Rándýrt lúsmý!
Fjölmiðlar og stjórnmálafólk auka þörfina fyrir sálfræðinga, sagði einhver. Sennilega ekki einir um það. Einhverjir stjórnmálamenn búa til óþarfa ógnir, til að geta selt sjálfa sig sem (einu) lausnina. Sumir fjölmiðlar, áhrifavaldar, o.fl. gætu viljað hræða/ hneyksla þig til að veita þeim athygli og „smelli“. Eða í tilfelli eldri borgara: ellismelli.
Sennilega er langalgengasta leiðin til að blekkja og stýra jafnt einstaklingum sem hópum, í gegnum okkar meðfæddu viðbrögð við ógn og ótta. Hvaða séns á sannleikurinn á móti „hræðilegri ógn“, sérstaklega ef tímapressa fylgir? Fljótfærni þýðir að rökhugsunin hefur síður tíma til að bregðast við.
Allt hefur auðvitað sinn kostnað og velta má fyrir sér hvort einhverjir aðilar innan áðurnefndra stétta séu með sinni hegðun að auka á vandamál, sem og kostnað, vegna geðheilsu.
Hræðslukostnaður
Skv skoðanakönnun eru tæp 70% Íslendinga hrædd við lúsmý [1]. Svipuð prósenta telur reyndar að lúsmý sé hluti af aðgerðum „djúpríkisins“, skv annarri könnun [2].
Kostnaður vegna lúsmýs gæti falist í forvörnum, eða t.d. meindýraeyðum sem sannfæra þig um að láta þá eitra bara „til öryggis“. En hræðsla við einhverja ógn getur ýtt undir kostnað vegna geðheilbrigðis.
Ég tók því að mér að kanna einn möguleikann á sparnaði í heilbrigðiskerfinu: er raunverulega ástæða til að óttast lúsmý, eða getum við sparað einhverjum sálfræðingum vinnuna?
Oj bara
Fluga sem vex upp í votlendi og blautum, rotnandi jurtaleifum. Leitar okkur uppi út frá líkamslykt og úrgangslofti við útöndun, leggur gjarnan til atlögu þegar fórnarlambið sefur, jafnvel fáklætt. Ekki beint heillandi. Lítið þekkt staðreynd er að lúsmý er upprunalega afkvæmi mývargs og lítt þróaðrar tegundar af flatlús, eða forvera hennar. Þaðan kemur nafnið. Því er engin tilviljun að lúsmý geti dreift kynsjúkdómum og bitin valdi kláða. Þetta er þó auðvitað ekki satt.
En fyrst það er samfélagsmein að dæma í flýti, hvað þá út frá hræðslu, skulum við byrja á byrjuninni.
Lúsvargur
Það sem við köllum dagsdaglega lúsmý er bara ein tegund af þeim þúsundum sem tilheyra lúsmýsætt. Heitið vísar því til allra þeirra tegunda, ásamt því að vísa sérstaklega til þessarar sem mest er á milli tannanna á okkur. Enda búkurinn mjórri en meðal tannþráður! (Meira að segja búklengdin er oftast ekki nema rúmur millimetri.)
Sumir segja að maður þekki bitin frá lúsmý og gamla góða mývarginum í sundur á því að lúsmý þarf svo mikla stillu að það bítur nánast eingöngu innandyra, en mývargurinn utandyra. Aðrir nefna fjölda bita. Vargurinn getur þó alveg hópast saman og skilað af sér ansi mörgum bitum. Enn aðrir nefna að bitmý sést ekki vel fyrr en það er komið nálægt, eða í miklum fjölda, á meðan alvöru lúsmý sé svo lítið að það sjáist í mesta lagi þegar það er að bíta mann, sé húðin nægilega skjannahvít og hárlaus. Sjálfsagt allt ágætis viðmið.
Ferðalag
Til að meta ógnina leitaði ég uppi lúsmý. Faldi eina flugu. Áttaði mig svo á að það var prentvilla. Skipti út „F“ fyrir „V“ og valdi eina flugu til að elta. Hún veitti mér litla athygli svo eftirförin var auðveld. Hefði getað sleppt dulargervinu, en best að taka enga sénsa. Hún flaug stutt, settist svo á vegg og beið þar. Ég beið með henni. Eftir rúman klukkutíma hreyfði hún sig loks aftur og tók til flugs. Þá var ég hins vegar orðinn ansi þreyttur. Ég geispaði og gleypti hana. Óvart. Hún hefði þó gert það sama hefði ég ekki verið fyrri til. Hefði getað farið verr. Það var lúsmýsveður, stillt. Smá gola en sem betur fer geispaði ég henni ekki.
