Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Slump
Leiðari 21. júlí 2023

Slump

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Á dögunum sá ég mynd frá garðyrkjubónda sem sinnti kúrbítsplöntum í gróðurhúsi. Finna má þennan íslenska kúrbít í matvöruverslunum einstaka sinnum á ári.

Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri

Slíkar vörur heyra hins vegar til undantekninga. Það er vegna þess að það borgar sig ekkert sérstaklega fyrir garðyrkjuframleiðanda að rækta kúrbít hér á landi. Sem er í raun skrítið, því kúrbítur er tiltölulega auðveldur í ræktun. Þrátt fyrir að vera harðgerð og gefandi planta krefst ræktun kúrbíts talsverðrar orku og vinnu. Hún er ekki hagstæð vara til massaframleiðslu. Að minnsta kosti er enginn hér sem skilgreinir sig sem kúrbítsbónda. Hins vegar eru til tómatabændur og gúrkubændur. Þeir njóta svokallaðra A styrkja í búvörusamningum sem þýðir að þeir fá nokkuð hærra verð fyrir hvert kíló en bóndinn sem framleiðir kíló af kúrbít. Kúrbítur, ásamt reyndar öllu öðru en tómat, gúrku og papriku, nýtur svokallaðra B styrkja. A styrkjapotturinn er 290 milljónir króna í ár og B styrkir eru samtals 37 milljónir króna. Þessu er svo skipt hlutfallslega milli framleiðenda, eftir magni. Eftir því sem meira er framleitt, því lægri krónutala dreifist út á hvert framleitt kíló. Þar sem framleiðslukostnaður og uppskerumagn getur verið misjafnt er enginn fyrirsjáanleiki til staðar. Garðyrkjuframleiðendur þurfa því að slumpa á launin sín.

Í fyrra voru flutt hingað inn 247 tonn af ferskum kúrbít. Langstærsti hluti magnsins kom frá Spáni og Hollandi. Meðalkílóverð innflutningsvörunnar var um 250 kr. Evrópuríki styrkja öll grænmetisræktun á sínum heimaslóðum. Almennt er talið mikilvægt út frá fæðuöryggi þjóðar og heilsuvernd íbúa að til staðar sé aðgengilegur og hollur matur fyrir samfélagið. Endurspeglast það helst í því að minna en 10% af þeim matvælum sem framleidd eru í heiminum rata á heimsmarkað. Stuðlað er að innanlandsframleiðslu í formi stuðnings sem getur svo verið eins misjafn og löndin eru mörg. Samkvæmt kerfinu hér er hvetjandi að færri framleiði minna magn af takmörkuðu vöruframboði. Þessu vilja garðyrkjubændur breyta.

Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjubænda, segir að fallega sé talað um garðyrkjuna hjá stjórnvöldum hér á landi en orðunum fylgir enginn raunverulegur áhugi eða tillögur að beinhörðum aðgerðum garðyrkjuframleiðslunni til vaxtar. „Þegar núverandi ríkisstjórn tók við var hluti af samstarfssáttmála stjórnarflokkanna að stórauka framleiðslu á innlendu grænmeti með föstu „niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun í gegnum búvörusamninga“. Þessi yfirlýsing ásamt auknum stuðningi við garðyrkjuna sem heitið var í endurskoðun árið 2020 gáfu bændum tilefni til bjartsýni, en núna, þegar kjörtímabilið er tæplega hálfnað, virðist ljóst að aukinn stuðningur ríkisstjórnarinnar við garðyrkju eru bara orðin tóm. Stjórnarsáttmálinn og fjárhagsáætlun næstu ára segi annað. Verðbólga, gríðarlegar kostnaðaraukningar og hverfandi tollvernd hafa étið upp alla aukningu í stuðningi og það rúmlega. Endurskoðun á búvörusamningi garðyrkjunnar er því í raun engin þar sem lítið er að ræða, þar sem ekki stendur til að fara í neinar stórar breytingar á samningnum né að bæta fjármagni í hann.“ Axel undirstrikar að ef raunverulegur vilji stjórnvalda standi til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu þurfi að gera betur, enda sé ekki endalaust hægt að velta auknum kostnaði yfir á neytendur. „Grænmeti má ekki verða að slíkri lúxusvöru að neyslan dragist saman, svo ekki sé minnst á aukna sjálfbærni, bætta lýðheilsu og minni kolefnislosun sem allt fellur vel að aukinni grænmetisframleiðslu.“ Axel hvetur bændur til þess að mæta og láta í sér heyra á bændafundum sem fara fram víða um land í ágúst.

Hvernig getum við ræktað sem mest af fersku fjölbreyttu grænmeti hér á landi, þannig að framleiðendur fái mannsæmandi tekjur og neytendur fái sanngjarnt verð? Þurfum við virkilega að slumpa á styrkveitingu miðað við framleiðslukostnað eða getum við komið okkur niður á lausn, heilsu okkar og umhverfi til bóta? Hvernig getur ungi kúrbítsræktandinn gert það að atvinnu sinni að útvega matvöruverslunum íslenskan kúrbít allan ársins hring?

Skylt efni: Garðyrkja | grænmeti

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f