Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sorpkvarnir – Uppfinning andskotans?
Á faglegum nótum 27. september 2023

Sorpkvarnir – Uppfinning andskotans?

Höfundur: Ingólfur Guðnason brautastjóri garðyrkjubrauta, Garðyrkjuskólanum Reykjum/FSu

Í sumum löndum er nokkuð um að komið sé fyrir sérstakri kvörn, tengd eldhúsvaskinum sem malar matarúrgang. Þannig má losa hann út í fráveitukerfið og losna við fyrirhöfnina sem fylgir því að koma honum fyrir á annan hátt.

Þetta kerfi er eingöngu mögulegt þar sem fráveitulagnir borga, bæja og sveitarfélaga eru sérstaklega hannaðar fyrir slíka losun. Flestar kvarnir nota miðflóttaaflsdælur til að mylja matarleifar og draga til sín fitu og annan úrgang sem fer þessa leið.

Ókostirnir eru margir

Hér á landi eru þessi tæki sem betur fer lítið notuð, enda eru fráveitukerfi engan veginn hönnuð til að taka við öllu þessu viðbótarmagni lífræns efnis. Alkunna er hversu slælega mörg sveitarfélög hafa sinnt fráveitumálum enda afar kostnaðarsamt að setja upp fullkomnar hreinsistöðvar. Með réttu verklagi og fullkomnum búnaði er samt hægt að safna skólpi og hreinsa það svo vel að lokafrárennsli stöðvanna getur farið nokkuð hreint út í sjó. Mun erfiðara reynist að losna við afrennsli án neikvæðra umhverfisáhrifa þar sem þarf að notast við enn viðkvæmari viðtaka eins og ár og stöðuvötn. Það hefur reynst ganga hægt að koma upp fullkomnum hreinsistöðvum og almenningur mætti láta betur í sér heyra um þau mál.

Hvernig sem því er háttað eru íslensk frárennsliskerfi hreint ekki til þess fallin að taka við möluðum matarúrgangi í viðbót við „hefðbundið“ skólp. Lagnakerfin eru of þröng og oft undir allt of miklu álagi nú þegar.

Lausnirnar eru einfaldar

Allur afskurður við matseld ætti að sjálfsögðu að fara í endurvinnslu. Sú endurvinnsla gæti sem best átt sér stað á heimilinu, með einföldum jarðgerðaraðferðum. Annar kostur er að notast við lífrænu ílátin sem ættu, lögum samkvæmt, að vera við öll heimili og þjónustuð af viðkomandi sorphirðufyrirtækjum.

Flokkun lífræns heimilissorps er einfalt verkefni sem er fæstum ofviða. Hér er um að ræða mikil verðmæti í formi lífrænna efna sem eru notuð ýmist sem jarðvegs-næringarauki í ræktun í heimilisgarðinum eða í miðlægum jarðgerðarstöðvum. Upplýsingar um heimilisjarðgerð er víða að finna, bæði hefðbundna loftháða jarðgerð og loftfirrða vinnslu, sk. Bokashi-gerjun.

Samfélagslegar áskoranir

Sorpkvarnir eru dýr heimilistæki sem ganga fyrir rafmagni. Til að þær virki sem skyldi þarf að skola efninu niður með miklu vatni sem að sínu leyti veldur auknu álagi bæði á vatnsveitur og frárennsliskerfi. Þær þarfnast viðhalds og það þarf að skipta um síur reglulega. Einnig verður að hafa fyrir því að saxa allan úrgang þannig að hann komist niður í gegnum eldhúsvaskinn. Þá er hætt við að óæskileg efni eins og fita, plast- og málmagnir slæðist með og valdi stíflum og kostnaðarsömum tæknilegum vandamálum í hreinsunarferlinu.

Myndist stíflur nærri vaski eða á einkalóð vegna uppsafnaðra matarleifa úr sorpkvörninni er það á ábyrgð húseiganda að sjá um hreinsun, viðhald og hugsanlegar endurnýjanir lagna, sem getur verið erfitt að framkvæma svo vel sé í þeim lagnabúnaði sem við eigum að venjast.

Í nágrannalöndum okkar hefur notkun sorpkvarna ekki náð verulegum vinsældum og í mörgum sveitarfélögum er notkun þeirra beinlíns bönnuð.

Er þá horft til verulegs kostnaðarauka við hreinsanir á lögnum og tækjabúnaði sveitar- og bæjarfélaga sem af notkun þeirra hlýst auk tæringar lagna, auknum ágangi rotta og músa sem þarf að verjast og að sjálfsögðu vegna þess að aðrar leiðir við losun eru mun skynsamlegri með tilliti til umhverfisáhrifa.

Þess eru jafnvel dæmi að sveitarfélög hafi lagt í það átak að greiða heimilum fyrir að taka niður sorpkvarnir vegna alls þessa álags.

Umhverfið

Staðbundin ofauðgun næringarefna getur valdið raski á vistkerfum strandsvæða nærri skólpræsum og er oftast tengd frárennsli frá heimilum og alls kyns mannlegum athöfnum. Ekki er á bætandi með því að hleypa í gegnum eldhúsvaskinn auknu magni lífrænna efna í formi hakkaðra matarleifa. Það er fyrst og fremst nitur og fosfór sem getur valdið ofauðgun en þessi efni er einmitt að finna í ríkum mæli í matarleifum.

Molta sem myndast við jarðgerð er mjög ákjósanlegur næringarauki, bæði í heimilisgarðinum, á opnum svæðum í eigu sveitarfélaga, á golfvöllum og til að bæta jarðveg sem þarf á lífrænu efni að halda sem og við landgræðslustörf og gróðursetningu nýskóga. Önnur afurð jarðgerðar er lífgas sem nota má sem orkugjafa.

Þannig má nýta lífrænan eldhúsúrgang sem verðmætt efni í stað þess að láta hann hverfa í gegnum sorpkvörnina, jafnvel með neikvæðum áhrifum á umhverfi og vellíðan fólks.

Skylt efni: Garðyrkja

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...