Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Ríki heims huga að sjávarorku en Íslendingar sofa á verðinum
Mynd / sá
Fréttaskýring 12. september 2025

Ríki heims huga að sjávarorku en Íslendingar sofa á verðinum

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Þau ríki heims sem teljast þróuð og eiga land að sjó hafa mörg hver sett sér markmið og regluverk um hagnýtingu sjávarorku. Íslensk stjórnvöld eru þar eftirbátur en einkaaðilar rannsaka möguleika sjávarfalla- og ölduorkuvirkjana.

„Hagkvæmni sjávarorkunýtingar stendur enn öðrum hreinorkukostum að baki. Þetta þýðir að enn er nokkuð í land með að orkukosturinn teljist hagkvæmur á íslenskan raforkumarkað,“ segir í sameiginlegu svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Umhverfis- og orkustofnunar við fyrirspurn um sjávarorkuþróun á Íslandi.
„Áfram verður þó fylgst með þróun sjávarorku enda eru möguleikar miklir á Íslandi, teljist hagkvæmni slíkra verkefna einhvern tíma ásættanleg. Varðandi nýtingu sjávarorku eru aðstæður á Íslandi þó ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að slík verkefni reynist ódýrari hér en annars staðar,“ segir einnig í svarinu.
Áréttað er í svarinu að hvorki íslenska ríkið, né UOS séu tæknilega hlutlaus og ákveði ekki hvernig raforka er framleidd á Íslandi, að öðru leyti en því að setja skilyrði um að hún skuli vera endurnýjanleg. Fyrirtækjum sé frjálst að reisa virkjanir, t.d. sjávarorkuvirkjanir, og selja inn á netið ef öll tilskilin leyfi fást.

Alþjóðaorkumálastofnunin, IEA, hefur gefið út að virkjun sjávarorku verði stór þáttur í orkuskiptum á næstu áratugum. Áætlað er að í kringum árið 2050 verði uppsett afl sjávarvirkjana a.m.k. 300 GW. Um 680 þúsund störf hafi skapast í greininni, hún leggi til verðmæti að upphæð um 340 milljarða Bandaríkjadala og minnki losun um 500 milljón t.

Undir sjávarorku falla virkjun sjávarfallastrauma, ölduhreyfinga, seltu- og varmamismunar, til umbreytingar í raforku.

Örfá íslensk rannsóknarverkefni hafa komist á laggirnar tengd sjávarorku enn sem komið er. Orkustofnun hefur þó gefið út rannsóknarleyfi vegna mögulegrar virkjunar sjávarfalla við landið. Eitt varðaði athugun Sjávarorku ehf. á virkjun í Hvammsfirði í Breiðafirði, um 650 GWst á ári, en er útrunnið. Annað laut að virkjun sjávarfalla undir þverun Gilsfjarðar í Dalabyggð og Reykhólasveit fyrir allt að 30 MW virkjun með 65–80 GWst ársframleiðslu. Það leyfi rennur út á næsta ári. Svo virðist sem aðeins tvö fyrirtæki beiti sér í sjávarorkurannsóknum þessa dagana.

Valorka ehf. hefur um langt skeið þróað tækni til nýtingar sjávarfallaorku og er nú með í burðarliðnum svokallaða þriðju kynslóðar sjávarfallahverfla til að nýta orku annesjarasta. Þar á bæ er sagt að lauslegur samanburður við nágrannalönd bendi til að heildarorka sjávarfalla við Ísland gæti verið allt að 337 TWst/ári.

Þá er í athugun uppsetning ölduorkuvirkjana í Vestmannaeyjum á vegum Haf-Afls.

Tækni til að beisla orku sjávarstrauma. Efri röð frá vinstri: Láréttur ás-fastur. Láréttur ás-fljótandi. Lóðréttur ás. Sjávarfallaflugdreki. Neðri röð frá vinstri: Venturi-opin-miðja. Gagnkvæmnistæki/sveifluvatnsflaumur. Arkimedesarskrúfa/spírall. Mynd / Skýrsla Valorku.

