Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Óveður.
Óveður.
Mynd / Guðrún Lárusdóttir
Skoðun 19. desember 2019

Náttúruöflin minntu á sig með hvelli

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands - gst@bondi.is

Hamfaraveður eru ekki nýlunda hér á norðurhjara veraldar. Í gegnum aldirnar hafa ýmis áföll dunið yfir landsmenn, bæði stór og smá. Stórhríðin sem gekk yfir landið í síðustu viku var eitt af þessum veðrum sem setja allt úr skorðum. Ólíkt því sem var hér áður fyrr kom óveðrið mönnum ekki á óvart því búið var að spá fyrir um illviðri. Vel var staðið að viðvörunum og fólk var meðvitað um að vont veður væri væntanlegt. Skólahaldi var aflýst og landsmönnum bent á að halda sem mest kyrru fyrir. Lokanir á vegum höfðu sín áhrif, færri voru á ferðinni og margir vinnustaðir sendu starfsfólk snemma heim á óveðursdaginn.

Þegar veðurspáin er slæm gera bændur viðeigandi ráðstafanir. Í þetta sinn undirbjuggu menn sig eins og hægt var, gengu frá lausamunum og hugðu að útigangi. Það gjörningaveður sem síðan skall á er nær fordæmalaust í seinni tíð og sýnir hvað við erum smá gagnvart náttúruöflunum. Hörmulegt banaslys í Eyjafirði fékk á alla þjóðina og erfiðar aðstæður til leitar voru öllum ljósar.

Bændur senda þakkir til viðbragðsaðila

Fjöldinn allur af viðbragðsaðilum um allt land sinntu björgunaraðgerðum úti í óveðrinu. Mörg vandamál þurfti að takast á við og tilkynningar um tjón og óskir um aðstoð hrönnuðust upp. Rafmagns- og fjarskiptaleysi var viðvarandi á stórum landsvæðum og enn hefur ekki tekist að tengja rafmagn alls staðar með fullnægjandi hætti.

Stjórn Bændasamtakanna kom saman í vikunni og ræddi áhrif óveðursins á sína félagsmenn. Í ályktun sem gefin var út eftir fundinn komu fram þakkir til björgunarsveita landsins og annarra viðbragðsaðila fyrir ómetanlegt framlag við erfiðar aðstæður. Þær þakkir eru endurteknar hér.

Nauðsynlegar aðgerðir í kjölfarið

Stjórn Bændasamtakanna harmar það tjón sem bændur urðu fyrir í óveðrinu. Hún leggur áherslu á að í framhaldinu verði afleiðingarnar metnar og gerðar viðeigandi ráðstafanir. Huga verður að þeim sem hafa orðið fyrir andlegu áfalli og veita viðeigandi aðstoð til að vinna úr því. Aðstæður sem þessar reyna verulega á, bæði andlega og líkamlega. Það tekur á að missa skepnur og að vera innilokaður jafnvel sólarhringum saman, án rafmagns, hita eða nokkurra fjarskipta. Það er ekki auðvelt að átta sig á eða setja sig í spor þeirra sem lenda í ámóta lífsreynslu. Það er líka erfitt að setja sig í spor bænda sem stóðu frammi fyrir kúnum sínum, fullum af mjólk, en höfðu enga leið til að mjólka. Það hefur heldur ekki verið auðvelt að vita af hrossum úti í óveðrinu.

Fara þarf yfir hvort Bjargráðasjóður eða aðrar opinberar áfallatryggingar bæti tjón vegna afurðamissis, gripatjóns eða tjóna á húsakosti og girðingum. Ljóst er að á einstaka bæjum er gríðarlegt tjón af þessum sökum sem almennar tryggingar bæta ekki. Fordæmi eru fyrir því að Bjargráðasjóður hefur fengið fjármagn til að mæta sambærilegum aðstæðum. Bændasamtökin munu fylgja þessum málum eftir fyrir sína félagsmenn.

Bæta þarf verulega afhendingaröryggi á rafmagni og hraða eins og kostur er að koma dreifilínum rafmagns í jörð. Endurmeta þarf hvar er nauðsynlegt að varaaflsstöðvar séu fyrir hendi og tryggja eldsneytisbirgðir fyrir þær í skilgreindan tíma.

Fjarskipti eru hluti af grunnöryggi

Það þarf ekki að fjölyrða um þá hröðu þróun sem hefur orðið í fjarskiptum síðustu áratugi. Fjarskiptin eru hluti af grunnöryggi sem verður að vera til staðar. Fjöldi fólks náði engu sambandi við umheiminn og enginn möguleiki var á að ná í það. Fjarskiptakerfin þurfa að þola tímabundið rafmagnsleysi og styrkja þarf GSM-símkerfið sem er mikilvægt öryggistæki. Það er óásættanlegt að öll fjarskipti falli niður í svo langan tíma eins og gerðist nú.

Rafmagnsskortur setur allt í uppnám

Tækninni hefur fleygt fram í landbúnaði ekki síður en annars staðar. Við erum mjög háð rafmagni og stærstur hluti tækja sem við notum eru rafmagnstæki. Þegar þessi búnaður bregst er svo margt sem við höfum ekki, sumir missa allan hita og neysluvatn. Mjaltaþjónar sinna nú mjöltum í ríflega 37% fjósa á Íslandi. Mjaltaþjónarnir þola einungis stutt rafmagnleysi ef þeir eiga að geta haldið eðlilegum mjöltum. Hvort sem mjaltatækni í öðrum fjósum er mjaltabás eða rörmjaltakerfi er hún engu síður háð rafmagni. Mörg kúabú urðu rafmagnslaus í óveðrinu og höfðu ekki yfir að ráða varaafli. Mislangan tíma tók að koma rafmagni til þessara aðila.

Bændur þurfa í kjölfar óveðursins að meta hver og einn hvernig þeir eru í stakk búnir til að mæta erfiðum aðstæðum eins og sköpuðust í síðustu viku. Það er öllum ljóst að það eiga eftir að koma fleiri slík veður og einnig getur ýmislegt annað komið upp á sem truflar afhendingu á rafmagni. Aldrei verður hægt að koma í veg fyrir það en innviði samfélagsins verður að styrkja svo að þeir þoli ágjöf eins og hægt er.

Jól og áramót

Bændum og öllum lesendum Bændablaðsins eru sendar kærar hátíðarkveðjur og óskir um að árið 2020 verði farsælt og gjöfult.

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...