Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Guttormur Ármannsson frá Egilsstöðum við járningar. Hann var eftirsóttur járningamaður í Finnlandi og þjónustaði hrossabú víða um landið.
Guttormur Ármannsson frá Egilsstöðum við járningar. Hann var eftirsóttur járningamaður í Finnlandi og þjónustaði hrossabú víða um landið.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 3. mars 2025

Ólseigur hestamaður með ónýtt bak

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Egilsstaðabúinn og hestamaðurinn Guttormur Ármannsson flutti fyrir margt löngu til Finnlands með fjölskyldu sinni og stundaði þar tamningar og járningar um árabil.

Guttormur er sonur Guðfinnu Sigurbjörnsdóttur frá Gilsárteigi á Fljótsdalshéraði og Ármanns Guðmundssonar úr Reykjavík, en þau eru bæði látin. Guttormur ólst upp á Egilsstöðum og fór snemma að stússast í hestum, enda voru foreldrar hans hestafólk og því ekki langt að sækja góðhrossin.

Frá Finnlandi til Íslands

„Ég var bara pínupolli þegar ég fór að fara á bak,“ segir Guttormur, staddur á heimili sínu í bænum Loppi á Kanta-Häme-svæðinu norðan við Helsinki. Pilturinn fór snemma að taka þátt í Austurlandskeppnum og lagði fyrir sig tamningar. Um þrítugsaldurinn ákvað hann að bregða undir sig betri fætinum og fara til Finnlands, þar sem hann bjó í nokkur ár og vann m.a. við tamningar fyrir nokkur hrossabú. Þar kynntist hann fyrst sálfræðinemanum Marjöttu Kojo, sem var, líkt og hann, forfallin hestamanneskja. Hann flutti svo aftur heim á Hérað og Marjatta flutti nokkrum árum síðar til Íslands, þar sem hún, þá útskrifuð sem sálfræðingur, fékk sér til að byrja með vinnu við hestaferðaþjónustu í Skriðdal.

„Hún var uppi í Sandfelli að vinna og ég var oft þar í heimsókn,“ rifjar Guttormur upp. Þau voru par og héldu áfram að vera á bólakafi í hrossum, gerðu út frá Egilsstöðum og voru með hestaferðir, einkum fyrir Finna, og ráku hestaleigu um skeið. Marjatta fékk stöðu sálfræðings við Skólaskrifstofu Austurlands, þau byggðu sér hús á Egilsstöðum laust fyrir aldamótin 2000 og það ár eignuðust þau dótturina Elenu. Fyrir átti Guttormur soninn Davíð Snæ.

Keyptu litla jörð og nýja hesta

Guttormur og Marjatta ákváðu skömmu eftir fæðingu Elenu að flytja aftur til Finnlands. Þau keyptu sér litla jörð norður af Helsinki og fengu sér hesta. „Þeir voru fáir í byrjun en það vatt upp á sig alveg um leið,“ segir Guttormur kíminn. „Við fluttum fullt af hestum, allt sem við áttum, frá Íslandi og seldum þá í Finnlandi og tókum nýja íslenska í staðinn,“ útskýrir hann. Þau eignuðust aðra dóttur, Írisi, árið 2002.

Marjatta hóf störf sem sálfræðingur, auk hestamennskunnar og Guttormur vann einkum í tamningum og járningum. Hann varð fljótt eftirsóttur járningamaður.

 „Ég fór út um allt að járna, já,“ segir hann en hnýtir við af hógværð að hans járningakúnst hafi ekkert verið merkilegri en annarra. „Ég gerði þetta í helvíti mörg ár, bara þangað til ég gat ekki meira. Ég var með ákveðin hesthús þar sem ég sá alveg um járningar á öllum hrossum. En nú er ég hættur járningum, fyrir
nokkrum árum. Bakið á mér fór alveg í tætlur, eyðilagðist,“ segir hann.

Guttormur var lunkinn knapi og keppti oft á mótum sem ungur maður austur á Héraði og seinna í Finnlandi, bæði á svæðis- og landsmótum. Hér er hann með Skímu.

