Skýrt ákall neytenda í merkingaóreiðunni
Á faglegum nótum 26. nóvember 2025

Skýrt ákall neytenda í merkingaóreiðunni

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Íslenskt staðfest

Merkingaóreiða hefur lengi verið við lýði hér á landi og mætti segja að hún sé af tvennum toga.

Annars vegar hefur hafsjór af merkjum komið fram á síðustu áratugum , merkjum sem eiga á einhvern hátt að grípa neytendur og sannfæra þá um uppruna eða framleiðsluhætti sem neytendum gæti þótt eftirsóknarverðir. Oft og tíðum er offramboð merkja á vörum slíkt að þau týnast jafnvel og verða ósýnileg í augum neytenda. Einhver merkjanna eru gamalreynd og njóta trausts neytenda en reynslan hefur sýnt að því miður getur verið grynnra á trúverðugleika margra merkja og því sem þau standa fyrir.

Hin birtingarmynd merkingaóreiðunnar er upprunaóreiða þar sem við sjáum hversu ruglingslegt eða jafnvel ógerlegt getur verið fyrir neytendur að átta sig á uppruna vöru. Við þekkjum öll umræðuna um smátt letrið á umbúðunum sem fæstir yfir ákveðnum aldri geta lesið án gleraugna eða leiseraðgerða. Framleiðendur hafa lengi leikið sér með íslensku fánalitina á umbúðum en við höfum einnig tekið eftir því að tungumálið er nýtt í auknum mæli á umbúðir til að grípa neytandann áður en honum dettur í hug að rýna í smáa letrið eftir uppruna. Þetta höfum við m.a. séð á erlendu grænmeti, kjöti og mjólkurvörum sem hefur verið pakkað í umbúðir með íslenskum vörumerkjum. Þannig getur neytandinn t.d. gripið með sér Heimanaut, Náttúru sveppi og ostinn Kát úr búðinni og ranglega talið sig vera að kaupa íslensk matvæli.

Skoðanakannanir bæði hér heima og erlendis sýna að merkingaóreiða síðustu ára hefur dregið úr trausti neytenda til framleiðeinda og seljenda og árlega berast Bændasamtökunum fjöldi kvartana um lélegar upprunamerkingar á landbúnaðarvörum.

Íslenskt staðfest

Bændur hafa um árabil kallað eftir skýrari upprunamerkingum. Íslensk framleiðsla er í samkeppni við innflutta og eru framleiðsluaðstæður og -kröfur það ólíkar oft og tíðum að bændur telja þessa samkeppni nokkuð ósanngjarna.

Upprunamerkið Íslenskt staðfest er svar við sterku ákalli bænda og neytenda um skýrari upprunamerkingar. Merkið á að auðvelda neytendum að fá staðfestan íslenskan uppruna hráefna, matvöru og blóma en merkið sker sig úr að því leyti að notendur merkisins þurfa að standast úttekt óháðs þriðja aðila til að hljóta vottun Íslenskt staðfest. Ásamt því að tryggja neytendum uppruna verður Íslenskt staðfest vettvangur til að lyfta upp íslenskri framleiðslu og í kynningarefni lögð áhersla á staðreyndir sem liggja að baki kostunum við að velja íslenskt.

Merkið á að auka traust neytenda, styrkja tengsl við íslenskan landbúnað og styrkja þannig ímynd og samkeppnishæfni íslenskra matvæla. Allt er þetta hluti af stærra markmiði um að efla íslenska framleiðslu og sjálfbært fæðukerfi.

Íslenskt staðfest byggir á vel heppnuðum sannreyndum fordæmum frá Norðurlöndunum. Norskar kannanir frá 2021 sýna að þekking Norðmanna á upprunamerkinu Nyt Norge er um 93% og var það hærra hlutfall meðal svarenda en það sem þekkti merki Skráargatsins og Fairtrade. Í sömu könnun kom fram að svarendur báru mjög mikið traust til Nyt Norge-merkisins og sögðu það auka kaupvilja þeirra á norskum matvælum. Svipaða sögu er að segja frá öðrum upprunamerkjum á Norðurlöndunum og auðvitað standa vonir okkar til þess að Íslenskt staðfest gefi jafngóða raun.

Upprunamerkið Íslenskt staðfest getið þið fundið á vörum Ártanga, Sólskins, Lambhaga, Græneggjum og Holta. Þessum frábæru framleiðendum ber að hampa fyrir að vera öðrum til fyrirmyndar, taka af skarið og lyfta upp íslenskri framleiðslu. Nýverið bættist Mjólkursamsalan í hóp þessa fyrirtækja og er það okkur mikil ánægja að fá þetta öfluga fyrirtæki, sem er þekkt fyrir glæsilegt vöruframboð af sannarlega íslenskum mjólkurafurðum, til liðs við okkur.

Höldum áfram að tala um mikilvægi upprunamerkinga og vinnum saman að því að gera Íslenskt staðfest að merki sem neytendur þekkja og treysta.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...