Snæfellskur refill í bígerð
Refillinn verður 26 metra langur og saumaður úr bandi sem spunnið er úr Snæfellskri ull. Sjö kvenfélög á nesinu munu taka að sér verkið og er áætlað að fyrsta sporið verði saumað í haust.
Formaður Eyrbyggjasögufélagsins, Jóhannes Eyberg Ragnarsson frá Hraunhálsi í Helgafellssveit, segir markmið félagsins vera að auka áhuga almennings á Eyrbyggjasögu. Félagið hefur meðal annars staðið fyrir sögugöngum, leshring og skráningu kennileita.
Bæði skraut og einangrun
„Þegar við fórum af stað með áhugamannafélag um Eyrbyggjasögu kom fljótt upp í okkar vangaveltum vilji til að búa til refil,“ segir Eyberg. „Refill nefnast veggklæði sem voru notuð í fornöld, bæði sem skraut og sem einangrun. Þekktasti refill í heimi er Bayeux-refillinn í Frakklandi og voru saumaðir reflar á Íslandi í fornöld,“ segir hann. Á síðustu árum hafa verið saumaðir reflar úr tveimur íslendingasögum; Njálssögu og Vatnsdælasögu.
„Við fengum Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur listamann til að teikna refilinn. Hún myndgerði líka Njálu og kom að vinnslu Vatnsdælurefilsins. Þessir reflar eru annars vegar rúmlega nítíu metrar og hins vegar 46 metrar, en við eigum ekki svona langan vegg þannig að okkar refill verður 26 metrar. Flestir reflar eru í kringum sextíu sentímetra háir, en lengdin ræðst af öðru.“
Tengir Snæfellinga saman
„Við höfðum samband við kvenfélögin hérna á nesinu, sem eru sjö, og voru þau öll áhugasöm um að taka þátt. Því skiptum við reflinum upp í sjö hluta og hver bútur er 3,5 til fjórir metrar og munu kvenfélögin halda utan um saumaskapinn á hverjum hluta. Þetta gerum við til að tengja okkur saman, því að Eyrbyggjasaga er saga allra Snæfellinga.
Svo tókum við þetta aðeins lengra, en í fyrra sumar höfðum við samband við sauðfjárbændur á Snæfellsnesi og spurðum hvort þeir væru tilbúnir að gefa Eyrbyggjasögufélaginu eitt ullarreifi og það voru sautján býli sem gáfu ull. Við sömdum við Huldu Brynjólfsdóttur í Uppspuna um að taka þessi sautján reifi og spinna og lita. Refillinn verður því saumaður úr ull af Snæfellsnesi.
Bandið er tilbúið og Kristín skilaði til okkar lokateikningum í mars. Við erum búin að semja við fyrirtæki úti í Svíþjóð sem selur okkur jafann sem refillinn er saumaður í. Það er hördregill og eru útlínur myndanna prentaðar á efnið. Við vonumst til að geta tekið fyrsta sporið með haustinu eða fyrri part vetrar og gefum við okkur allavega fimm ár í saumaskapinn.“
Verði hluti af söguhring
Eyberg segir tvær hugmyndir vera uppi á borðinu um hvernig refillinn verði sýndur að verki loknu. „Annars vegar að kvenfélögin, í samstarfi við sveitarfélögin á hverjum stað, hafi aðstöðu til að sýna sinn hluta. Um leið getum við búið til söguhring á Snæfellsnesi þar sem ferðamenn geta skoðað hvern hluta á sínum stað og notið annarrar þjónustu á staðnum um leið. Þetta væri þá partur af því að ferðast á Snæfellsnesi og allir fengju eitthvað út úr þessu.
Hin hugmyndin er að á einhverjum tímum, kannski einu sinni á ári, myndum við setja refilinn upp í fullri lengd á einum stað, ef við finnum einhvers staðar nógu langan vegg. Við útbúum refilinn þannig að það verður ekkert mál að setja hann saman og taka í sundur aftur, en við viljum ekki binda stórt húsnæði fyrir refilinn í lengri tíma.“
Áhugi framar vonum
Við erum fjögur í stjórn félagsins og félagsmenn eru í kringum fimmtíu,“ segir Eyberg. „Við fengum alveg einvala lið með okkur í stjórn og er ein aðal vítamínsprautan Anna Melsted, framkvæmdastjóri og ritari. Gurra í Ögri (Guðrún Hauksdóttir) var gjaldkeri, en hætti störfum í vetur og við fengum Ólaf K. Ólafsson fyrrum sýslumann Snæfellinga og mikinn áhugamann um söguna í hennar stað.“ Meðstjórnandi er Guðlaug Sigurðardóttir, eiginkona Eybergs
„Starfið gengur framar vonum og það er gaman hversu mikinn áhuga fólk sýnir þessu og hrífst með. Við höfum staðið fyrir sögugöngum og labbað um sögustaði Eyrbyggjasögu. Í vetur vorum við með leshring um söguna sem Ólafur K. Ólafsson leiddi þar sem við hittumst tvisvar í mánuði hérna úti í skemmu. Svo erum við að hnita öll örmerkin sem tengjast sögunni, en mörg þarf að rétta af. Örmerkin sem eru í sögunni eru á bilinu 180 til 190 og þau eru öll þekkt. Þessar staðsetningar hafa fylgt okkur í gegnum aldirnar, sem er ansi gaman.“
Voru með afurðahátt kúabú
Eyberg rak ásamt eiginkonu sinni kúabú á Hraunhálsi í 41 ár og var búið um árabil meðal þeirra afurðahæstu á landinu. Hjónin hættu með kýrnar árið 2023 en eru núna með tæplega hundrað kindur og sinna fjölmörgum áhugamálum. Þau hafa innréttað vélaskemmu með myndarlegu bókasafni og aðstöðu til funda. Þar hefur Eyberg hengt upp refilinn í smækkaðri mynd sem er prentuð á pappír.
Eyrbyggjasögurefillinn er teiknaður af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur, sem hannaði jafnframt Njálurefilinn og kom að hönnun Vatnsdælurefilsins.
