Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Norrænt samfélagsdrama
Líf og starf 27. ágúst 2025

Norrænt samfélagsdrama

Höfundur: Þröstur Helgason

Norræn sjónvarpsþáttagerð hefur staðið með miklum blóma síðustu tuttugu ár. Danir leiddu þróunina en Svíar voru fljótir að taka við sér, síðan Norðmenn og nú síðast Finnar. Nýjasta afurð þeirra er þáttaröðin Drottning alls fjandans (Queen of Fucking Everything) sem segir af fasteignasalanum Lindu Saarniluoto sem vaknar einn daginn upp við það að maðurinn hennar er horfinn, hugsanlega dauður, og eftir situr hún skuldum vafinn eftir vafasaman viðskiptaferil hans.

Linda hefur lifað hátt og haldið uppi ímynd sem samræmist lúxusfasteignunum sem hún selur velmegandi fólki í Helsinki og er tilbúin til að gera hvað sem er til þess að halda í sín viðmið. Fyrst um sinn stundar hún smáþjófnað til þess að eiga fyrir mat og útgjöldum sem henni þykja skipta máli fyrir ímyndina. En smám saman dregst hún inn í undirheima Helsinkiborgar þar sem hættulegir glæpamenn ráða ríkjum. Ímyndaráþjánin verður svo sterk að Linda vílar ekki fyrir sér að ræna hættulegasta eiturlyfjabarón borgarinnar og kokka upp risavaxið fasteignasvindl með hjálp þessa sama glæpamanns. Í ringulreiðinni miðri leiðist hún sömuleiðis út í morð á manni sem tengist þessum ofstækisfulla undirheimamanni. Linda er djúpt sokkin og erfitt að sjá hvernig hún ætlar að leysa úr flækjunni.

Þættirnir eru spennandi en umfram allt fyndnir. Leikið er með ýmsar klisjur um finnska þjóðarsál, svo sem hinn drykkfellda, þunglynda karl sem hefur gefist upp á daglegu striti og heldur kaldhæðnar ræður um tilgangsleysi allra hluta á milli þess sem hann þegir. En fyrst og fremst eru þættirnir farsakennd saga af konu sem leitar allra leiða til þess að koma undir sig fótunum eftir að hafa verið afvegaleidd og svikin af óheiðarlegum eiginmanni. Kannski leita þættirnir svara við spurningunni um það hvað kona komist upp með þegar hún finnur sig í þeirri stöðu. Þættirnir eru á RÚV.

Einnig er óhætt að mæla með sænsku þáttaröðinni I dina händer eða Deliver Me sem er aðgengileg á Netflix. Þar er sjónum beint að unglingum sem notaðir eru til illvirkja af glæpagengjum Svíþjóðar. Dogge og Billy eru óaðskiljanlegir vinir. Dogge á velmegandi foreldra sem virðast þó sinna honum lítið en Billy er innflytjandi sem býr í blokkaríbúð með einstæðri móður sinni og mörgum systkinum. Þegar Billy finnst myrtur eftir skotárás berast böndin fljótt að Dogge. Spurningin um það hver framdi ódæðið er þó ekki aðalatriðið í þáttaröðinni heldur hvers vegna unglingar lenda á slíkum glapstigum. Í þáttunum teiknast upp sláandi mynd af því hvernig unglingar eru innlimaðir í glæpagengi með von um skjótan gróða, framgang og völd sem þeim virðast fjarlæg innan síns samfélagslega ramma.

Þáttaröðin beinir umfram allt sjónum að baksögu Billys. Við vitum fátt um sögu Dogges og skýringarnar á því hvers vegna hann dregst inn í glæpagengi eru óljósar. Það er galli á þáttaröðinni en hún veitir eigi að síður sláandi innsýn í heim sem við annars fáum bara fréttir af í fjölmiðlum.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...