Nýr áfangi í þróun sjávarorku

Haf-Afl ehf. er íslenskt fyrirtæki sem vinnur að nýtingu ölduorku við Íslandsstrendur, að sögn til að skapa stöðuga og sjálfbæra orkulind fyrir framtíðina. Fyrirtækið hefur þegar hafið undirbúningsferlið að sínu fyrsta verkefni sem miðar að raforkusjálfbærni Vestmannaeyja árið 2030, með uppsetningu 100 MW virkjunarlausnar sem samræmist framtíðarspám um orkuþörf Vestmannaeyja. Með fyrsta ölduorkugarðinum við Vestmannaeyjar er stefnt að því að bæta orkuöryggi og styðja við græn orkuskipti á Íslandi. Eyvar Örn Geirsson, framkvæmdastjóri HafAfls, segir um að ræða nýjan áfanga í þróun sjávarorku hérlendis.

„Við erum í nánu samstarfi við norska tækniþróunarfyrirtækið Havkraft AS, sem hefur áratuga reynslu af þróun ölduorkutækni. Samstarfið felst í því að miðla þekkingu, deila reynslu og meta hvernig tæknin nýtist best við íslenskar aðstæður,“ segir Eyvar.

Aðspurður hvar verkefnið standi nú segir hann Haf-Afl vinna að því að undirbúa fyrstu tilrauna- og kynningarverkefni í ölduorku við Íslandsstrendur. „Samhliða erum við í viðræðum við hagsmunaaðila og fjárfesta til að tryggja framgang verkefna. Með þessum skrefum viljum við bæði auka orkuöryggi og fjölbreytni í orkuframboði, með því að nýta ölduorku sem viðbót við aðrar endurnýjanlegar orkulindir. Þannig má einnig draga úr þörf fyrir varastöðvar sem byggja á jarðefnaeldsneyti,“ útskýrir Eyvar.

Fljótandi ölduorkustöðvar

Hugmyndin er að setja upp fljótandi ölduorkustöðvar. Er nú unnið að rannsóknum með hliðsjón af aðstæðum á Íslandi, m.a. með tilliti til öldulags, veiðislóða, hrygningarstöðva, sjófuglalífs, skipasiglingaslóða og fleira. Um er að ræða fljótandi einingar lagðar fyrir akkerum þar sem hafaldan er heppileg til orkuframleiðslu. Engir hreyfanlegir hlutir eru í sjó en í einingunum er hverfill og þær festar með fjögurra punkta akkerisfestingum. Prófanir í tönkum gefa væntingar um að hver virkjunareining framleiði um 350–500 kílóvött af uppsettu afli. Með tíu slíkum orkustöðvum væri því hægt að framleiða 3,5–5 megavött og tengja með köplum inn á raforkukerfið.

Kjöraðstæður fyrir einingarnar eru 2–5 metrar en þær gætu framleitt orku úr einungis 10 cm háum öldum. Þegar aldan er komin í ákveðna hæð hættir búnaðurinn sjálfkrafa að framleiða raforku. Vonir eru bundnar við að setja megi upp tilraunavirkjun fyrir lok ársins 2026 sem framleiði inn á raforkunetið í kjölfarið. Miða áætlanir Haf-Afls að því að stækka verkefnið árið 2029 enda verði orkuverð frá einingunum þá orðið á pari við orkuverð frá vindorku og unnt að setja upp orkugarða víðar við strendur landsins.

„... Tæknin sker sig úr sem sjálfbær og endurnýtanlegur staðbundinn orkugjafi, sem einkennist af stuttum flutningsleiðum, miklum afköstum, löngum líftíma, lágmarks umhverfisspori (sjónmengun, hljóðmengun, svæðisþörf og engin óendurkræf náttúruspjöll), litlu viðhaldi, verndun dýralífs, lágu flækjustigi og sveigjanleika. Havkraft-ölduorkubreytirinn (H-WEC), sem er nýjung á sviði Oscillating Water Column (OWC) tækni, er spennandi tækifæri fyrir sjálfbærar raforkuframleiðslu við Ísland.

Virkjanirnar er hannaðar með 50 til 100 ára líftíma í huga og setur það nýjan staðal fyrir framleiðslu raforku. Vottunarfyrirtækið DNV er langt komið með vottun tækninnar, og stórfyrirtæki á borð við Equinor hafa þegar hafið þróun tækninnar ásamt Havkraft AS til framleiðslu rafmagns við sína innviði í Norðursjónum,“ sagði m.a. í erindi Haf-Afls til bæjarráðs Vestmannaeyja í ársbyrjun 2024.

