Ný barnabók um íslenska fugla
Líf og starf 13. nóvember 2025

Ný barnabók um íslenska fugla

Ævintýraheimur íslenskra fugla 1 er ný barnabók eftir Sigurð Ægisson, ætluð aldurshópnum 1–12 ára og er hugsuð þannig, að pabbi, mamma, afi eða amma eða þá eldri systkin lesi úr henni fyrir þau allra yngstu á kvöldin og e.t.v. spjalli um innihaldið, en önnur, sem komin eru í fyrstu bekki grunnskóla, eiga að geta notið hennar án aðstoðar.

Um er að ræða ýmsan fróðleik um 16 fuglategundir af þeim 75–80 tegundum sem eru hér reglubundnir varpfuglar. Þetta eru: álft, glókollur, heiðlóa, helsingi, hrafn, hrossagaukur, kría, krossnefur, lundi, maríuerla, músarrindill, rjúpa, snjótittlingur, spói, svartþröstur og æðarfugl. Gert er ráð fyrir nokkrum öðrum bókum í sama flokki á næstu árum, uns búið verður að dekka allar varptegundir okkar. Hin síðasta mun fjalla um 16 langt aðkomna gesti, en á Íslandi hafa sést rúmlega 400 fuglategundir frá upphafi skráningar.

Bókarhöfundur hefur fengið til liðs við sig börn á þessu aldursbili, sem bókin er ætluð, og þau hafa ort fyrir hann ljóð um viðkomandi fugla, eitt um hvern, sem verður í lok umfjöllunar um hverja tegund. Mikið hefur verið lagt upp úr því að hafa þau sem víðast að af landinu og að þessu sinni eru þau frá Akureyri, Borgarfirði eystra, Búðardal, Djúpavogi, Hellissandi, Húsavík, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Kópavogi, Langanesbyggð, Reykjavík, Selfossi, Siglufirði, Skagaströnd, Tálknafirði og Vestmannaeyjum.

Myndirnar eru gerðar af listakonu í Indónesíu, Ratih Dewanti, sem að auki er líffræðingur að mennt. Hér er sýnishorn úr bókinni:

Heiðlóa

„Lóan er komin, lóan er komin!“ hrópuðu börnin áður fyrr, þegar þau sáu fyrstu heiðlóuna undir lok vetrar. Hún var og er farfugl, en hafði þá dvalið í hlýrri löndum yfir köldustu og dimmustu mánuðina á Íslandi, af því að hún átti engin hlífðarföt til að fara í – enga úlpu eða húfu eða trefil eða vettlinga, ekki heldur kuldaskó eða snjógleraugu – bara sitt eigið fiður. Það var henni gott skjól gegn regni og vindi, en dugði ekki eins vel til að halda á henni hita þegar tók að frysta. Október, nóvember, desember, janúar, febrúar og mars geta nefnilega verið mjög kaldir fyrir smáfugla hér á landi. Aðalvandamálið er samt það, að í vetrarmánuðunum, sem nefndir voru, er svo erfitt að finna eitthvað við hæfi til að borða. En í sólskininu líður heiðlóunni vel.

Þarna var hún sumsé komin heim til sín aftur frá útlöndum til að stofna fjölskyldu og börnin hlupu kát inn til að segja fréttirnar, sem auðvitað glöddu allt heimilisfólkið, af því að nú var öruggt, að þess yrði ekki langt að bíða að náttúran öll vaknaði til lífsins, að veðrið færi að batna og sumarið að heilsa Íslendingum á ný, með blóm í haga.

Nokkrar aðrar fuglategundir voru sömuleiðis í hópi vorboðanna, misjafnt eftir landshlutum, en með tímanum varð lóan helsta tákn vors og sumars og er það enn. Enda gleðjast landsmenn allir þegar fregnir berast af komu hennar, þótt tímarnir séu breyttir, húsin bjartari og auðveldara að kynda þau en í gamla daga.

Fyrr á öldum var reyndar talið að heiðlóan færi aldrei héðan af landi burt, heldur lægi í dvala í hellum, klettasprungum eða skútum, með laufblað eða birkiviðaranga í nefinu, þegar færi að kólna og snjóa, af því að fólk átti erfitt með að ímynda sér, að hún, svona lítil, gæti flogið yfir ógnarstórt hafið. Um þessa elskulega veru og tvo aðra fugla segir í gamalli vísu:

Heyló syngur sumarið inn,
semur forlög gaukurinn,
áður en vetrar úti er þraut
aldrei spóinn vellir graut.