Fór aftur á byrjunarreit. Valdi aðra flugu, núna örlítið stærri svo vöktunin væri auðveldari. Þessi var mun peppaðri og flaug strax að næsta blómabeði, fram hjá árósum og í kringum sumarblómin. (Á-rós: rós með sérlega leiðinlega þyrna.) Virtist leitandi. Flaug svo beint inn í miðja blómaþyrpinguna og skoðaði blómin. Sveimaði kringum vatnsberana (Aquilegia). Lenti á mörgum þeirra, en alltaf bara stutt. Eftir smá stund tók ég eftir því að hún var alltaf að lenda á efsta hluta hvers blóms og nagaði sig inn í botninn. Furðuleg hegðun. Kannski bara skemmdarfýsn?
Ekki er allt sem sýnist
Þessi hegðun var nægilega furðuleg til að ég leitaði mér nánari upplýsinga. Runnu þá á mig tvær grímur. Kampagríma (Penstemon whippleanus) og runnagríma (Penstemon fruticosus). Ég hafði greinilega ekki vandað mig þegar ég lagði pottana frá mér.
Þessi hegðun rímaði sannarlega illa við helstu upplýsingar um lúsmý. Kom þá í ljós að ég hafði ekki verið að elta lúsmý, heldur húshumlu (Bombus lucorum). Skýrir af hverju hún var 15–20X stærri en ég átti von á. Var samt handviss um að þetta væri lúsmý eftir að hafa póstað mynd í Facebook-grúppu. Þar höfðu a.m.k. sjö manns sagt þetta vera lúsmý, fyrst þetta getur stungið. Sem lúsmý gerir reyndar ekki, það bítur. Ekki datt mér í hug að fólk á Facebook gæti haft rangt fyrir sér, hvað þá sjö manns!
Húshumla er sem sagt ein þeirra sem er oft í daglegu tali kölluð hunangsfluga eða býfluga. Bústin og röndótt, loðin eins og bangsi. Fannst hér fyrst sama ár og ég, en hefur náð töluvert meiri útbreiðslu. Nagar sig inn í djúpu blómin við blómbotninn, til að ná blómsafanum. Fín lausn þegar maður er með stutta tungu.
Lúsmý og eggjastokkar
Lúsmý á það sameiginlegt með humlum að nærast almennt ekki á fólki heldur á blómasafa og frjói. Hjá sumum tegundum af lúsmý fyllist kvendýrið þó óstjórnlegum blóðþorsta í tengslum við móðurhlutverkið. Ekki ósvipað og óléttar konur sem verða allt í einu brjálaðar í súkkulaði, eða brokkolí.
Stöku tegundir af lúsmý geta sýkt jórturdýr af alvarlegum sjúkdómum samhliða bitinu og t.d. orsakað svokallað sumarexem í hestum. Við þurfum þó sem betur fer að óttast hvorugt með hina blóðþyrstu tegund sem hér finnst. Rót þorstans liggur í því að kvendýrin geta ekki fullþroskað eggin sín án blóðsins. Að neita lúsmý um blóð hefur því bein áhrif á möguleika hennar til að eignast börn. Varla viljum við hafa það á samviskunni?
Þetta er annars áhugavert varðandi kynjamuninn. Ég þekki nokkra sem verða samstundis þaktir skýi af mýflugum þegar þeir eru utandyra, án þess að fá eitt einasta bit. Sennilega eru þeir bara að laða að sér karlkynið, í svona miklu magni. Lesi hver úr því sem vill ...
Niðurstaða: svo sannarlega pirrandi, en ógn til að óttast? Ekki þannig að það kalli á stórar aðgerðir. Ef meindýraeyðir býr til einhverja ímyndaða framtíðarsýn hve allt verði morandi í þeim eftir 100 ár sé ekki eitrað strax, myndi ég líklega frekar senda hann til sálfræðings en að fara sjálfur.
Heimildir: [1][2] ég spurði 3 aðila og 2 af þeim svöruðu játandi.