Börðust eins og ljón

Þau tömdu sína hesta, kepptu gjarnan á svæðis- og landsmótum og gekk iðulega vel. „Já, við vorum oftast einhvers staðar í toppnum,“ segir Guttormur. Sem dæmi kepptu þau á Finnlands-meistaramóti árið 2012 og þá varð Marjatta fjórða í tölti og önnur í fjórgangi en Guttormur fimmti í slaktaumatölti, þriðji í fjórgangi og annar í tölti. „Það var bara eðlilegt og algengt,“ úrskýrir hann. Þau voru bæði lunknir knapar. „Við börðumst alveg eins og ljón,“ bætir hann hlæjandi við.

Hann er beðinn um að rifja upp bestu gæðinga þeirra Marjöttu. „Þeir voru nú svo margir. En við getum nefnt Skímu sem var flutt út, undan graðhestinum Kjarki frá Egilsstöðum, Ingi Gunnlaugsson í Vaðnesi átti hann. Einnig var frúarhesturinn, Sóldís, sem fædd var í Finnlandi. Hún er farin yfir móðuna miklu en ég veit ekki um Skímu, hún var keppnishrossið mitt þangað til hún bilaði í fótum en þá seldi ég hana,“ segir hann.

Marjatta Kojo á Sóldísi í keppni

Guttormur á enn eina fimmtán vetra meri, undan Skímu, og lánaði ungri stúlku til afnota því hann hefur ekki heilsu til útreiða eða umstangs við hesta lengur.

Aðspurður um finnskt hestakyn segir Guttormur það bara hafa tvær gangtegundir: brokk og stökk.

„Þeir eru töluvert stærri en íslensku hestarnir. Svo er auðvitað hægt að fara út í alls konar hesta. Það eru ekki bara finnskir, heldur svokallaðir „warm-blood“-hestar, sem eru aðeins minni heldur en sá finnski en fara hraðar yfir. Þeir eru svona sporthestar í Finnlandi,“ segir hann. Slíkir hestar eru einkum upprunnir af meginlandi Evrópu, einkum í Þýskalandi.

Guttormur og Marjatta með dæturnar Elenu og
Írisi. Marjatta lést árið 2015.
Lífið tók stakkaskiptum

Marjatta lést eftir stutta baráttu við briskrabbamein í árslok 2015, aðeins 46 ára að aldri. Skömmu síðar seldi Guttormur jörðina og allt sem henni fylgdi og flutti burt með Elenu og Írisi. Hann býr nú í íbúð í miðbæ Loppi. Dæturnar menntuðu sig og starfa báðar sem hjúkrunarfræðingar.

„Ég vildi fara í burtu þegar Jatta dó og var að spekúlera í að fara til Íslands aftur. Þá var bara flest allt mitt fólk sem ég þekki þar látið, eða farið í burtu, þannig að mér fannst það ekki fýsilegri kostur þegar til kom. Þá hefði maður bara verið eins og útlendingur heima hjá sér,“ útskýrir hann.

„Ég er bara hauglatur öryrki núna, með ónýtt bak,“ segir Guttormur kaldranalega, orðinn 67 ára gamall. Hann kemur þó stundum upp til Íslands og þá gjarnan með dætrunum. Hann segist sakna Íslands annað slagið en Finnland sé líklega orðið hans heimaland eftir allan þennan tíma og ágætt sé að búa þar. „Það er allt ódýrara hér, maður getur lifað af laununum sínum hér, en á Íslandi væri það ekki hægt,“ segir hann. Einnig sé meiri stöðugleiki í þjóðlífinu.

Hann fer enn á hestamót sér til skemmtunar og til að fylgjast með. „Ég var svo heppinn að temja mjög góðan hest sem heitir Freyr, hann er frá nágrönnum mínum hér í Loppi. Ég fékk þennan hest í frumtamningu á sínum tíma, gekk bara ansi vel og hann er sennilega einhver besti hestur sem ég hef tamið um dagana. Ég fylgist með honum í keppnum. Hann hefur farið á heimsmeistaramót í það minnsta tvisvar. Það er nú ekkert á hverjum degi sem maður fær þannig hest í hendurnar. Svo er maður tengdur við þessa kunningja og vini sem eru allir í hestum. Einn þeirra er járningamaður og búinn að taka við öllum járningum sem ég var með áður fyrr. Það er bara gangurinn í lífinu,“ segir Guttormur.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f