Heyló, sem þarna kemur fyrir í upphafi, er eitt af eldri nöfnum á lóunni, gaukurinn er hrossagaukurinn, og þegar sagt er að spóinn „velli graut“, er verið að lýsa sérkennilegum hljóðum eða söng hans, sem minnti á þegar grautur var eldaður í potti og farinn að bulla og sjóða.

Íslenska heiðlóan er þegar byrjuð að koma til landsins í mars, en stærstu hóparnir birtast þó ekki fyrr en liðið er á aprílmánuð. Hún er félagslynd árið um kring, nema á varptíma. Hreiðrið er einföld laut á opnu svæði. Eggin eru fjögur að tölu, oftast mosabrún, grá eða ljósgræn, með rauðum og svörtum dröfnum. Báðir hinir verðandi foreldrar sjá um að liggja á þeim í 27–34 daga, svo að þau haldist volg, af því að ef eggin kólna getur enginn ungi orðið til inni í þeim. Móðirin og faðirinn annast líka sameiginlega um litlu hnoðrana sína eftir að þeir klekjast. Fyrsta sólarhringinn eru þeir í hreiðrinu, en verða sjálfbjarga og fara á kreik um leið og hýið, það er mjúka hárið þeirra eða dúnninn, er þornað og eru fljótir að læra að bjarga sér. Þeir verða fleygir 25–33 daga gamlir.

Í varpbúningi er heiðlóan gullgul að ofan en svört og hvít að neðan, en á veturna er hún fremur einsleit, að mestu öll gulbrún. Lit ungfuglanna svipar um margt til vetrarbúnings hinna fullorðnu.

Hér á landi er fæðan einkum skordýr, helst bjöllur og fiðrildalirfur, og svo ánamaðkar. Við sjó borðar heiðlóan einnig marflær, burstaorma og svoleiðis. Og á haustin auk þess ber, áður en hún þenur út vængina sína og flýgur til útlanda aftur. Vetrarstöðvarnar eru á Bretlandseyjum og vesturströnd meginlands Evrópu, frá Jótlandi í Danmörku og allt suður til Gíbraltar, og auk þess hefur merkt, íslensk lóa endurheimst við strendur Marokkó, í Norður-Afríku.

Áður fyrr töldu menn sig geta lesið veðurbreytingar út frá hegðun og söng heiðlóanna. Á einum stað var til dæmis sagt, að þær flygju hratt og með miklum vængjaþyt og kvökuðu: „Bí, bí“ á undan illviðri, en syngju: „Dirrindí“ eða „Dírrí-dí“ eða þá „Dýrðin, dýrðin“, þegar betra veður nálgaðist. Annars staðar sögðu menn hins vegar, að þegar heiðlóan kvakaði: „Spítí, spítí“, myndi bráðlega fara að rigna, en þeir voru sammála um hitt. Og á enn öðrum stað var sagt, að ef hún syngi: „Fú, fí“, eða „Óhú, óhú“, boðaði það votviðri, en ef heyrðist: „Dirrin, dirrin“, átti að vera þurrt næsta dag.

Í Evrópusöngvakeppni fugla, sem var haldin í maí 2002, bar þessi elska sigur úr býtum, og í kosningu Fuglaverndar, þar sem niðurstaðan var gerð opinber 22. apríl 2021, var hún kosin „Fugl ársins“ og sigraði með yfirburðum.

Heiðlóan á sér mörg önnur heiti, flest, ef ekki öll, gömul. Þar á meðal eru brokfugl, heiðaló, heiðalóa, heiðarló, heiðarlóa, heiðló, heiðlói, heiláfa, heiló, heilóa, heyláfa, heylóa, heylói, lava, láfa, láva, ló, lófa, lóva, lævirki, táta, títa, þeiló, þeyló og þeylóa.

Þegar lóan kemur næsta vor, ásamt kríunum, maríuerlunum, spóunum og öllum hinum yndislegu fuglunum, ætlarðu þá ekki að reyna að sjá hana? Kannski getur þú líka spáð í veðrið með því að hlusta á hvernig hún syngur? Það væri nú aldeilis skemmtilegt!

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f