Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Smábátar við bryggjuna í Þorlákshöfn.
Smábátar við bryggjuna í Þorlákshöfn.
Mynd / VH
Lesendarýni 20. september 2022

Nú er lag að lenda strandveiðum

Höfundur: Gísli Gunnar Marteinsson sjómaður.

Kæra Svandís. Lengi hefur staðið til að skrifa þér en núna held ég að það sé besti tíminn til að ræða málin.

Gisli Gunnar Marteinsson.

Þú stóðst þig afburðavel sem heilbrigðisráðherra þótt það gengi á ýmsu og þú ferð afar vel af stað í nýju ráðherraembætti sem tekur m.a. yfir stjórn fiskveiða. Þessa dagana ert þú líka ,,vinsælasta stelpan“.

Mig langar að segja þér stutta, sanna, sögu af sjó: Ekki á nokkurn hátt skemmtileg saga, en kannski áhugaverð fyrir þá sem hafa áhuga á umhverfismálum.

Í blíðskaparveðri rær bátur G til strandveiða og er kominn með skammtinn á hádegi og fer þá aftur heim, landar og tekur um 230 l af olíu, sem er það sem fór í þennan róður. Morguninn eftir er komin sunnanbræla og þá rær þessi bátur ekki. Bátur S fór á sama tíma og úr sömu höfn og keyrði heldur lengra en bátur G. Þessi bátur er á kvóta og því frjáls að því að nýta blíðuna meðan hún hélst.

Morguninn eftir, um það leyti sem sunnanbrælan rennur á þá, landar bátur S 4.022 kg. Þarf ekki að taka olíu eftir hvern róður. Svo dettur í stutta blíðu á föstudegi og þá rær bátur S aftur (bátur G er bundinn í þrjá daga um helgar). Blíðan hélst fram á næsta morgun og bátur S landar því eftir hádegi á laugardag 6.788 kg. Þá er olíutankurinn fylltur aftur með um 750 l. S hefur þá fengið 10,8 t. Þetta þýðir tæplega 70 olíulítrar á tonn af fiski.

Bátur G getur í besta falli náð 9,3 tonnum af þorski (fullur skammtur) í 12 veiðiferðum. Fari hann ekki með ,,nema“ 200 l í róður þá þýðir það 2.400 l á þessi 9,3 t. Þetta þýðir 258 l á tonnið. Mörgum virðist skítsama um þessar niðurstöður? En er okkur sama, Svandís? Mín skoðun hefur oft komið fram og hún er sú að þetta sé sóðalegt og vitlaust veiðikerfi.

Það sem sjálfkrafa mun skila bestum árangri fyrir útgerðina, ríkissjóð og umhverfið er, eins og oft hefur verið sagt, að deila strandveiðipottinum niður á þá báta sem sækja um. Þeir sem ekki treysta sér til að veiða fullan skammt sækja þá um lægra hlutfall því það yrði hófleg refsing við því að skila sínum skammti ekki á land.

Við viljum að sjálfsögðu fá allt í hús. Með þessu fyrirkomulagi eru allar þær vitlausu reglur, sem nú eru við lýði, óþarfar. Ef hins vegar þú lítur á það sem nauðsyn að skipa starfshóp til að komast að þessari sömu niðurstöðu þá ættir þú að breikka verulega val í þann hóp.

Það bendir ekkert til þess að aðilar frá LS, eða undirfélagi þeirra, brenni svo mjög fyrir hagkvæmara veiðikerfi með lækkun kostnaðar, minni útblæstri og hærra fiskverði. Þeir, ásamt samflokksmönnum þínum, hafa beitt ýmsum áróðri í þá átt að gera þetta veiðikerfi óhagkvæmara og vilja aðeins fleiri róðra og þ.a.l. meiri sóun. Rök þeirra eru að mestu röng.

