Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Riða – hvað getum við gert?
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 18. nóvember 2021

Riða – hvað getum við gert?

Höfundur: Sigurbjörg Ólöf Bergsdóttir, Sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma.

Riða í sauðfé er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur sem endar alltaf með dauða. Sjúk­dómurinn veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu.

Flestar kindur sem sýna einkenni eru 1½-5 ára. Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótín, nefnt Príon eða PrP sem hefur breytt lögun og við það orðið sjúklegt. Príon er fádæma lífseigt, þolir langa suðu og flest sótthreinsiefni nema helst klór. Smitefnið getur verið virkt í umhverfinu í meira en áratug en veðrun virðist gera það óvirkt með tímanum. Tíminn sem líður frá því smitefnið berst í kind þar til einkenni koma fram telst í mörgum mánuðum og árum og þess vegna er smitrakning erfið.

Smitleiðir eru að mestu þekktar, langoftast smitast lömb á sauðburði. Fé getur þó smitast síðar og þá með beinni snertingu við smitefnið t.d. með því að sleikja hluti sem riðuveikt fé hefur m.a. nuddað sér við. Smitefnið getur einnig borist með tólum svo sem fjárklippum, burðarhjálpar- eða sæðingarbúnaði. Rannsóknir hafa sýnt að fé smitast síður á beitilandi þó þar hafi verið riðuveikt fé nokkru áður.

Sýnt hefur verið fram á að tilteknar arfgerðir veita vernd gegn riðuveiki og aðrar arfgerðir eru lítið næmar fyrir riðu. Vonandi munu yfirstandandi og komandi rannsóknir á arfgerð og   stofnum riðusmitefnisins færa okkur aukin tól sem nýtast í baráttunni gegn sjúkdómnum. Með samhentu átaki er hægt að útrýma riðuveiki hér á landi. Við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum: smitvörnum, upprætingu smitefnis (niðurskurði og hreinsunum) og ræktun fjár með tilliti til arfgerðar. Ræktunarstarf tekur tíma eins og bændur þekkja manna best. Mest áríðandi er að varast fé með áhættuarfgerð (VRQ) en rækta fram lítið næma arfgerð (AHQ) og svo verndandi arfgerðir eftir því sem þekkingu þar að lútandi fleytir fram. Vonir hafa glæðst með greiningu arfgerðarinnar T137 í fé hér á landi en það hefur reynst verndandi í einu sauðfjárkyni á Ítalíu. Nokkur ár mun taka að rannsaka hvort hið sama gildir í íslensku fé og fyrir það riðusmitefni sem hér er. Hægt er að hefja ræktun á þessari arfgerð í þeirri von að hún reynist einnig verndandi í okkar fé.

Eitt getum við gert sem virkar strax, en það eru smitvarnir. Mikil­vægast er að verjast smiti á þeim stöðum sem mestar líkur eru á að smit berist í fé og muna að ungviði er móttækilegra en fullorðið fé. Hér er tæpt á mikilvægum smitvörnum.

 

Að hausti:
  • Ekki taka við fé frá öðrum eða hýsa aðkomufé á riðu- eða áhættusvæðum.
  • Fanga aðkomufé fjarri heimarétt og láta eiganda sækja það með sínu farartæki.
  • Vanda til smölunar að hausti og fyrirbyggja eftir því sem kostur er að fé sé að heimtast fram eftir vetri.
  • Ekki leyfa notkun  á tækjum og tólum sem notuð hafa verið á bæjum á riðu- eða áhættusvæðum. Hér er átt við tól sem koma í beina snertingu við blóð eða slímhúð, svo sem fjárklippukambar, markatangir, fjölnota skeiðarglennur, -rör, burðarhjálparbúnaður o.fl.
  • Ekki fara með hrúta á milli bæja.
  • Ekki fara í fjárhús á öðrum bæjum nema vera í hreinum hlífðarfatnaði eða fatnaði sem tilheyra viðkomandi bæ.
Að vori:
  • Ekki fara á milli bæja/fjárhúsa á sauðburði.
  • Viðhafa gott hreinlæti á sauðburði.
  • Fjarlægja hildir strax og farga þeim.
  • Þvo og sótthreinsa burðarstíur reglulega með 2% klórblöndu.
 Alltaf:
  • Girða jörðina af og halda henni fjárheldri.
  • Fjarlægja öll hræ án tafar og farga þeim í samræmi við úrræði sveitarfélagsins. Ef um er að ræða hræ af fullorðnu fé þarf að tilkynna um þau til MAST og óska eftir sýnatöku.

Riðuveiki greindist á fimm sauðfjárbúum í Skagafirði haustið 2020. Í kjölfar þess ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ráðast í endurskoðun á reglum sem varða viðbrögð við riðuveiki.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir var fengin til verksins og hefur unnið að því að útbúa nýtt regluverk, m.a. með því að eiga samráð við hagaðila í greininni og helstu sérfræðinga á sviðinu.

Sigurbjörg Ólöf Bergsdóttir,
Sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...