Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Útivist í skógi á hausti.
Útivist í skógi á hausti.
Á faglegum nótum 2. september 2024

Staðlar og gæðaviðmið í skógrækt og landgræðslu

Höfundur: Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar

Á síðustu dögum hafa skapast miklar umræður í þjóðfélaginu um skógrækt sem hófust með umfjöllun fjölmiðla um skógræktarverkefni á vegum einkaaðila í landi sveitarfélagsins Norðurþings í Saltvík.

Ágúst Sigurðsson.

Við hjá Landi og skógi höfum í kjölfar þessarar miklu umfjöllunar átt fund með fulltrúum framkvæmdaaðila og landeigenda til að fara yfir þessa tilteknu framkvæmd til að skoða hvort eitthvað og þá hvað hafi farið úrskeiðis. Á myndum sem birst hafa má sjá mjög umfangsmikla jarðvinnslu sem stingur flesta í augun. Telja má að hér hefði mátt komast af með minna rask án þess að það hefði komið niður á árangri þeirrar nýskógræktar sem þarna er á ferðinni. Um aðferðir til jarðvinnslu í mismunandi landi gilda almennt ekki afdráttarlausar reglur hérlendis en alltaf hlýtur það að vera leiðarljósið að lágmarka hana eins og kostur er á hverjum stað. Í þessu tilfelli hefur þess ekki verið gætt og af því þarf að læra.

Komið hefur fram í umræðunni að landið sem tekið er til þessara nota þykir verðmætt útivistarland að margra mati, auk þess að búa yfir mikilli líffjölbreytni og vera mikilvægt fuglasvæði, og hefði því ekki átt að velja til framkvæmda af þessu tagi. Fyrir liggur að sveitarfélagið sem landeigandi, í þessu tilfelli Norðurþing, hafði fjallað um þetta ítrekað og fyrirætlanir höfðu breyst að nokkru marki frá fyrstu hugmyndum. Bæði var tekið tillit til sumra ábendinga sem borist höfðu, fyrirhugað framkvæmdasvæði flutt til og umfangið minnkað nokkuð. Allar leyfisveitingar og lögbundnar athuganir höfðu farið fram samkvæmt þeim opinberu reglum sem gilda um framkvæmdir af þessu tagi, þ.m.t að huga að verndun fornleifa. Í þessu samhengi má benda á að viðmið um val á landi til skógræktar hafa um allnokkurt skeið verið lítið breytt og eftir því sem best er vitað þá hefur svipað land og hér um ræðir verið tekið til skógræktar á umliðnum áratugum í nokkrum mæli.

Þá hefur einnig verið rætt um umfang verkefnisins en þarna eru teknir undir tæpir 100 hektarar lands í einum áfanga. Segja má að það sé nokkuð nýtilkomið að svo stórir áfangar séu lagðir undir á einu bretti; skógrækt undanfarinna áratuga hefur meira einkennst af smáum áföngum með aðkomu hins opinbera og því vekur framkvæmd af þessari stærðargráðu mikla athygli. Það eru hins vegar ekki settar aðrar hömlur á skógrækt af þeirri stærðargráðu sem hér hefur verið tilgreind en þær sem einstök sveitarfélög setja sér í sínu aðalskipulagi og fyrir liggur að farið var að þeim reglum í þessu verkefni.

Margt fleira hefur verið rætt í tengslum við þessa tilteknu framkvæmd. Sumt af því kallar á að þeirri vísindalegu þekkingu sem tiltæk er sé komið betur á framfæri til að útskýra ýmsar forsendur skógræktar af þessu tagi – þessu þarf að bæta úr. Þá er mjög mikilvægt til þekkingaröflunar að fylgjast mjög náið með þróun þessa lands og skóginum sem þar mun vaxa upp og að gerðar verði nákvæmar mælingar á m.a. kolefnisbúskap svæðisins og breytingum á náttúrufari næstu árin.