Það er samt ekki loku fyrir það skotið að hjá fjölskyldu sem í alvöru byggir afkomu sína á strandveiðum 3-4 mánuði á ári, þá geti afkoman batnað. Þú, Svandís, eins og ég, gerir þér grein fyrir því að það sem kemur að landi verður mun verðmeiri fiskur og, eins og áður segir, mun lægri kostnaður þegar kapphlaupinu lýkur. Það verður ekki róið í tittarusl og verðlítinn fisk bara til að,,ná degi og skammti“ í kapphlaupinu.

Er þér, Svandís, ljóst hvað þú gerðir til að minnka útblástur með því að stöðva veiðarnar? Eða hvað dugnaður strandveiðimanna, hefur áorkað með að klára pottinn sem fyrst? Varlega áætlað, ef eftir hafa verið ca 15 dagar á bát, þá voru að sparast 1,7 milljón lítrar af olíu. (160 l. X 15d. X 710 b.) Er það eitthvað?

Er einhver peningur í því þegar eldsneytisverð er í hæstu hæðum? Listaverð á bátadælu í byrjun júlí ca 260 kr. ,,Sparnaður“ upp á 442 milljónir.
Á ofanrituðu hangir fleira en olíusparnaður, því á sömu spýtunni hangir hærra fiskverð og betri umgengni um auðlindina með minna smáfiskadrápi og útrýmingu brottkasts á blóðguðum fiski. Þegar veiðimaðurinn veit hve mikið hann getur tekið yfir tímabilið, sem trúlega væri hagkvæmast að væri sumarið í heild fremur en mánaðarskipting, þá mun sá hinn sami hámarka afraksturinn með því að róa í besta fiskinn. Með þessu geta allir landshlutar því vel við unað.

,,Efling strandveiða“, líkt og VG hefur í sinni stefnu, getur því aðeins orðið með því að stækka pottinn og þær heimildir verða eingöngu teknar úr byggðapottum, enda má til sanns vegar færa að það gæti þjónað svipuðum tilgangi.

Ég hef oft skrifað um þetta fyrirkomulag og er satt að segja orðinn leiður á því en alltaf þegar umræðan blossar upp, líkt og núna, þá ofbýður mér mannanna heimska. Þá er erfitt að sitja á sér. Það hafa aldrei komið nein rök gegn þessari leið enda erfitt að vera opinberlega á móti þessu. Olíudæmið í sögunni hér að framan er nokkuð öfgakennt þótt satt sé. Það eru ekki margir strandveiðibátar sem bera mörg tonn en sú staðreynd verður aldrei hrakin að því meira sem næst í hverjum róðri því minni sóun á olíu og tíma.

Fyrirsögnin í pistli þínum, ,,Við eigum að skipta jafnt“, fellur afar vel að þessari ,,deilileið“. Ég óttast að þú farir í vitlausa átt með því að skipta pottinum á landshluta því þá mun kapphlaupið aukast til muna með aukinni slysahættu og auknum kostnaði. Mér þykir leitt að þurfa að leiðrétta nokkur atriði úr pistli þínum:

Það munu aldrei nást 48 dagar með þennan heildarpott og þennan bátafjölda sem eingöngu mun vaxa. Það er alveg sama hvernig skiptingin er milli landshluta. Enda á það ekki að vera markmið að ná í sem flesta daga.

Þú segir þar einnig: ,,... til þess að þeir sem eiga stærstu og bestu bátana fái ekki meira en aðrir.“ Ef þú hefur hugsað þér að skipta niður á mánuði og landsvæði þá gæti þetta öfgadæmi þýtt að einmitt þeir sem eiga stærstu bátana taki allan pakkann því það mun stöðugt þurfa að stöðva veiðar kannski eftir 2 vikur í hverjum mánuði. Hafi þá verið skítatíð er ekki víst að þeir minni hafa nokkurn tímann róið.

Ég er loksins í skýjunum með eitthvað í þessari umræðu og það er millifyrirsögnin þín, ,,Verðmætin skipta mestu máli“. Þarna erum við komin í sama lið.

Ég vill svo óska þér alls hins besta. Kær kveðja.
Gísli Gunnar Marteinsson
sjómaður.

Skylt efni: strandveiði

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...