Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
„Í dag er ekkert í lögum sem skyldar orkusölufyrirtæki til að selja okkur í ylræktinni raforkuna frekar en öðrum og gætu þau því auðveldlega selt hana til betur borgandi fyrirtækja. En með þessum lögum er verið að tryggja það að við höfum alltaf aðgang að raforku,“ segir Axel Sæland. Myndin er af Búrfellsstöð.
„Í dag er ekkert í lögum sem skyldar orkusölufyrirtæki til að selja okkur í ylræktinni raforkuna frekar en öðrum og gætu þau því auðveldlega selt hana til betur borgandi fyrirtækja. En með þessum lögum er verið að tryggja það að við höfum alltaf aðgang að raforku,“ segir Axel Sæland. Myndin er af Búrfellsstöð.
Mynd / Landsvirkjun
Fréttaskýring 2. júlí 2025

Raforkuöryggi almennings og lítilla fyrirtækja aukið

Höfundur: Þröstur Helgason

Mælt hefur verið fyrir frumvarpi til breytinga á raforkulögum sem ætlað er að auka orkuöryggi og tryggja heimilisnotendum og mikilvægum samfélagsinnviðum forgang komi til skömmtunar. Í haust er svo væntanlegt frumvarp sem tryggir forgang raforku til almennra notenda, þar á meðal bænda.

Um nokkurt skeið hafa verið uppi hugmyndir um að auka raforkuöryggi almennings og minni eða almennra fyrirtækja, þar á meðal bænda. Í því felst að heimilum og minni fyrirtækjum, sem nota árlega á bilinu 2-20 GWh, sé tryggt „ótruflað orkuframboð á viðráðanlegu verði“ eins og segir í skilgreiningu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar á orkuöryggi.

Ástæðan fyrir því að tryggja þurfi orkuöryggi almennings með þessum hætti er sú að vísbendingar eru um að sú staða geti komið upp að framboð raforku verði ekki nægjanlegt á almennum markaði, vegna þróunar raforkumarkaðar á Íslandi, sem hefur verið skipt í almenna notendur (20%) og stórnotendur (80%).

Fram kemur í skýrslu starfshóps um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku frá ágúst 2020 að vísbendingar séu um að rafmagnssala á almennum markaði gefi hugsanlega minna af sér en sala til stórnotenda. „Raforkuframleiðendur kunna að sjá sér hag í því að selja stórnotendum raforku sem hingað til hefur verið seld almennum notendum. Bent er á að engum beri skylda til að sinna auknum þörfum almenns markaðar.“

Með gildandi raforkulögum frá 2003 var aflögð skylda Landsvirkjunar til að sjá notendum á landinu fyrir fullnægjandi framboði raforku og að framboð raforku eigi að ráðast af markaðslögmálum. Frá gildistöku þeirra laga hefur vernd notenda einkum birst í lagaskyldu dreifiveitna til að tengja notendur við dreifikerfið og ákvæðum í reglugerð um að tryggja notendum sölusamninga.

Ráðherra hefur nú mælt mælt fyrir frumvarpi til breytinga á raforkulögum sem ætlað er að auka orkuöryggi með bættri upplýsingaöflun- og miðlun, nýtingu sveigjanleika raforkukerfisins og að tryggja heimilisnotendum og mikilvægum samfélagsinnviðum forgang komi til skömmtunar.

Tillögur frumvarpsins eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, eins og í frumnvarpinu segir, en þar ber helst að nefna tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku. Í frumvarpinu segir: „Ýmis ákvæði tilskipunarinnar snerta afhendingaröryggi raforku. Þannig mælir tilskipunin fyrir um skyldu aðildarríkja til að tryggja öllum heimilisnotendum og, eftir því sem aðildarríkin telja rétt, litlum fyrirtækjum alþjónustu, þ.e. rétt á að fá afhenta raforku af ákveðnum gæðum á sanngjörnu verði sem er gegnsætt, auðveldlega samanburðarhæft og felur ekki í sér mismunun.“

Þessi lög munu þó ekki tryggja forgang raforku til almennra notenda og því verður á næsta löggjafarþingi lagt fram annað frumvarp með frekari ráðstöfunum til þess að fylgja eftir markmiðum ríkisstjórnarinnar um forgang raforku til almennra notenda. Unnið er að útfærslu þeirra breytinga í samstarfi við erlenda ráðgjafa, eftir því sem upplýsingar frá ráðneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála herma. Hvað það frumvarp mun innihalda nákvæmlega kemur því ekki í ljós fyrr en á næsta þingi.

