Saga Þorsteins Björnssonar
Bóhem úr Bæjarsveit er heiti bókar sem Helgi Bjarnason blaðamaður hefur tekið saman og gefur nú út en hún er þriðja í ritröð sem nefnd er „Sagnaþættir úr Borgarfirði“.
Í henni er tekin saman saga eftirtektarverðs einstaklings úr samfélagi Borgarfjarðar og Reykjavíkur í upphafi tuttugustu aldar. Þorsteinn Björnsson, guðfræðingur, skáld og rithöfundur, kenndi sig ávallt við fæðingarstað sinn, Bæ í Borgarfirði. Hann var ákaflega sérstæður maður sem margar sögur eru til af.
Þorsteinn var sérstakur í háttum og kaus að lifa ekki hefðbundnu borgaralífi heldur fremur sem bóhem. Hann átti lengi heimili í Bæ en taldi fyrir neðan virðingu sína að vinna hefðbundin sveitastörf. Hann bjó einnig í Reykjavík við misjafnan kost, í áratug í Kanada og Bandaríkjunum og í nokkur ár í Þýskalandi en þangað hafði hann verið kostaður af vinum til að leita að auðugri stríðsekkju til að sjá fyrir honum. Síðustu árin var hann mikið á flakki á milli frændfólks og vina í Borgarfirði. Hann lést á bæ einum og spunnust af andlátinu ýmsar sögur, eins og af öllu því sem hann tók sér fyrir hendur í lifanda lífi.
Bókin er í kiljuformi, 256 blaðsíður að stærð og er prýdd fjölda ljósmynda, meðal annars sögulegra. Við sögu koma 329 menn og konur.
