Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Jón Ágúst, stjórnarmaður í Sæunnarsundi, leggur ætíð gjörva hönd á undirbúning og öryggisgæslu og leiðir hann hér þaulvanar Sæunnarsundskonur, Magneu Hilmarsdóttur og Ernu Héðinsdóttur í öruggt skjól eftir sundið yfir fjörðinn.Mynd / bs
Hefð er fyrir því að synt sé til heiðurs afrekskúnni Sæunni yfir Önundarfjörð í ágúst og árið 2024 er engin undantekning.
Um sundið og Sæunni er ítarlega fjallað í 16. tölublaði Bændablaðsins í fyrra og afrek hennar er þekkt. Í stuttu máli stóð til að slátra kúnni Hörpu í sláturhúsinu á Flateyri í október 1987, það þóttu henni vond tíðindi og óásættanleg, hún lék því á alla, sleit sig lausa og synti sér til lífs þvert yfir Önundarfjörð. Þar var hún tekin í fjós á Kirkjubóli í Valþjófsdal og gegndi hún nafninu Sæunn upp frá því.
Núna verður synt í klauffar hennar þann 31. ágúst og í anda Sæunnar verður fyllsta öryggis gætt og til þess að svo megi verða þarf að leita til björgunarsveita og kajakræðara á svæðinu til að fylgja afreksfólkinu yfir fjörðinn, um það bil 2,5 km og stundum í ólgusjó.
Ívar Kristjánsson, öryggisstjóri og stjórnarmaður í Sæunnarsundi, mundar hér sjónaukann og hefur vökult auga á öryggisgæslu sundsins. Honum á vinstri hönd er Bernharður Guðmundsson frá Kirkjubóli í Valþjófsdal, sonur Sigríðar og Guðmundar Steinars, sem tóku á móti Sæunni í fjörunni í Valþjófsdal um árið. Bernharður er eins og Ívar í stjórn Sæunnarsunds og forsprakki þessa árlega viðburðar.Ef skip Landhelgisgæslunnar er á svæðinu renna þau inn fjörðinn og eru til taks ef á þarf að halda.Guðmundur Skúli Þorgeirsson fær hér stuðning og aðhlynningu eftir sundafrekið hjá björgunarsveitarstúlkunni Sæunni Líf Christophsdóttur en Guðmundur Skúli hefur synt tvisvar í klauffar Sæunnar og farið létt með.Hólmfríður Bóasdóttir, hótelstóri í Holt Inn, er stolt þegar hún kemur í land, Hrönn ásamt bræðrunum Jóhanni og Jóni Ágústi taka á móti henni en sjóriða hrjáir sundmenn yfirleitt þegar stigið er upp úr sjónum.