Ítrekað kallað eftir leyfi til forgangsröðunnar

Þótt það hafi ekki verið lagaleg skylda, þá hefur Landsvirkjun talið það vera hluta af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins að halda til haga orku fyrir heimili, smærri fyrirtæki og mikilvæga innviði eins og flutningstöp. „Ef sú orka yrði seld annað gæti það haft veruleg áhrif á orkuöryggi,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

„Við höfum ítrekað kallað eftir lagasetningu sem gefi Landsvirkjun ótvírætt leyfi til að forgangsraða með þessum hætti. Bæði Eftirlitsstofnun EFTA og Samkeppniseftirlitið fylgjast grannt með íslenskum raforkumarkaði og það er mjög mikilvægt að enginn vafi leiki á lögmæti þessarar forgangsröðunar. Ég fagna því þeim fyrirætlunum stjórnvalda að tryggja raforkuöryggi með lögum.

Undanfarin ár hefur verið mjög þröng staða í raforkukerfinu og Landsvirkjun hefur því miður þurft að hafna fjölmörgum áhugaverðum óskum um raforkukaup. Þegar við bætast léleg vatnsár og leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir sem minnir á slönguspil, má hreinlega ekki mikið út af bera til að illa fari.“

Hörður segir að samkvæmt spá Landsnets frá 2024 þurfi að minnsta kosti um 8 TWst til viðbótar inn í orkukerfið á næstu 15 árum, kerfi sem í dag er um 20 TWst.

„Þessi spá gerir ekki ráð fyrir fullum orkuskiptum og byggir raunar á mjög hóflegum vexti atvinnulífs og samfélags. Aðrar spár sýna fram á enn meiri þörf yfir þetta tímabil og óvissan er meiri þegar fram líða stundir. Það er því mjög aðkallandi að auka orkuvinnslu en eins og við vitum flest hefur reynst þrautin þyngri að komast af stað með mikilvæg verkefni s.s. Hvammsvirkjun og Vaðölduver. Nægt framboð er lykillinn að orkuöryggi,“ segir Hörður

Hann segir að frumvarpið sem nú liggi fyrir Alþingi sé að mörgu leyti ágætt svo langt sem það nái.

„Breytingarnar sem þar eru lagðar til snúa að því að tryggja heimilum og almennum notendum forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika. Það tryggir þó ekki raforkuöryggi til langs tíma og hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þegar tilkynnt að frumvarp þess efnis verði lagt fram í haust. Landsvirkjun styður það og við hlökkum til að sjá hvernig það verður útfært.“

Hörður er bjartsýnn þrátt fyrir að hann telji ýmsar áskoranir hafa komið upp í orkumálum undanfarið.

„Þetta vatnsár stefnir í að verða mjög gott, Alþingi virðist einhuga um að tryggja framgang nýrrar, endurnýjanlegrar orkuvinnslu og svo megum við heldur ekki gleyma því að viðskiptaumhverfið á Íslandi hefur frá setningu raforkulaganna skilað íslenskum raforkukaupendum hagkvæmasta og fyrirsjáanlegasta raforkuverði sem þekkist í Evrópu, allt frá almenningi til álvera. Við megum sannarlega vera stolt af því hversu vel hefur tekist til með uppbyggingu íslenska raforkukerfisins, sem er einstakt í heiminum. Svo má bæta því við að eftir nokkra verðhækkun raforku undanfarin misseri hefur verð lækkað töluvert í söluferlum Vonarskarðs síðustu mánuði.“

Mikilvægt skref en raforkuverð reynir á þolrif ylræktar

Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjubænda, segir að þær breytingar sem fyrirhugað sé að gera á raforkulögum séu mikilvæg fyrir yklræktina í landinu:

