum búsetuskilyrðum og jákvæðri byggðaþróun um land allt.

Til að tryggja góða þjónustu um land allt þurfa sveitarfélögin að geta tekist á við stór og flókin verkefni. Nýlegar rannsóknir sýna að stærri og fjölmennari sveitarfélög eru betur í stakk búin til að sinna verkefnum sínum. Þau veita betri og hagkvæmari þjónustu, laða að sér hæfara starfsfólk og hafa meiri slagkraft til að byggja upp innviði.

Þjónustuhlutverk sveitarfélaga gagnvart íbúunum er grundvöllur fyrir tilvist þeirra og lykilatriði í mínum huga. Til að tryggja þjónustustig er afar mikilvægt að rétt umgjörð sé til staðar. Þetta er eitt af þeim umræðuefnum sem voru í brennidepli á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og ársfundi Jöfnunarsjóðs í síðustu viku.

Breytingar sem styrkja sveitarstjórnarstigið

Í samráðsgátt stjórnvalda liggur nú frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Frumvarpið á sér langan aðdraganda. Fjölmargir hafa komið að undirbúningi þess: íbúar, fulltrúar ríkis og sveitarfélaga, háskólasamfélagsins og aðrir hagaðilar.

Markmið frumvarpsins er að styrkja stjórnsýslu og lagaumhverfi sveitarfélaga. Með því verða þau betur í stakk búin til að takast á við lögbundin verkefni og tryggja skilvirka þjónustu. Breytingarnar snúa meðal annars að reglum um fjármál sveitarfélaga og atvinnuþátttöku þeirra, reglum um samvinnu sveitarfélaga og getu til að sinna lögbundnum verkefnum.

Í frumvarpinu er lagt til að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði lögfestur við töluna 250. Einnig að ráðherra skuli eiga frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga með færri en 250 íbúa, nema sérstakar aðstæður mæli því í mót.

Sum sveitarfélög í þessum stærðarflokki reka ekki eigin grunnskóla, sinna ekki almennri félagsþjónustu eða skipulagsmálum. Því má spyrja: Hver er tilgangur sveitarfélags sem hefur útvistað allri lögbundinni þjónustu við íbúa sína til annars sveitarfélags? Um hvað kjósa íbúar slíks sveitarfélags? Ekki er það til að velja hverjir fái umboð til að hafa áhrif á og stýra þjónustunni í því sveitarfélagi sem þjónustu hefur útvistað til.

Ákvæði um lágmarksfjölda íbúa hefur verið að finna í sveitarstjórnarlögum undanfarna áratugi. Ákvæði var í lögum frá 1998, 1986 og frá 1961. Í lögunum frá 1961 var lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga 100 íbúar, sem væri í dag 220 manns, ef tekið er tillit til íbúaþróunar. Ákvæðið var tekið úr gildi með núgildandi sveitarstjórnarlögum frá 2011.

Lagaákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga má rekja allt til fyrstu rituðu heimilda um sveitarfélög, eða löghreppa eins og þau hétu þá. Í Grágás, lögbók Íslendinga á þjóðveldisöld 930-1262, er að finna slíkt ákvæði. Þar sagði í Tíundarlögum um hreppa skil: „Það er mælt í lögum vorum að löghreppar skulu vera á landi hér. En það er löghreppur er tuttugu bændur eru í eða fleiri. Því aðeins skulu færri vera ef lögréttumenn hafa lofað.”

Strax á tímum þjóðveldisins vissu Íslendingar að sveitarfélög þyrftu að vera nógu sterk til að sinna hlutverki sínu. Lágmarkið var tuttugu bændur og aðeins ef lögréttumenn leyfðu máttu þeir vera færri. Í fyrirhuguðu frumvarpi er íbúafjöldinn 250 og heimild til undanþágu að uppfylltum ákveðnum lögbundnum skilyrðum.

Stærri og öflugri sveitarfélög geta veitt þjónustu á hagkvæmari og skilvirkari hátt. Þannig nýtist skattfé borgaranna og opinbert fé betur, útsvar íbúa nýtist í þjónustu í stað yfirbyggingar. Þannig leggjum við betri grunn að því að efla þjónustu, lækka útsvar eða byggja upp innviði í sveitarfélögum.

Jöfnunarsjóður - nýtt og betra kerfi

Það náðist mikilvægur áfangi þegar ný heildarlög um Jöfnunarsjóð voru samþykkt á Alþingi í sumar. Samþykkt laganna markar tímamót í sögu sjóðsins og leggur grunn að sterkara og sjálfbærara sveitarstjórnarstigi.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er í einföldu máli að jafna skatttekjur og útgjaldabyrði milli sveitarfélaga þannig að þau geti öll veitt íbúum sínum lögbundna þjónustu, sama hversu stór eða fjárhagslega sterk þau eru. Ýmsar ástæður eru fyrir því að geta sveitarfélaga til að sinna verkefnum sínum er misjöfn. Landfræðilegar, lýðfræðilegar og félagslegar aðstæður gera útgjaldaþörf mismunandi.