Haf-Afl ehf. hyggst setja upp fljótandi ölduorkustöðvar, 100 MW, sem miðar að raforkusjálfbærni Vestmannaeyja árið 2030. H-WEC OWC ölduorkubreytir samstarfsfyrirtækisins Havkraft. Mynd / Aðsend

Íslensk stjórnvöld átalin

Valorka ehf. var stofnuð árið 2009, einkum til að þróa hverfla til nýtingar á sjávarfallaorku af þeim straumhraða sem víða má finna, bæði hér við land og um heim allan.

Í skýrslu Valorku ehf: Sjávarfallaorka 2025 – staða tækniþróunar og nýtingar, er bent á að sjávarfallaorka sé að öllum líkindum umfangsmesta orkulind Íslendinga sem nýta beri í náinni framtíð. Í skýrslunni er m.a. skoðuð staða tækniþróunar, bæði erlendis og hérlendis, hvernig þróunin er á fleygiferð og hvernig flest þróuð strandríki leitist við að hraða henni. Íslensk stjórnvöld eru átalin fyrir að sitja með hendur í skauti á meðan t.d. nágrannar okkar Færeyingar auki sjávarorkunotkun sína ár frá ári.

„Orkustefna stjórnvalda í þágu orkufyrirtækjanna hefur leitt það af sér að sjávarorku hefur nánast enginn gaumur verið gefinn. Ísland er nánast eina strandríki heims sem hefur látið undir höfuð leggjast að kanna umfang og nýtingarmöguleika sinna sjávarorkulinda og undirbúa nýtingu þeirra,“ segir í skýrslunni.

Önnur hlið sjávarorkuþróunar lýtur að rannsóknum og regluumhverfi. Valdimar Össurarson, eigandi Valorku ehf., bendir á að Alþingi hafi árið 2014 samþykkt að hefja rannsóknir á sjávarorku en ekkert hafi gerst.

„Í framhaldi af skýrslunni átti ég samtöl við þingmenn um framgang sjávarorku, og er niðurstaðan sú að líklega verður þingmál um sjávarorku lagt fram á þessu haustþingi. Mér sýnist að hreyfing sé komin á Alþingi og ráðherra í þá átt að rannsóknir geti hafist í náinni framtíð, á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku hérlendis, og mun ég reyna að fylgja því eftir. Rannsóknir og rétt lagaumhverfi eru forsenda þess að við Íslendingar náum að nýta þessar gríðarmiklu auðlindir hreinorku sem við eigum,“ segir Valdimar.

Frá prófunum á nýrri einstrengs-gerð hverfils Valorku ehf. í Brúará á dögunum. Mynd / Valorka

Árangur fram úr björtustu vonum

„Við, ég og Hjördís Björk Ásgeirsdóttir, samstarfskona mín, hófum prófanir á nýrri einstrengsgerð hverfils Valorku nú í vor. Styrkir fengust úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands og Lóusjóði. Ekki nægði að gera líkön og mæla, heldur þurfti bæði að finna prófunaraðstöðu og hanna tæki til prófana,“ útskýrir Valdimar. Þetta sé fyrsta þróun sjávarorkutækni á landinu, og engin aðstaða hafi því verið skilgreind til prófana hennar.

„Straumkerið í Grindavík hentaði fyrir fyrri hverfillíkön en er of lítið fyrir þetta,“ heldur hann áfram. „Eina leiðin er að prófa í fallvatni eða sjó. Við fórum því vítt og breitt um Suðurland og mældum ár og læki sem okkur leist á. Um tíma prófuðum við í Laugardælaósi, ofan Selfoss, en eftir að líkanið stækkaði fengum við aðstöðu í Brúará; komum þar upp aðstöðu og höfum náð allmörgum prófunum. Árangurinn hefur farið fram úr björtustu vonum og hverfillinn stendur undir öllum væntingum á þessu stigi. Verkfræðistofan Vatnaskil mun verða okkur innan handar um úrvinnslu niðurstaðna,“ segir Valdimar jafnframt.

