Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Ásrún Ýr Gestsdóttir, verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar, segir mikið lagt upp úr því að þjónusta eyjarskeggja og ferðamenn sem best.
Ásrún Ýr Gestsdóttir, verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar, segir mikið lagt upp úr því að þjónusta eyjarskeggja og ferðamenn sem best.
Mynd / aðsendar
Fréttir 11. nóvember 2025

Nýr verslunarstjóri í Hrísey

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ásrún Ýr Gestsdóttir tók í haust við sem verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar. Henni var boðið starfið í lok sumars og ákvað að slá til eftir samráð við fjölskylduna, enda segir hún afar mikilvægt að viðhalda verslunarrekstri í eyjunni.

Hríseyjarbúðin er hlutafélag sem var stofnað árið 2015 eftir að nokkrir aðilar höfðu reynt verslunarrekstur sem gekk ekki. „Eyjan var búðarlaus um tíma, sem enginn vildi, og fóru Hríseyingar þá leið að stofna félag um reksturinn,“ segir Ásrún. Hún veit ekki hversu margir hluthafarnir eru á bak við verslunina í dag, en í upphafi voru þeir 71. „Þetta eru Hríseyingar búsettir hér, orlofshúsaeigendur og aðrir velunnarar eyjunnar – en við erum svo heppin að eiga marga svoleiðis.“

Allar helstu nauðsynjar til

„Þetta er pínu vísir að pöntunarfélagi og reynum við að koma til móts við alla svo fólk þurfi ekki alltaf að gera innkaupin í landi. Búðin er ekkert rosalega stór, en það er samt fjölbreytt úrval. Við erum með allar helstu nauðsynjar sem þú þarft fyrir heimilislífið, eins og krydd, allt í baksturinn, frystivörur eins og fisk, kjöt og kjúkling. Eins brauð, álegg og allar helstu mjólkurvörur. Þegar fólk er að koma hingað í sumarbústaðina er það ekki alltaf búið að átta sig á því að það þarf ekki að bera með sér sex Bónuspoka. Það getur komið hingað og verslað allt sem það þarf fyrir grillið, pitsugerðina og kósíkvöldið.

Þá erum við með sjálfsafgreiðslu hérna í Hríseyjarbúðinni, en fyrir utan er skúr opinn allan sólarhringinn. Þar er bæði posi og upplýsingar fyrir millifærslu. Ef þú vaknar um miðja nótt og ákveður að þig vanti eitthvað getur þú keypt snakk, ídýfu, mjólk, brauð, smjör, ost, kex og nammi. Þetta byggir á því að við treystum fólki í eyjunni til að vera heiðarlegt, sem hefur gengið eftir, en erum samt með myndavélar til öryggis.“

Flestar nauðsynjar fást í versluninni og því óþarft að bera öll innkaupin frá landi.

Þjónusta heimamenn og ferðalanga

„Sumarið heldur búðinni vel uppi yfir árið. Vetrardagarnir eru rólegri og afgreiðslutíminn styttri, á meðan yfir sumarið er opið alla daga og veltan á einum degi jafnast á við fjóra til fimm daga yfir veturinn. Við reynum fyrst og fremst að þjónusta íbúana, en treystum líka mikið á ferðamenn. Það er erfitt að reka verslanir á svona litlum stöðum og við höfum fengið styrki frá Byggðastofnun og ríkinu, bæði til rekstrar og uppbyggingar á húsnæðinu.

Sjálfsafgreiðsluskúr utan við verslunina er opinn allan sólahringinn.

Með fasta búsetu í Hrísey allt árið eru 120 til 130 manns. Í vetrarfríum fjölgar umtalsvert því að helmingur íbúðarhúsnæðis hérna eru orlofshús. Það er okkur til happs hversu duglegt fólk er að dvelja í húsunum sínum. Núna í vetrarfríum fer fjöldinn í eyjunni yfir 200 manns, en yfir sumartímann fer hann yfir 300 manns.“

Ferja oft á dag

Ásrún bendir á að þar að auki sé mikið um dagsgesti. „Hrísey er svo stutt frá landi og það er svo fljótlegt að fara hingað yfir, en ferjan gengur á tveggja tíma fresti frá Árskógssandi.“ Margar gönguleiðir eru á eyjunni og yfir vetrartímann hefur ungmennafélagið útbúið gönguskíðaslóðir. „Hinn fullkomni dagur væri að koma með ferjunni hálf tíu eða hálf tólf á laugardegi. Taka síðan gönguskíðahring, koma eftir það í búðina til að borða og þaðan í heita pottinn. Svo er hægt að fara út að borða á veitingastaðnum Verbúðinni um kvöldið. Yfir vetrartímann fer síðasta ferjan klukkan níu á kvöldin frá Hrísey, en það er hægt að bóka sérstaklega ferð klukkan ellefu.“

Ferjan tekur ekki bíla, en þeir sem eru með mikinn farangur geta fengið lánaðar hjólbörur sem eru á höfninni. „Á mínu heimili eru hjólbörur sem við tökum oft með okkur niður eftir ef við vitum að við munum koma með mikið til baka úr landi og eru þær merktar okkar húsi. Svo eru Hríseyingar almennt frekar greiðviknir og góðir og er auðvelt að fá aðstoð frá þeim sem eru með bíl.

Ásrún Ýr starfar jafnframt sem þjónustu- og upplýsingafulltrúi Akureyrarbæjar með starfsstöð í Hrísey. „Yfirmenn mínir hjá Akureyrarbæ eru algjörir snillingar og vildu leyfa mér að minnka starfshlutfallið mitt hjá þeim svo ég gæti gripið þetta tækifæri að vera með búðina og sjá hvernig þetta vinnur saman.“

Skylt efni: Hrísey

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...