Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Mariana Fiserova, nemandi við skólann, fær þjálfun í trjáklifri.
Mariana Fiserova, nemandi við skólann, fær þjálfun í trjáklifri.
Á faglegum nótum 11. janúar 2021

Skógrækt í Grunnskóla Drangsness í Kaldrananeshreppi á Ströndum

Höfundur: Marta Guðrún Jóhannesdóttir

Í um tvo áratugi, eða frá því rétt fyrir aldamótin 2000, hafa nemendur Grunnskóla Drangsness í Kaldrananeshreppi ræktað tré og hlúð að skógi í skógarreiti skólans. Skólalundurinn er í landi Klúku í Bjarnarfirði rétt ofan við Hótel Laugarhól þar sem áður var annar af tveimur skólum hreppsins.

Skógrækt hefur verið stunduð í Bjarnarfirði um nokkurt skeið og hefur sem dæmi skógurinn á Svanshóli og Klúku, þar sem skógrækt hófst um sama leyti, vaxið og dafnað svo skóglendið einkennir nú mjög landslag fjarðarins. Í gegnum vinnu sína í Skólalundinum hafa börnin í Kaldrananeshreppi lagt sitt af mörkum til þess að rækta upp skóglendi á svæðinu sem ekki er þekkt fyrir mikla skóga auk þess sem þau hafa gróðursett birki frá Yrkjusjóði og dreift birkifræjum í þéttbýlinu á Drangsnesi þar sem skólinn stendur.

Yngstu nemendur skólans raða trjágreinum og mynda bókstafi.

Tæplega 20 ára gamall reitur

Eins og kom fram hér í upphafi eru tæp tuttugu ár síðan þáverandi nemendur Grunnskóla Drangsness skipulögðu þennan reit sem við köllum Skólalund. Eftir nokkurt hlé á skipulögðu skólastarfi í tengslum við reitinn skipar hann nú mikilvægan sess í starfinu bæði vor og haust. Nemendur og kennarar halda tvisvar á ári í skóginn, einn dagur að hausti og einn að vori er sérmerktur Skólalundinum í dagatali skólans. Vinnan í Skólalundi er unnin í miklu og góðu samstarfi við Arnlín Óladóttur skógfræðing, fyrrum starfsmann Skógræktar ríkisins, sem búsett er á svæðinu og starfaði áður sem kennari við skólana í hreppnum. Arnlín hefur skipulagt þau verkefni sem unnin eru í Skólalundinum ásamt kennurum og hafa þau verið afar fjölbreytt. Nemendur hafa auk þess að gróðursetja í reitinn m.a. séð um mælingar á trjám og fylgst þannig með vexti þeirra, lært að greina mismunandi trjátegundir, hlúð að trjánum með því að reyta gras frá smáplöntum, gefa áburð og klippa tvístofna og neðstu greinarnar á þeim trjám sem þurfa á því að halda. Eldri nemendur hafa farið um svæðið og notað Avenza staðsetningarappið til þess að finna tiltekna reiti ásamt því að taka þátt í öðrum verkefnum með þeim yngri. Eftir hverja heimsókn í Skólalundinn er unnið áfram með verkefnin m.a. eru laufblöð og blóm þurrkuð til síðari greiningar og efniviður fenginn úr skóginum til þess að vinna að skapandi verkefnum í öllum námsgreinum. 

Arnlín Óladóttir veitir nemendum leiðsögn við gróðursetningu.

Fá einnig tækifæri til að skoða og læra

Það er ýmislegt fleira sem vex í skjóli skógarins en þau tré sem nemendur hafa gróðursett, sveppir, ber, blóm og grös, er meðal þess sem börnin fá einnig tækifæri til að skoða og læra að þekkja ásamt fjölbreyttu dýralífi. Í Skólalundinum hafa verið gróðursett lerkitré, furutré og birki en þar vex einnig víðir og fjalldrapi. Við mælingu sem var gerð árið 2017 var hæsta tréð í lundinum 2,2 metrar en vorið 2020 mældist hæsta tréð, lerki, 2,7 metrar. Það er heilmikill lærdómur fólginn í því að fá að fylgjast svo náið með vexti skógarins. Yngstu nemendur skólans eru nú þegar farnir að njóta afraksturs þeirra sem hófu skógræktina. Þau leika sér á milli trjánna, nota afklipptar greinar og köngla til þess að skapa úr bæði í lundinum og þegar komið er til baka í skólastofuna. 

Mörg verkefni fram undan

Það eru ýmis verkefni fram undan í Skólalundi Grunnskóla Drangsness; gerð göngustíga, upplýsingaskilta og margt fleira. Eins og á við um alla skógrækt hugsum við til framtíðar og þeirra kynslóða sem munu taka við Skólalundinum eftir okkar dag. 

Það eru sannkölluð forréttindi að hafa aðgang að skógi í skólastarfi. Útiveran og nálægðin við umhverfi skógarins hefur jákvæð áhrif á líðan barnanna; við upplifum viðfangsefnið með líkamanum öllum, öllum skynfærunum og fáum að hreyfa okkur um í rými sem er ólíkt skólastofunni. Skógurinn býður upp á lifandi og fjölbreytta kennslu í öllum námsgreinum í árgöngum en það allra dýrmætasta er að nemendur skólans alast upp við að ræktun skóga og skógurinn sjálfur er hluti af lífi þeirra.

Náttúrubingó þar sem unnið er með hitt og þetta sem finna má í Skólalundinum.

 

Marta Guðrún Jóhannesdóttir

Höfundur er kennari við 
Grunnskóla Drangsness, skógarbóndi í Kaldrananes-
hreppi og ritari í stjórn Félags skógarbænda á Vestfjörðum

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...