Inntur eftir nánari útskýringu á góðum árangri segir hann að hugmyndir hans um þessa hverfilgerð hafi verið þær að unnt væri að safna „dreifðri“ orku hægstrauma á hagkvæman hátt með blöðum á einum streng, sem gengi um tvö endahjól.

„Þá var óvissa um margt, t.d. hvort straumhraðinn nægði til að opna blöðin og hvort millihjól þyrfti til að halda strengjunum í sundur og forða flækju. Tilraunirnar hafa leitt í ljós að ekki einvörðungu nægja tvö endahjól án millihjóla heldur nægir einungis annað endahjólið, þar sem straumur er stöðugur í aðra áttina. Þetta undirstrikar t.d. það sem ég sting upp á í skýrslunni: að þessi hverfill sé mjög heppilegur til virkjunar „Blakkfoss“ [neðansjávarfoss í Grænlandssundi, innan íslenskrar lögsögu, langstærsti foss jarðar með yfir 2.000 m fall, innsk.blm.], sem þar er nefndur. Blöðin opnuðu sig án nokkurra vandræða. Vel virðist hafa tekist til með hönnun mælimasturs og annarrar prófunaraðstöðu. Þar hefur litlu þurft að breyta, en hins vegar hefur ítrekað þurft að styrkja veikustu hlekkina, þar sem átökin eru umfram áætlanir,“ segir Valdimar.

Fáist styrkir til framhalds verkefnisins verður að sögn Valdimars haldið áfram með prófanir í Brúará og aðstaða, búnaður og líkön endurbætt í ljósi reynslunnar. Þar sé að mörgu leyti prýðisaðstaða fyrir líkan af þessari stærð. Hann segist því vera bjartsýnn.

„Næsti áfangi er að smíða stærra líkan til prófunar í fallaskiptum sjó. Þá er Mikleyjaráll við Hornafjarðarhöfn mjög ákjósanlegur staður, en þar prófaði ég fyrri gerð. Hugsanlega væri unnt að hefja þær sjóprófanir næsta sumar.“ Hann segir stefnt að samstarfi við erlenda aðila um frekari þróun, en öllu forræði verði haldið hérlendis.

Nýtanleg sjávarorka við Ísland. Hámarks straumhraði (og orka). Gult: 0,5-1 m/sek (0,2-1 kW/ferm). Rautt: 1-2 m/sek (1-4,5 kW/ferm.). Kort / Skýrsla Valorku

Mörg ljón í veginum

Sjávarorka hefur frá stofnun árið 2001 unnið að rannsóknum á möguleikum til að virkja sjávarstrauma í Breiðafirði. Mikilvægur áfangi í því starfi voru mælingar sem framkvæmdar voru árin 2013 og 2014. Markmiðið var að skoða bæði hvar væri best að koma fyrir tilraunahverfli og að meta hversu mikla orku mætti raunhæft virkja í Röstinni, þar sem stærstur hluti straumflæðis í firðinum á sér stað.

Að sögn Óla Grétars Blöndals Sveinsson, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, voru á þessu tímabili gerðar fimm mælingaferðir, þar af fjórar sem beindust að mælingum á straumhraða með straumsjá og ein ferð sem mælti botnlögun á tilteknu svæði til nánari greiningar. Niðurstöðurnar sýndu að straumhraðinn var breytilegur eftir stað og tíma. Til dæmis mældist meðalhraði í Röst á flóðháflóði um 1,6 m/s og á útfalli um 1,4 m/s, en hámarkshraði náði allt að 3,6 m/s á ákveðnum tímum.

„Slíkar tölur sýna að orkan í straumunum er veruleg, þó að dreifing og óregla í straumunum geri nýtinguna krefjandi miðað við þá hverfla sem eru í boði í dag. Þrátt fyrir að ekki hafi fundist kjörstaður fyrir tilraunahverfil sem getur nýtt núverandi tækni, er verkefnið afar mikilvægt og mótar vinnu framtíðar. Það var í fyrsta sinn sem sjávarstraumar í Breiðafirði voru kortlagðir á þennan hátt og mælingarnar staðfestu bæði styrkleika og veikleika fyrri líkangerða. Í ljós kom til dæmis að tölvulíkön höfðu ofmetið hámarksstraumhraða um tæp 10%, sem er verðmæt niðurstaða til að bæta spár og hanna framtíðartækni,“ segir Óli Grétar.

