RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Hafnarfirði fyrir skemmstu.
Úrslitaleiknum við Grand Thornton lyktaði með 163 impum gegn 124 impum þeirra Grant Thornton-manna.
Viðureignin var sýnd á Bridgebase Online. Gaman var að sjá Ríkisútvarpið fjalla ítarlega um mótið og ekki síður fjallaði RÚV um kúnstina að spila bridds í
sjónvarpsfréttum. Ber þessi áhersla blómlegu briddsstarfi landsmanna gott vitni sem og öflugu kynningarstarfi Bridgesambands Íslands.
MFS: Spil bragða og blekkinga
Bjarni Einarsson í sveit InfoCapital sýndi og sannaði í eftirfarandi spili að bridds er stundum leikur bragða og blekkinga.
Bjarni spilaði svokölluð vonlaus 2 grönd í suður. Út kom spaði. Hvernig myndi lesandinn spila?
„Meistarinn“, eins og Bjarni er stundum kallaður, var fljótur að sjá að beita yrði brögðum. Hann réðist strax á eigin veikleika, því sú íþrótt dugar stundum best til að andstæðingar gangi í gildru og teikni upp kolranga hendi hjá sagnhafa. Austur dúkkaði ekki óeðlilega og laufdrottning átti slaginn!
En fleira þurfti að gerast til að spilið ynnist. Tígulás liggur ekki og Bjarni hafði tilfinningu fyrir því. Hann hreyfði næst eina spilið sem dugði til að halda blekkingunni áfram. Hann spilaði hjartatíu. Vestur lagði gosa á og fékk að eiga slaginn. Ef vestur hefði fundið að spila laufi hefði vörnin fengið fjóra svarta slagi og þrjá rauða og spilið farið tvo niður, en þegar vestur spilaði „hlutlaust“ spaða áfram voru komnir átta slagir þar sem hjartað brotnaði 3-3.
Glæsileg tilþrif hjá meistaranum!

