Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Skylt að geta um upprunaland kjötafurða
Fréttir 24. janúar 2017

Skylt að geta um upprunaland kjötafurða

Höfundur: smh
Reglugerð tók nýlega gildi sem kveður á um að skylt sé að tilgreina upprunaland allra kjötafurða af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum. Í gildi er sams konar reglugerð fyrir nautgripakjöt.
 
Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja rétt neytenda til að vita frá hvaða landi þær kjötvörur eru sem þeir hyggjast kaupa. Í lok árs 2013 fór af stað umræða í þjóðfélaginu um að ómögulegt væri fyrir íslenska neytendur að átta sig á hvað væru íslenskar kjötafurðir og hvað væru innfluttar í hillum verslana. Fór hún af stað eftir að Matvælastofnun greindi frá því á vef sínum að fram hafi komið fullyrðingar um að innflutt kjúklingakjöt væri selt sem ferskt og í umbúðum íslenskra framleiðenda í verslunum hér á landi. Í löndum Evrópusambandsins tók slík reglugerð gildi í desember 2014. 
 
Reglur um upprunamerkingar á fersku og frosnu nautgripakjöti hafa verið í gildi hér á landi frá hausti 2011 og í Evrópusambandinu frá árinu 2000 – eftir að svokallað kúariðumál kom upp.
 
Sáttmáli um upprunamerkingar
 
Ljóst var að talsvert magn var flutt inn af kjúklinga- og svínakjöti, en ekki var skylt að geta þess á umbúðum hvaðan kjötið væri upprunnið. Í ársbyrjun 2014 var undirritaður sáttmáli um upprunamerkingar á milli Bændasamtaka Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Neytendasamtakanna, eða í svokölluðum Samstarfshópi um bættar upprunamerkingar, þar sem fram kom að það væru sjálfsögð réttindi neytenda að vita hvaðan maturinn þeirra kæmi. 
 
Af því tilefni var hleypt af stað átaksverkefni til að vinna að vitundarvakningu um þessi málefni meðal matvælaframleiðenda og innflytjenda á matvælum og hvetja þá til að merkja upprunaland matvörunnar með skýrum hætti. Í kjölfarið hófu margir þessara söluaðila að merkja kjötafurðir sínar með upprunalandi. 
 
Gildir ekki um unnar kjötvörur
 
Sú reglugerð sem nú tekur gildi fjallar eingöngu um hreint kjöt samanber fyrstu grein hennar: „Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað á merkimiðum á nýju, kældu og frystu kjöti af svínum eða geitum og alifuglum.“
 
Varðandi merkingar á unnum kjötvörum gilda þær reglur, að í þeim tilvikum þegar hráefni eiga uppruna að rekja til annars lands en þau eru meðhöndluð eða fullunnin í, ákvarðast upprunamerkingin af þeim stað þar sem varan undirgengst síðustu umtalsverðu umbreytingu.
 
Íslenskt beikon úr dönsku svínakjöti
 
Í bæklingnum Frá hvaða landi kemur maturinn?, sem Samstarfshópur um bættar upprunamerkingar matvæla gaf út árið 2015, segir að „þegar skinka eða beikon er unnið úr svínakjöti eða kjöt nýtt í pylsur eða bökur er um að ræða umtalsverða umbreytingu.
 
Aftur á móti er ekki um að ræða umtalsverða umbreytingu þegar kjöt er niðursneitt, hakkað eða pakkað í umbúðir. Samkvæmt þessu má kalla beikon sem unnið er á Íslandi, úr dönsku svínakjöti, íslenskt beikon. 
 
Hins vegar hafa matvælaframleiðendur í síauknum mæli gengið lengra en lágmarkskröfur löggjafar á þessu sviði kveða á um og upplýst um uppruna innfluttra hráefna.“
 
Þess má geta að reglugerð um upprunamerkingar innflutts grænmetis og ávaxta tók gildi hér á landi 1. september 2009.  

Skylt efni: upprunamerkingar

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...