Mælingarnar 2013 og 2014 hafi lagt mikilvægan grunn að þekkingarsköpun á sviði sjávarorku á Íslandi. „Þær gefa ekki aðeins skýra mynd af náttúrulegum aðstæðum í Breiðafirði heldur eru líka lykilinn að næstu skrefum í rannsóknum, þróun og ákvarðanatöku um hvernig hægt verði að virkja þessa hreinu og endurnýjanlegu orku í framtíðinni. Með þessum gögnum er Sjávarorka betur í stakk búið til að nýta möguleika sjávarorku þegar tæknin verður tilbúin til stórfelldrar notkunar.

Þeir aðilar sem standa að Sjávarorku hafa lýst sig tilbúna til að setja upp lítið sjávarorkuver í rannsóknarskyni í nágrenni Stykkishólms. Slík uppbygging hefur þó verið nefnd í tengslum við mögulegt menntasetur eða rannsóknarsetur á Stykkishólmi,“ segir Óli Grétar enn fremur.

„Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur ekki staðið fyrir, né eru til skoðunar aðgerðir eða verkefni tengd skoðun á sjávarorku, sjávarorkunýtingu/virkjunum,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn um stöðu sjávarorku. „Umhverfis- og orkustofnun fylgist hins vegar með tækniþróun og hagkvæmni allra mögulegra orkugjafa og þar er sjávarorkunýting ekki undanskilin. Fulltrúar stofnunarinnar fór til að mynda í vettvangsferð í apríl til Orkneyja, sem standa hvað fremst í rannsóknum og prófunum á fjölbreyttum sjávarorkuverkefnum. Í samtali við fjölda sérfræðinga og stofnana kom fram að ýmis þróunarverkefni eru í gangi, en engin lausn er þó orðin að alvöru markaðsvöru,“ segir í svarinu.

Sigurður Magnús Garðarsson, Ph.D. og forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, segir að hvað varði beislun sjávarfalla séu margar áskoranir í veginum. „Helsta hindrunin er almennt séð kostnaður, þ.e. margir aðrir orkukostir eru mun ódýrari per framleidda orkueiningu,“ segir hann. Þá séu ekki sérstaklega margir staðir á Íslandi sem henti fyrir slíkar virkjanir sem geri þetta líka snúið. „Það má einnig nefna að þar sem ekki eru margar slíkar virkjanir í heiminum þá er tæknin lítið þróuð sem er hindrun. Það má einnig búast við talsvert miklum umhverfisáhrifum þar sem slíkar virkjanir hafa tilhneigingu að hafa áhrif á stórt svæði. Það gæti því verið erfitt að þróa heppilegar mótvægisaðgerðir,“ segir Sigurður.

Vorið 2024 fjallaði Bændablaðið um möguleika í úthafsölduvirkjunum: Óþrjótandi orkulind, og ræddi við Jón Kristinsson, umhverfisarkitekt og frumkvöðul á sviði sjálfbærrar byggingarlistar, um hugmyndir hans að slíkum rafstöðvum. Jón hefur haft sérstakan áhuga á að nýta orku úr ölduhreyfingum sjávar; þá einkum með úthafsölduvirkjunum. Hann telur að fljótandi úthafsölduorkuver eigi eftir að gegna þýðingarmiklu hlutverki í orkubúskap framtíðarinnar og sér m.a. fyrir sér framtíðarframleiðslu á sjávarvetni. Hann hefur, ásamt starfshóp, komið fram með lausnir að slíkum mannvirkjum í bókinni De ontwikkeling van een Golf en Deining Centrale, útg. 2013 og endurútgefin 2021.

Jón hvatti Íslendinga til að fylgjast vel með og taka þátt í rannsóknum og framþróun á sjávarorkuvirkjunum, t.d. í gegnum Evrópusambandið.

„Það kemur að því að þetta fer á flug og um allan heim er verið að skoða möguleikana. Íslensku háskólarnir ættu að fá góða doktorsnema í að skoða þetta,“ sagði Jón.