Að gefnu tilefni skal það undirstrikað að mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að geta starfað að okkar skógrækt eftir skýrum ramma sem markaður er af lögum og vel ígrunduðum verklagsreglum. Þessi rammi er hin sjálfbæra skógrækt sem getið er um í skógræktarlögum. Á umliðnum árum hefur verið unnið eftir ákveðnum leiðbeiningum eins og talið hefur best henta á hverjum tíma en það er engu að síður ljóst að í sumum þáttum er ramminn ekki nægjanlega víðtækur og skýr – og þessu þurfum við að breyta. Þetta hefur verið í umræðu um árabil en frá því að hin nýja stofnun Land og skógur fór af stað um síðustu áramót hefur verið ljóst að þetta væri eitt af stóru viðfangsefnunum að takast á við nú strax í upphafi. Það má kalla þetta íslenskan skógræktarstaðal fyrir sjálfbæra skógrækt. Slíkan staðal höfum við ekki haft með skýrum hætti hingað til en vinnan var lítillega hafin hjá Skógræktinni á síðasta ári en verkefnið nú komið í hendur hinnar nýju stofnunar Lands og skógar að vinna með. Við lítum til þess að nálgast verkefnið með svipuðum hætti og nágrannar okkar á Bretlandseyjum sem átt hafa slíkan staðal og að mörgu leyti má leggja þá vinnu til grundvallar og nýta, þó eitthvað þurfi að sjálfsögðu að staðfæra fyrir okkar aðstæður. Við bindum miklar vonir við þetta mikilvæga verkefni sem okkur ber að hafa forystu um og leita til þess m.a. víðtæks samstarfs margra aðila.

Annað grunnverkefni sem þarf að vinna þessu samhliða eru ný gæðaviðmið fyrir val á landi til skógræktar. Þetta verkefni er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt 2022- 2026 sbr. Landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt fram til ársins 2031 – Land og líf. Vinna við þessi gæðaviðmið var aðeins komin af stað hjá Skógræktinni á sínum tíma en brýnt er að þessi viðmið liggi fyrir sem allra fyrst. 

Þá er mikilvægt að nefna að unnið hefur verið að þýðingu og aðlögun alþjóðlegra staðla hvað varðar endurheimt vistkerfa, svokallaðra SER-staðla.

Sú vinna hófst hjá Landgræðslunni árið 2022 en er nú verkefni sem Land og skógur hefur tekið við. SER (Society for Ecological Restoration) er grundvallarstaðall og þarf að vera okkar leiðarljós við alla endurheimt vistkerfa. Mikilvægt er að staðfæra staðalinn, þannig að hann henti íslenskum aðstæðum. Vinna við staðfærsluna er hafin en töluvert er þó eftir og nauðsynlegt að setja kraft í þetta næstu misserin.

Ofangreindir staðlar og gæðaviðmið eru algert grunnatriði fyrir skógræktar- og landgræðslustarfið í landi okkar í bráð og lengd. Við hjá Landi og skógi leggjum mikla áherslu á að vinna þessi verkefni með markvissum hætti og hraða þeim sem frekast er unnt. Við höfum því ákveðið að setja ofangreind verkefni í sérstakan forgang og leggja til þeirra aukinn kraft. Sérstakur stýrihópur sem starfar þvert á svið stofnunarinnar hefur nú fengið það hlutverk að samræma verkefnin, skipuleggja vinnulag og tryggja nauðsynlegt samráð við stofnanir, sérfróða aðila sem og hagaðila. Markmiðið er að verulegri framvindu verði náð í verkefnunum á næstu þremur mánuðum og að fyrstu tillögur að gæðaviðmiðum varðandi val á landi til skógræktar liggi fyrir í nóvember. Vinna þessi hjá Landi og skógi er í nánu samstarfi við okkar fagráðuneyti en fyrir liggur að slík gæðaviðmið þarfnast sérstakrar staðfestingar ráðuneytisins.

Í þessum verkefnum felast geysileg tækifæri til að endurskoða og skerpa á allri ákvarðanatöku varðandi skógræktar- og landgræðsluaðgerðir hér á landi og til þess að ná betri skilningi og sátt um það mikilvæga starf sem fram fer á þessu sviði.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...