Jöfnunarsjóður gegnir mikilvægu hlutverki í tekjustofnkerfi sveitarfélaga í landinu, og er einn af megin tekjustofnum sveitarfélaganna og umfang hans er talsvert.

Rekja má sögu sjóðsins til ársins 1932 þegar lög nr. 68/1932 um breytingar á fátækralögum voru samþykkt. Á þeim tíma var framfærsla tekjulágra eitt af aðalverkefnum sveitarfélaga og til að jafna stöðu sveitarfélaga var fjármagn tekið úr ríkissjóði til að endurgreiða þeim sveitarfélögum sem hallaði mest á vegna verkefnisins.

Sérstakur Jöfnunarsjóður var settur á laggirnar árið 1937, með lögum nr. 60/1937. Frá þeim tíma hefur jöfnun á fjárútlátum sveitarfélaga vegna vissra þátta farið að mestu fram í gegnum Jöfnunarsjóð.

Sjóðurinn tók til starfa í núverandi mynd árið 1990 og hefur umfang hans aukist mikið síðan. Tekjur sjóðsins á árinu 2024 námu tæpum 90 milljörðum króna.

Framlög úr sjóðnum hafa meðal annars nýst til að styðja við landsátakið Römpum upp Ísland og átak í aðgengismálum fatlaðs fólks í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands. Römpum upp Ísland lauk í mars síðastliðnum og fór fram úr öllum áætlunum.

Nýtt verkefni sem sjóðurinn hefur tekið að sér eru framlög til sveitarfélaga vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða. Framlögin voru greidd í fyrsta sinn í desember síðastliðnum og verkefnið hefur gengið vel. Markmið þess er að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og draga úr áhrifum fátæktar meðal barna. Þetta er áþreifanlegt dæmi um hvernig Jöfnunarsjóður getur stuðlað að mikilvægum úrbótum sem koma öllum landsmönnum til góða.

Nýju heildarlögin sem taka gildi 1. janúar næstkomandi fela það í sér að helstu jöfnunarframlög sjóðsins eru sameinuð í eitt framlag. Breytingin hefur það í för með sér að gæði jöfnunar verða betri og komið er í veg fyrir þá yfirjöfnun sem verið hefur í núverandi kerfi. Sambærileg sveitarfélög fá sambærileg framlög úr sjóðnum.

Í nýju lögunum er þess gætt að breytingarnar komi inn í skrefum og tekur nýja kerfið ekki að fullu gildi fyrr en á árinu 2030. Um leið stuðlum við að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Sjóðurinn er nú einfaldari í skipulagi og jöfnunarframlögin markvissari.

Nú í haust hófum við vinnu við endurskoðun reglna um grunnskólaframlög Jöfnunarsjóðs, en þau eru á meðal stærstu verkefna hans. Umhverfis- og samgöngunefnd þingsins fjallaði um þessi mál í vor.

Byggðamál voru mér ofarlega í huga vinnu við undirbúning að nýju lögum um Jöfnunarsjóð. Við heildarendurskoðun á regluverki sjóðsins á grunnskólaframlaginu mun ég ekki síst horfa til mikilvægis byggðasjónarmiða.

Sterkur grunnur fyrir framtíðina

Þegar við horfum til fjárhagslegrar heilsu sveitarfélaga er ánægjulegt að sjá nú skýr merki um bata. Rekstrarafkoma sveitarfélaga í heild hefur batnað umtalsvert frá fyrra ári.

Niðurstöður úr ársreikningum fyrir árið 2024 sýna að í fyrsta sinn frá því fyrir heimsfaraldur skilaði rekstur A-hluta sveitarfélaga afgangi. Þessi bati er að stórum hluta tilkominn vegna hækkunar framlaga Jöfnunarsjóðs til fjármögnunar á þjónustu við fatlað fólk, auk þess sem hægt hefur á hækkun lífeyrisskuldbindinga sveitarfélaga milli ára. Einnig vegna þess að sveitarfélög hafa sýnt aðhald í rekstri og dregið úr fjárfestingum og lántökum. Þetta hefur skilað sér í almennt betri fjárhagsstöðu.

Þegar við skoðum heildarmyndina, sterka fjárhagsstöðu sveitarfélaga, endurbættan Jöfnunarsjóð og markvissari lagaumgjörð sveitarstjórnarstigsins, sjáum við að grunnurinn er víðast hvar traustur. Þótt verkefnin séu áfram krefjandi, gefur þessi þróun tilefni til bjartsýni.

Með stærri og öflugri sveitarfélögum og sterkari fjárhagslegri stöðu leggjum við grunninn að framúrskarandi þjónustu við íbúa um land allt. Sterkt sveitarstjórnarstig er forsenda þess að allir landsmenn njóti sambærilegrar þjónustu og jafnra tækifæra hvar sem þeir búa. 

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...