Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Gunnhild Jaastad frá Nibio, Jakob Irgens Blakstad frá Invertapro og Rúna Þrastardóttir, doktorsnemi við LbhÍ, skoða framleiðsluna hjá Invertapro.
Gunnhild Jaastad frá Nibio, Jakob Irgens Blakstad frá Invertapro og Rúna Þrastardóttir, doktorsnemi við LbhÍ, skoða framleiðsluna hjá Invertapro.
Á faglegum nótum 24. nóvember 2023

Norskir skordýrasér­fræðingar sóttir heim

Höfundur: Rúna Þrastardóttir doktorsnemi og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor.

Dagana 24.-26. október síðastliðinn heimsóttu Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, og Rúna Þrastardóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskólann, starfsstöð NIBIO í Ullensvang í Noregi.

Rúna og Ragnheiður heimsóttu Invertapro í Voss í Noregi og kynntu sér
mjölormaframleiðsluna.

NIBIO stendur fyrir Norsk Institutt for Bioøkonomi og er ein stærsta rannsóknastofnun Noregs, en hún vinnur að rannsóknum tengdum matvæla- og plöntuframleiðslu, landnotkun, erfðaauðlindum, skógum og viðskipta- og félagshagfræði. NIBIO Ullensvang er í Harðangursfirði um 160 km frá Bergen og á þeirri leið er farið í gegnum u.þ.b. 50 jarðgöng að mismunandi lengd.

Í Harðangursfirði er mikil eplarækt og cider-framleiðsla. Epli hafa verið ræktuð í Harðangursfirði síðan á 14. öld, þegar reynslan og þekkingin kom með enskum munkum. NIBIO Ullensvang hefur sérhannaðar rannsóknastofur til að meta gæði eplaræktarinnar og sjá um mælingar á cider-framleiðslunni og vottun hennar. Þá eru sérþjálfaðir hópar sérfræðinga sem gera bragð skimanir á cider-framleiðslunni.

Fyrir rúmum sex árum síðan hófust rannsóknir á skordýrarækt hjá NIBIO Ullensvang og snúast þær um ræktun mjölorma og hermannaflugu, sömu tegundir og unnið er með hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Við ræktunina er notast við hitaskápa, af sömu gerð og notaðir eru við plönturæktun, til þess að halda stöðugu hita- og rakastigi fyrir skordýrin. Mismunandi fóðurhráefni hafa verið prófuð fyrir skordýrin, þar á meðal hveitiklíð og hafrar, en hveitiklíð hefur reynst betur en hafrarnir fyrir mjölormana. Einnig hafa tilraunir verið gerðar með blautfóður, þ.e. blöndu af grænmeti og ávöxtum sem hafa stundum verið gerjuð með mjólkursýrubakteríum. Niðurstöður sýna að fóðurinnihaldið hefur töluverð áhrif á gæði skordýralirfanna sem fóðurhráefnis, en með góðu fóðri má ná jafnri framleiðslu af þurrkuðum lirfum með 50% próteininnihaldi.

Nibio Ullensvang hefur unnið að rannsóknum á mjölormum og hermannaflugu frá 2017.

NIBIO Ullensvang er í samstarfi við nokkra norska skordýraframleiðendur sem eru að hasla sér völl, m.a. fyrirtækið Invertapro í Voss sem er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Ullensvang. Invertapro framleiðir mjölorma til manneldis og sem fóður fyrir gæludýr og hænur. Skordýraræktunin fer fram í 600 fm rými og fulltrúi fyrirtækisins segir að það sé hægt að framleiða um 3 tonn á viku í núverandi húsnæði. Fyrirtækið hyggst stækka á næstu árum og er markmiðið að byggja nýtt 3.000 fm framleiðslurými og er áætlað að framleiðslugetan aukist við það upp í 30 tonn á viku. Invertapro stundar eigin rannsóknir með mismunandi fóðurhráefni, bæði þurrfóður og blautfóður. Fulltrúar fyrirtækisins segjast ná stöðugri framleiðslu af þurrkuðum lirfum með 50% prótein-innihaldi með blöndu af þurr- og blautfóðri. Við framleiðsluna notar fyrirtækið sjálfvirkni og róbótatækni sem meðal annars getur flokkað lirfur eftir aldri og dauðar lirfur og bjöllur frá þeim lifandi.

Loks var farið í heimsókn til fiskeldisfyrirtækisins Ænes Inkubator, sem er ný landeldisstöð í eigu þriggja norskra laxeldisfyrirtækja. Stöðin framleiðir laxa upp í nokkur hundruð gramma stærð til áframeldis í sjókvíaeldisstöðvum þessara þriggja fyrirtækja. Ænes Inkubator kaupir laxahrogn frá Benchmark Genetics Iceland. Á fundinum kom fram mikill áhugi á nýjum skordýrapróteinum sem gætu komið í stað fiskimjöls og sojabaunamjöls í fóðrinu.

Heimsóknin til Noregs var afar lærdómsrík og þekkingin úr ferðinni mun nýtast vel við áframhaldandi þróun og uppbyggingu aðstöðu fyrir skordýrarækt hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Niðurstöður ferðarinnar munu vafalítið einnig leiða til nýrra hugmynda og aukins alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði. Við þökkum gestgjöfum okkar hjá NIBIO Ullensvang, Ænes Inkubator og Invertapro kærlega fyrir frábærar móttökur og gefandi fundi.

LbhÍ kynnti mjölormaframleiðslu á Vísindavöku Rannís í síðasta mánuði og voru gestir jákvæðir gagnvart skordýrum og til í að smakka.

Skylt efni: Skordýr

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...