Nýtt mælaborð styrkir hagsmunagæslu bænda
Þann 15. desember síðastliðinn var nýtt mælaborð Bændasamtakanna tekið í notkun sem veitir greinargóða yfirsýn á innflutningi landbúnaðarafurða og styrkir þannig hagsmunagæslu bænda. Í stöðugt harðnandi samkeppni innlendrar landbúnaðarframleiðslu við erlendar afurðir er mikilvægt fyrir bændur að geta nálgast sem skýrustu mynd af þróun innflutnings á einstaka landbúnaðarafurðum.
Mælaborð Bændasamtakanna er stafrænn vettvangur með upplýsingar um innflutning á landbúnaðarafurðum eftir tollflokkum og nær það til allra vara í köflum 1 til 24 í tollskrá, að frátöldum sjávarafurðum. Mælaborðið er sett upp í Power BI sem er viðskiptagreindarhugbúnaður frá Microsoft og gefur möguleika á að skoða gögn með gagnvirkum hætti en það er aðgengilegt fyrir félagsfólk Bændasamtakanna á „Mínar síður“. Mælaborðið nær til tímabils frá 2017 til núverandi árs, þar sem innflutningstölur eru uppfærðar í lok hvers mánaðar fyrir mánuðinn á undan.

Þegar horft er á innlenda landbúnaðarframleiðslu í samanburði við innflutning sambærilegra afurða getur verið snúið að nálgast þær upplýsingar. Hagstofa Íslands veitir upplýsingar um innflutning á einstaka tollnúmer en með mælaborðinu er hægt að fá skýrari yfirsýn á innflutningi eftir ýmsum flokkum svo sem grænmeti, kjöti og mjólkurafurðum.
Þannig má t.d. sjá að fyrir árið 2024 var flutt inn tæplega níu tonn af kartöflum. Hins vegar var einungis hluti af því flutt inn undir 7. kafla tollskrár þar sem matjurtir eru flokkaðar. Mun hærra hlutfall er flutt inn undir 20. kafla tollskrár, unnar matvörur. Eins er eitthvað flutt af kartöflum undir 16. kafla tollskrár, malaðar vörur.
Í þessu samhengi er áhugavert að skoða þróun innflutnings á grænmeti undanfarin ár í samanburði við innanlandsframleiðslu á grænmeti. Þannig má sjá að frá árinu 2017 til ársins 2024 hefur framleiðsla á grænmeti innanlands minnkað um 24% á sama tíma og innflutningur á grænmeti hefur aukist um 10%. Innflutningstölur taka hér mið af innflutningi á matjurtum í tollflokki 7, auk innflutnings á kartöflum í tollflokki 16 og 20.
Þegar við berum saman innanlandsframleiðslu á kjöti við innflutt kjöt er mikilvægt að hafa í huga að innlendar afurðir eru skráðar í heilum skrokkum en innfluttar kjötafurðir eru að miklu leyti úrbeinaðar. Í mælaborðinu er hægt að greina innflutning á kjöti þar sem búið er að leiðrétta fyrir beinahlutfalli. Er þá gert ráð fyrir 40% beinahlutfalli, þ.e. 60% kjötnýtingu á vörum með beini.
Mælaborðið veitir jafnframt góða yfirsýn á innflutningi á unnum kjötafurðum. Þannig má sem dæmi sjá að innflutningur á unnu alifuglakjöti sem flokkast undir 16. kafla tollskrár var rétt innan við 650 milljónir króna árið 2024 og innflutningur á óunnu alifuglakjöti sem flokkast undir 5. kafla tollskrár nam um 1,38 milljörðum króna. Hlutfall á unnu alifuglakjöti nam því um 32% af heildarinnflutningi á alifuglakjöti fyrir árið 2024 þegar horft er til CIF verðmætis í kr.
Þar sem mælaborðið nær til innflutnings á öllum vörum í köflum 1 til 24 í tollskrá, að frátöldum sjávarafurðum er til dæmis hægt að skoða þróun á innflutningi á ýmsu hráefni sem notað er til landbúnaðarframleiðslu.
