Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þeir eru vígalegir á sviði, leikarar Leikfélags Vestmannaeyja.
Þeir eru vígalegir á sviði, leikarar Leikfélags Vestmannaeyja.
Menning 27. mars 2024

Spamalot í Eyjum

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Leikfélag Vestmannaeyja hefur verið að æfa af krafti undanfarnar vikur söngleikinn Spamalot sem frumsýndur verður á skírdag, þann 28. mars nk.

Fjallar verkið um leit Arthúrs konungs og riddara hringborðsins að hinu helga grali, en breska tón- og leikskáldið Eric Idle vann söngleikinn upp úr kvikmyndinni Monty Python and the Holy Grail árið 2004. (Þá mynd gerði Eric einmitt árið 1975 ásamt félögum sínum í Monty Python-hópnum sem margir kannast við.)

Er þráður söngleiksins gæddur einu víðfeðmasta hugarflugi sem um getur, þar sem miðaldamenningu er blandað við alls kyns vitleysisgang. Segir í erlendum ritdómi frá árum áður að „Kvikmyndin Monty Python and the Holy Grail not[i] óvænta rökfræði sem og óvænta atburði til að afhjúpa fáfræði mannkyns á miðöldum“. Hvort sem það stenst nú eða ekki. Annars, til gamans má geta þess að nafnið Spamalot kemur úr bíómyndinni þegar einn karakterinn segir; „I eat ham and jam and Spam a lot.“Þrátt fyrir ýmis furðulegheit hefur Spamalot verið sýnt við miklar vinsældir víða um heim og hlotið bæði Tony-verðlaunin og Drama Desk-verðlaunin sem besti söngleikur ársins 2005.

Eitt er víst að án efa verður mikið hlegið á sýningunni. Haft er eftir leikstjóra verksins, Stefáni B. Vilhelmssyni, að líklegast sé sýningin síður barnvæn enda nokkuð um svartan og klúran fullorðinshúmor. Þetta er þó líflegur og afar skemmtilegur söngleikur sem börn gætu vel haft gaman af. Alls taka um 40 manns þátt í sýningunni, um 20 á sviði en einnig vinna margar hendur á bak við tjöldin. Í áhugaleikhúsum geta nefnilega nánast allir fundið sér starf innan síns áhugasviðs, hvort sem um ræðir leik, stjórnun ljósa, gerð búninga eða leikmyndar, sjá um tónlist og þar fram eftir götunum.

Stefán, sem er mikill áhugamaður um byggingu leikmynda, hrósar samstarfinu milli leikdeildarinnar og Fab Lab (Fabrication Laboratory) smiðjunnar sem staðsett er í Vestmannaeyjum. Fyrir þá sem ekki vita er þar hægt að fá aðgang að smiðju með tækjum og tólum til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd auk aðstoðar fagmanna.

„Svo er einn vinkill sem er svolítið skemmtilegur. Við erum að vinna mjög mikið af leikmynd og propsi í samstarfi við Fab Lab í Vestmannaeyjum þar sem við fáum aðstöðu og ekki síst aðstoð við að koma hugmyndum frá blaði til veruleika. Ég hef, kannski meira en góðu hófi gegnir, gaman af því að byggja viðamiklar og flottar leikmyndir og fæ hérna tækifæri, en í Fab Lab er aðstaða sem er algjörlega stórkostleg þegar kemur að hönnun og frumsmíði á alls konar leikmunum og leikmyndatengdum hlutum. Bæði geta allir fengið að koma og nýta aðstöðuna en þar er líka til staðar þekking og kunnátta sem fólki býðst að nota. Og það er hægt að gera svo rosalega margt þar að þegar fólk með hugmyndir mætir þarna inn líður manni eins og allt sé hægt,“ segir Stefán að lokum.

Sýnt verður í Heiðarvegi 19, Vestmannaeyjum. Frumsýning er 28. mars og næstu sýningar: 29. mars, 30. mars, 5. apríl, 6. apríl og 12. apríl – allar sýningar kl. 20. Lokasýningarnar eru svo þann 13. apríl klukkan 18 og 21.00 og miðasala milli 16–20 alla daga frá 26. mars í síma 852-1940.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...