Námuvinnsla og orkuöflun á verndarsvæðum
Stjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur fellt úr gildi vernd stórra landsvæða í Nevada og Nýju-Mexíkó fyrir vinnslu á jarðefnaeldsneyti og málmum sem Biden-stjórnin hafði áður lögfest sem skilgreind náttúruverndarsvæði.
Auk þess sem skógarhögg verður heimilað á meira en helmingi þjóðarskóga Bandaríkjanna.
Frá þessu er greint nýlega í The New York Times, þar sem fram kemur að landbúnaðarráðherrann, Brooke Rollins, hafi tilkynnt ákvörðunina sem hluta af þeirri stefnu að auka nýtingu náttúruauðlinda á þjóðlendum. Ákvörðunin væri liður í að losna við hamlandi regluverk frá Biden-tímanum og hleypa lífi í dreifbýlið, ásamt því að styrkja stöðu Bandaríkjanna sem orkuveldis.
Hörð mótmæli
Um er að ræða 264.000 ekrur í Rubyfjöllunum í Nevada [um 107 þúsund hektarar] og vatnasvæðið Upper Pecos í Nýju Mexíkó. Í umfjölluninni kemur fram að frumbyggjasamfélög hefðu beðið um verndina sem nú hefur verið afnumin. Þingmenn og íbúar á svæðunum hafa brugðist hart við og segja að þessar ákvarðanir hafi verið teknar án samráðs við heimamenn og brjóti gegn vilja frumbyggja og samfélaga sem börðust fyrir verndinni.
Í fréttinni segir að Trump forseti hafi haldið því fram að loftslagsbreytingar af manna völdum séu blekking, þrátt fyrir að sýnt hafi verið vísindalega fram á þá þróun. Hann hafi fyrirskipað alríkisstofnunum að afturkalla allar reglur og aðgerðir sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hann hafi hins vegar aukið bæði eftirspurn og framleiðslu á jarðefnaeldsneyti á landi og hafsbotni.
Stutt umhverfismatsferli
Í framhaldinu hefur verið tilkynnt um ákvarðanir sem miða að því að stytta leyfisveitingar fyrir námuvinnslu og orkuöflun, með styttingu á umhverfismatsferli. Tíðkast hefur að slíkt ferli taki allt að því eitt ár í vinnslu, en með breytingum á að stytta það niður í 14 til 28 daga. Ástæða breytinganna er sögð vera „neyðarástand í orkumálum“, sem Trump hefur lýst yfir.
Í umfjölluninni segir að fram hafi komið hjá fjölda sérfræðinga að ekkert neyðarástand sé í orkumálum Bandaríkjanna. Þau framleiði meira af orku en þau noti og í forsetatíð Bidens hafi orðið mikil framleiðsluaukning, bæði í endurnýjanlegri orku og á jarðefnaeldsneyti. Þannig að í dag sé staðan sú að Bandaríkin flyttu út mest af jarðgasi og framleiddu meira af olíu en nokkuð annað ríki heimsins, þar með talið Sádi-Arabía.