„Í dag er ekkert í lögum sem skyldar orkusölufyrirtæki til að selja okkur í ylræktinni raforkuna frekar en öðrum og gætu þau því auðveldlega selt hana til betur borgandi fyrirtækja. En með þessum lögum er verið að tryggja það að við höfum alltaf aðgang að raforku. Þetta er gríðarlega mikilvægt skref fyrir framtíð greinarinnar. Nútíma ylrækt vill geta boðið upp á sína vöru allt árið og því er aðgangur að raforku lífsnauðsynlegur fyrir hana.“

Axel bendir þó á að raforkuverð skipti ekki síður máli fyrir ylræktarbændur:

„Við höfum ítrekað bent á þá miklu eftirspurn sem vaxið hefur síðustu 2 ár og þrýst verðunum upp sem hefur haft mikil áhrif á ylræktina en einnig annan iðnað og heimili. Það kom skýrt fram í kynningu Raforkueftirlitsins 16. júní síðastliðinn að ylrækt væri í afar viðkvæmri stöðu hvað varðar miklar verðhækkanir á raforku. EBIDA greinarinnar væri lág miðað við annan iðnað og því illa samkeppnishæf á þeim markaði. Ef raforkuverð heldur áfram að hækka mun það virkilega reyna á þolmörk greinarinnar. Ylræktað íslenskt grænmeti keppir við tollfrjálsan innflutning.

Það sem greinin vill sjá er umhverfi þar sem bændur geta keppt í gæðum og verðum á íslenskum markaði, hvort sem varan fer í verslanir, veitingahús, mötuneyti eða hótel. Það á ekki að vera sjálfsagt mál að íslensk vara sé dýrari. Ríkistjórnin getur haft afgerandi áhrif á það umhverfi sem garðyrkjubændur búa við með ýmsum hætti.“

Axel bendir í því sambandi á 40% fjárfestingarstuðning til kaupa á LED-ljósum í ylrækt sem Jóhann Páll Umhverfis, -orku og loftlagsráðherra setti á laggirnar nú á vormánuðum.

„Þessi stuðningur mun skila sér á næstu árum með lægri orkuþörf í garðyrkjunni og þar af leiðandi lægri orkukostnaði. Við þurfum einmitt svona aðgerðir sem nútímavæða garðyrkjuna og gera hana samkeppnishæfari við innflutning. En þetta er mikil fjárfesting hjá bændum og það mun taka tíma að ná til baka þeim kostnaði sem lagt er út í.“

Axel segir að stjórnvöld gæti einnig tekið gott skref með því að tryggja 95% endurgreiðslu á flutnings- og dreifikostnaði raforku, en þetta hefur verið aðal áherslumál ylræktarinnar til margra ára.

„Með því væri verið að bæta rekstrarumhverfi greinarinnar til muna og bændur vissu fyrir víst hvað þeir væru að greiða fyrir flutninginn og dreifinguna. Þannig væri kominn meiri fyrirsjáanleiki í reksturinn.“

Jöfnunargjald raforku

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála er flutningsgjald raforku það sama um land allt, en gjald fyrir dreifingu raforku er hærra í dreifbýli en í þéttbýli á svæðum þar sem Umhverfis- og orkustofnun hefur gefið leyfi fyrir sérstökum dreifbýlisgjaldskrám.

Stjórnvöld hafi því um árabil niðurgreitt kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli til að jafna kostnaðinn milli þéttbýlis og dreifbýlis. Á fjárlögum ársins 2025 eru um 2,6 milljörðum kr. til ráðstöfunar til að jafna þennan kostnað. Þeir fjármunir duga þó ekki til að tryggja fulla jöfnun kostnaðar við drefingu raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur því sett fram tillögu um að jöfnunargjald raforku verði hækkað þann 1. júlí 2025, sbr. 22. gr. í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta, tolla og gjöld, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, en með því hækkar dreifbýlisframlag umtalsvert og orkukostnaður í dreifbýli lækkar um meira en 20% samkvæmt útreikningum Umhverfisog orkustofnunar. Ef tillagan verður óbreytt að lögum verður fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli náð frá 1. júlí 2025, segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...