Mælt með stuðningi

Í apríl í fyrra kom sem fyrr segir út Skýrsla starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um bætta orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar, þ.m.t. sjávarorku. Lagði starfshópurinn til að haldið yrði áfram að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði sjávarorku hérlendis. Orkustofnun yrði falið að vinna greinargerð og fylgjast með þróun og stöðu á nýtingu sjávarorku í öðrum ríkjum.

„Mikilvægt er að orkufyrirtæki fylgist áfram með þróuninni og taki þátt í verkefnum sem þau telja að geti skilað árangri varðandi rannsóknir og þróun á nýtingu sjávarorku hérlendis,“ sagði í niðurstöðum skýrslunnar.

Starfshópurinn telur raunhæft að ætla að nýting sjávarorku við Ísland verði að veruleika á næstu árum. Árið 2040 ætti að stefna að því að árleg orkuframleiðsla með sjávarorku við Ísland yrði orðin allt að 200 GWst (þ.e. um 1% af heildarorkunotkun ársins 2022.) Þetta sé þó í raun fyrst og fremst táknræn tala, til að sýna fram að starfshópurinn hafi trú á því að sjávarorka verði orðin samkeppnishæfur orkukostur árið 2040.

Fram kom að Evrópusambandið og ýmis ríki hafi varið háum fjárhæðum til þróunar sjávarorku í von um að geta verið í forystuhlutverki þegar og ef samkeppnishæfni næst. Áætlað sé að Evrópusambandið hafi síðastliðin tíu ár fjárfest yfir 55 milljörðum íslenskra króna (375 milljónir evra) í rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði sjávarorku í gegnum rannsóknasjóði sína. Þá hefði að auki verið gert ráð fyrir tæplega 15 milljörðum króna (94 milljónir evra) í styrki til verkefna á sviði sjávarorku í gegnum Horizon Europerannsóknaráætlunina árin 2023-2024 en í þann sjóð gátu Íslendingar sótt. Í stefnu Evrópusambandsins um endurnýjanlega orku á hafi frá 2020 sé kallað á aðgerðir til að setja upp 1 GW af sjávarorku fyrir 2030 og 40 GW fyrir árið 2050.

Ósanngjörn gagnrýni

Í skýrslu Valorku segir að hagkvæmni sjávarfallavirkjana hafi löngum verið dregin í efa, einkum af hagsmunaaðilum á vegum annarra orkuvinnsluaðferða.

„Sú gagnrýni á vissulega við rök að styðjast þegar litið er á kostnaðartölur við smíði og rekstur þeirra örfáu frumgerða sem nú framleiða raforku í tilraunaskyni í þróunarferli sínu. Gagnrýnin er þó augljóslega mjög ósanngjörn, þar sem á bak við þessa örlitlu raforkusölu fárra frumgerða liggur gríðarlegur þróunarkostnaður. Segja má að þróun sjávarfallahverfla standi núna á svipuðu stigi og þróun vindmylla fyrir nokkrum áratugum; áður en fjöldaframleiðsla á þeim hófst, og notkun þeirra varð almenn í fjölda heimsríkja. Vindmyllur hafa núna náð þeirri hagkvæmni, með fjöldaframleiðslu og magnsölu orku, að geta (sums staðar) boðið samkeppnisfær verð raforku. Ekki leikur minnsti vafi á að sjávarfallavirkjanir munu feta sömu slóð,“ segir enn fremur í skýrslunni.

Heimildir: Sjávarfallaorka 2025, Staða tækniþróunar og nýtingar, Valorka. Skýrsla starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um bætta orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar, 2024. Orka sjávar óbeisluð, fréttaskýring, Bændablaðið, okt. 2023.

