Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
99 brennumenn koma ríðandi að endurbyggingu Bergþórshvols og brenna bæinn.
99 brennumenn koma ríðandi að endurbyggingu Bergþórshvols og brenna bæinn.
Mynd / Njálufélagið
Líf og starf 15. ágúst 2025

Njálsbrenna sviðsett á söguslóðum

Höfundur: Sturla Óskarsson

Njáluvaka í Rangárþingi er hátíð tileinkuð Njálu. Hún verður haldin 21. – 24. ágúst og þar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá, meðal annars verður frægasti atburður sögunnar, Njálsbrenna, sviðsettur.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, er formaður Njálufélagsins. Hann segist hafa lengi dreymt um að halda viðburð sem þennan.

„Ég er búinn að ganga með þetta í maganum mjög lengi – að setja Njálu á svið og gera henni ærleg skil. Hugmyndin gekk alltaf út á að fá myndarlegan fjárhagslegan stuðning frá einstaklingum og atvinnulífinu og skemmst er frá því að segja að viðtökurnar fóru langt fram úr björtustu vonum. Það er greinilega mikill hljómgrunnur fyrir því að hefja Brennu-Njáls sögu til þess vegs og virðingar sem henni ber í íslenskri bókmenntasögu. Ég er afar þakklátur fyrir þessar miklu undirtektir og í kjölfarið stofnaði ég Njálufélagið með mjög öflugu fólki og allir eru sammála um að hugsa þetta verkefni til lengri framtíðar,“ segir Guðni.

Hátíðin fer fram á Njáluslóðum 21. til 24. ágúst. „Njáluvakan hefst á fimmtudagskvöldi í íþróttahúsinu á Hvolsvelli. Þar verða leikþættir úr Njálu frumfluttir, Karlakór Rangæinga og Hundur í óskilum stíga á svið og tveimur af stærstu persónum Brennu-Njáls sögu verða gerð skil í sitt hvoru erindinu. Við erum sérstaklega stolt af leikþáttunum sem Svandís Dóra Einarsdóttir skrifaði og sýnir með leikhópi sínum, þeim Atla Rafni Sigurðarsyni, Ingvari Sigurðssyni og Sólveigu Arnarsdóttur. Dagskráin á þessu fyrsta kvöldi Njáluvöku er afar metnaðarfull,“ segir Guðni.

Bergþórshvoll brenndur

Annar hápunktur Njáluvöku verður síðan laugardaginn 23. ágúst þegar sjálf Njálsbrenna verður sviðsett á söguslóðum. „Við Rangárbakka, þar sem landsmótin eru haldin, verður táknræn endurgerð Bergþórshvols reist ásamt miklum bálkesti. Við Arthur Björgvin Bollason munum stýra hátíðinni. Þar verður Karlakór Rangæinga og Öðlingarnir og syngja m.a. Skarphéðinn í brennunni og Brennið þið vitar. Hljómsveitin Hundur í óskilum leikur sitt nýja efni úr Njálu. Víkingafélagið Rimmugýgur frá Hafnarfirði sýnir bardagalistina eins og hún var til forna. Margfaldur Íslandsmeistari í fimleikum sýnir stökk Skarphéðins á Markarfljóti, tólf álnir, þegar hann hjó Þráin Sigfússon og hirti nokkra jaxla úr honum. Leikhópurinn magnar stemningu brennunnar og heyra má í Njáli og Bergþóru þegar þau mæta örlögum sínum í bálinu. Hermann Árnason tekur að sér hlutverk Flosa Þórðarsonar forðum og leiðir nokkurra klst. hestaferð sem lýkur með skrautreið inn á Rangárbakka. 99 brennumenn í vínrauðum skikkjum fornaldar ríða þá einn hring í kringum bæinn og á öðrum hring grípur Flosi logandi blys og kveikir í arfasátunni. Og bærinn brennur,“ segir Guðni.

Hann lofar miklu sjónarspili og hátíð fram eftir kvöldi. „Okkar mesti brekkusöngvari, eftir að Árni Johnsen varð allur, Magnús Kjartan Eyjólfsson verður með brekkusöng fram í myrkur. Þarna er fín aðstaða fyrir mikinn fjölda og þessi hátíð verður öllum ókeypis. En hægt er að kaupa miða inn á Njáluperlur fimmtudagskvöldsins á vefnum njaluslodir.is,“ segir Guðni.

Sunnudaginn 24. ágúst verður síðasti dagur Njáluvöku en þá verður haldin sérstök messa til minningar um Snorra Sturluson í Oddakirkju með margvíslegum Njálutengingum. „Hann Snorri er ekki neinn Sturlungur. Fyrst og fremst var hann alinn upp í tuttugu ár hjá Jóni Loftssyni á Odda á Rangárvöllum og Oddaverjum. Þannig að við teljum hann til okkar. Á Odda lærði hann skáldskapargáfuna,“ segir Guðni.

Má bjóða þér kinnhest?

Sérstakur bjór var bruggaður fyrir hátíðina en hann ber nafnið Kinnhestur. „Hann er auðvitað nefndur Kinnhestur í tilefni af stærsta atviki í lífi Hallgerðar langbrókar. Hún hlaut þrjá kinnhesta og allir menn hennar biðu bana fyrir bragðið. Hún lét ekki gefa sér kinnhesta. En nú geta menn fengið sér bjór þegar þeir reiðast. Þá sættast þeir og segja: Eigum við ekki bara að fá okkur Kinnhest saman? Ef ástfangið par hittist þá geta þau sagt: Heyrðu, við skulum setjast niður og fá okkur bara Kinnhest saman. Það er nokkurs konar koss,“ segir Guðni um bjórinn.

Upp með Njálu

Og fleira er í pípunum hjá Njálufélaginu. „Við gefum út þá gerð Brennu-Njáls sögu sem Jón Böðvarsson gekk frá á sínum tíma en að þessu sinni með myndum af um fjörutíu hetjum úr Njálu sem Þórhildur Jónsdóttir frá Lambey teiknar og málar,“ segir Guðni og bætir við að í haust verði haldið málþing um Njálu. „Ármann Jakobsson stýrir því og fær með sér ýmsa fræðimenn. Þannig að nú er það bara upp með Njálu!“

Guðni segir að Njálufélagið muni áfram leggja sitt af mörkum til þess að vekja athygli á Njálssögu og er strax farinn að huga að fleiri viðburðum. „Kannski með árlegum viðburði. Í ár er það brennan sjálf. Við getum verið með eitthvað annað úr sögunni á Rangárbökkum á næsta ári,“ segir Guðni og segir viðburði sem þessa mikilvæga til þess að vekja athygli á þessari merkilegu sögu. „Við viljum fá Íslendinga til þess að lesa Njálssögu á ný og unga fólkið til að vera með okkur. Það skiptir svo miklu máli.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...