Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vorsi 22002 frá Vorsabæ.
Vorsi 22002 frá Vorsabæ.
Á faglegum nótum 8. september 2023

Ný naut til notkunar í september 2023

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson

Erfðamat er nú keyrt á um mánaðarfresti og í samræmi við það getur mat einstakra gripa tekið breytingum mjög ört miðað við það sem áður var.

Breytingar milli keyrslna eru þó sjaldnast miklar og þau naut sem hafa verið í notkun undanfarin misseri hafa staðið við fyrra mat. Eigi að síður ákvað fagráð í nautgriparækt á fundi sínum í lok ágúst að gera breytingar á nautum í notkun. Þannig verða 19 naut í notkun næstu vikurnar í stað 17 áður. Úr notkun verða teknir Títan 17036, Tindur 19025 og Bersi 20004, en notkun þeirra hefur minnkað mikið. Þeirra í stað koma ung naut sem eru fædd 2022, naut sem eru mjög há í mati og miklar væntingar því gerðar til. Hér á eftir fer stutt umsögn um hvers megi vænta af þeim.

Vorsi 22002 frá Vorsabæ í Landeyjum, faðir er Knöttur 16006 og móðurfaðir Skellur 11054. Samkvæmt erfðamati eiga dætur Vorsa að verða mjólkurlagnar kýr með hátt fituhlutfall í mjólk og próteinhlutfall nærri meðallagi. Júgurgerð um meðallag þar sem styrkurinn liggur í áberandi júgurbandi, spenar hæfilegir að stærð og mjaltir og skap úrvalsgott hvoru tveggja. Heildareinkunn 111.

Svarfdal 22006 frá Göngustöðum í Svarfaðardal undan Tanna 15065 og móðurfaðir er Lögur 07047. Erfðamat Svarfdals segir að dætur hans verði í meðallagi mjólkurlagnar með hátt fituhlutfall í mjólk og próteinhlutfall nærri meðallagi. Júgurgerðin frábær með mikilli festu og þau mjög vel borin. Spenar væntanlega í grennri kantinum en ákaflega vel settir. Vænta má meðalgóðra mjalta og góðs skapar. Heildareinkunn 112.

Svarfdal 22006 frá Göngustöðum í Svarfaðardal

Hnallur 22008 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, faðir er Skírnir 16018 og móðurfaðir Dropi 10077. Erfðamatið gefur til kynna að dætur Hnalls verði mjög mjólkurlagnar kýr með hlutföll verðefna í mjólk nærri meðallagi. Júgurgerð ætti að verða mjög góð, mikil festa og þau vel borin. Spenar verða í nettari kantinum, mjaltir og skap mjög gott hvoru tveggja. Heildareinkunn 111.

Hnallur 22008 frá Birtingaholti IV.

Kajak 22009 frá Þorgautsstöðum í Hvítársíðu, faðir er Róður 16019 og móðurfaðir Bambi 08049. Samkvæmt erfðamati verða dætur Kajaks mjólkurlagnar kýr með hlutföll verðefna í mjólk í góðu meðallagi. Júgurgerðin ákaflega góð, mikil festa, áberandi júgurband og þau vel borin. Spenar fremur nettir en ákaflega vel settir. Mjaltir og skap mjög gott hvoru tveggja. Heildareinkunn 112.

Kajak 22009 frá Þorgautsstöðum.

Ægir 22010 frá Hlemmiskeiði 2 á Skeiðum, undan Tanna 15065 og móðurfaðir er Stáli 14050. Erfðamat Ægis segir að dætur hans verði ákaflega mjólkurlagnar, fituhlutfall i mjólk í góðu meðallagi en próteinhlutfall aðeins neðan meðallags. Júgurgerðin góð, spenar í lengri kantinum hæfilegar þykkir og vel settir. Mjaltir mjög góðar og skapið í góðu meðallagi. Heildareinkunn 114.

Ægir 22010 frá Hlemmiskeiði.

Naut í notkun áfram

Í notkun verða áfram Kollur 18039, Skáldi, Simbi 19037, Kvóti 19042, Bússi 19066, Billi 20009, Marmari 20011, Hengill 20014, Banani 20017,
Garpur 20044, Óðinn 21002, Hákon 21007, Kaldi 21020 og Pinni 21029.

Nú hillir undir að sett hafi verið í notkun öll þau naut sem áhugaverð eru til frekari notkunar úr nautaárgöngum 2018–2022.

Þetta eru naut sem voru keypt á grunni ætternis og fóru flest í dreifingu á sínum tíma sem ungnaut til afkvæmaprófana

Áður en til niðurstaðna þeirra kom var erfðamengisúrvali hleypt af stokkunum en eigi að síður munu öll þessi naut fá sína prófun í fyllingu tímans.

Nú fara hins vegar að koma til notkunar naut sem voru keypt á grunni erfðamats en það á við um yngstu nautin fædd 2022. Val nautanna fer þá fram um leið og þau koma í heiminn eða þegar erfðamat þeirra liggur fyrir. Þau koma því til notkunar gefi þau nægilegt og nógu gott sæði, nokkuð sem aldrei liggur fyrir fyrr en til á að taka.

Hvatning til að nota sæðingar

Það fjölbreytta úrval nauta sem nú stendur mönnum til boða ætti að verða öllum hvatning til þess að nota sæðingar sem allra mest og láta af notkun „spari“nautanna, þ.e. nautanna sem standa heima í fjósi og á að spara.

Erfðaframfarir hjá dönskum kúabændum

Í nýjasta tölublaði tímaritsins Dansk Holstein kemur fram að erfðaframfarir hafa skilað dönskum kúabændum 2 þús. dönskum kr. á kú á ári síðasta áratuginn samkvæmt úttekt SEGES – dönsku landbúnaðarráðgjafarinnar.

Þetta er nálægt 38 þús. ISK á kú á ári. Ef við heimfærum þessar tölur upp á íslenskar aðstæður og gefum okkur að erfðaframfarir hérlendis skili helmingi minna (sem þó er alls ekki víst vegna mun hærra mjólkurverðs hér) nemur þetta rétt tæpum 2 milljónum króna á ári fyrir meðalbúið.

Þetta segir mér að sú ákvörðun að leiða fram heimanautið er einhver sú alversta sem nokkur kúabóndi tekur á sinni búskapartíð. Þessa röngu ákvörðun taka margir bændur því miður oft og mörgum sinnum, ekki bara sjálfum sér til skaða heldur einnig ræktunarstarfinu og sæðingastarfseminni sem og þjóðfélaginu öllu.

Þriðjungur undan heimanautum

Það getur ekki gengið til langframa að um þriðjungur allra fæddra kálfa sé undan heimanautum og sá tími hlýtur að koma að spurt verði hvernig bændur hafi efni á því að slá hendinni á móti þeim fjármunum sem erfðaframfarir skila.

Hverju svörum við þá?

Skylt efni: Nautgripir

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...