Kostir í sjávarorkuvirkjunum

Ölduorka er orka haföldunnar, en lóðrétt hreyfing úthafsbylgna inniheldur mikla hreyfiorku. Margar aðferðir eru hugsanlegar til virkjunar ölduorku og margar eru í þróun. Úti á rúmsjó má nota fljótandi fleka með liðamótum, hreyfingu í geymi sem lyftist á öldunni eða fljótandi kví sem „heflar“ öldutoppana. Á grunnsævi má nýta hreyfingu milli fastrar botnfestingar og annað hvort lóðrétts spjalds eða fljótandi bauju. Við bryggjukanta má nýta hífingu öldunnar til að lyfta floti eða valda sogi eða streymi í stokki. Ölduorku má rekja til þess að sólin knýr veðrakerfi og vindinn sem aftur orsakar öldugang. Ölduorka er því endurnýjanleg orka, en ekki fyrirsjáanleg orkulind fremur en vindorka. Margar tæknilegar áskoranir fylgja virkjun hennar, t.d. álag á tæki í miklu brimi.

Sjávarfallaorka er hins vegar mjög fyrirsjáanleg orkulind á hverjum stað, enda felst hún í streymi sjávar vegna flóðs og fjöru. Þar sem sjávarföll eru einkum háð þyngdartogi tunglsins á jörðina er orkan endurnýjanleg líkt og bylgjuorka og mun væntanlega ekki klárast meðan tunglið snýst sinn vanabundna hring, einn hring um sjálft sig um leið og það snýst einn hring umhverfis jörð. Afstaða tungls, jarðar og sólar hefur einnig nokkur áhrif á sjávarföll. Sjávarfallaorkan er því fyrirsjáanleg orkuauðlind á hverjum stað, þótt mjög sé henni misskipt milli svæða. Margar aðferðir við ölduvirkjanir eru í þróun og sumar hafa komist í tilraunarekstur. Helsta vandamálið er eyðileggingamáttur bárunnar í versta sjólagi.

Seltumunarvirkjanir byggja á mismunandi seltu sjávar og ferskvatns. Þar sem hvort tveggja er til staðar má byggja upp þrýsting með flæði (osmósu) gegnum sérstakar himnur, en þann þrýsting má síðan virkja til framleiðslu rafmagns. Slíkar aðstæður skapast helst við árósa. Þær gætu tryggt stöðuga framleiðslu og eru ekki veðurháðar. Seltuvirkjanir eru enn á tilraunastigi og eiga langt í land með hagkvæmni. Þeim fylgja tæknilegar áskoranir auk þess sem umhverfisáhrif þeirra eru ekki að fullu þekkt.

Hitastigulsvirkjanir, þ.e. virkjanir sem byggja á varmamismun í hafi, grundvallast á a.m.k. 20°C hitamun milli yfirborðslaga sjávar og hefur sá kostur því ekki verið til skoðunar hérlendis. Tæknin er á algeru tilraunastigi og á langt í land með hagkvæmni.

  • Fyrsta sjávarfallavirkjun heims, til raforkuframleiðslu í stórum stíl, var stífluvirkjunin í La-Rance á Frakklandi, með 240 MW uppsett afl.
  • Fyrsta sjávarfallavirkjunin í fullri stærð, sem hagnýtti strauma án stíflugerðar, var hverfill Marine Current Technology (MCT) sem keyrður var í tilraunaskyni í Strangford Logu á Norður-Írlandi frá 2007.
  • Fyrsti íslenski sjávarfallahverfillinn var kornmylla sem sett var upp í Brokey á Breiðafirði árið 1901, þar sem straumar í eyjasundi knúðu vatnshjól. Myllan var í notkun til 1924.
  • Árið 2023 jókst uppsett afl sjávarorkuvirkjana um 2 MW, en frá 2010 till 2023 hafði uppsett afl starfandi sjávarfallahverfla aukist um 41 MW. Það ár fór framleiðsla þeirra yfir 90 GWst. Árið 2023 vörðu heimsríki samtals 215 milljónum dollara (yfir 30 milljörðum króna) til þróunar sjávarorkutækni. Fjárfesting einkaaðila í geiranum jókst um 75% (REN21).
  • Fjármálaráðgjafafyrirtækið Fortune segir m.a. í markaðsfrétt sinni í mars 2025: „Heimsmarkaður öldu- og sjávarfallaorku var metinn á 0,98 milljarða bandaríkjadala árið 2023 og 1,28 milljarða 2024. Áætlaður 19,75 milljarðar árið 2032. Evrópa er þar yfirgnæfandi, með 64,29% hlut árið 2023.“

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...