Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Nær 31 þúsund tonn af kjöti voru framleidd á síðasta ári
Mynd / BBL
Fréttir 23. febrúar 2017

Nær 31 þúsund tonn af kjöti voru framleidd á síðasta ári

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt tölum Búnaðarstofu MAST jókst heildarframleiðsla á kjöti á Íslandi um nær þúsund tonn frá 2015 til 2016, eða úr tæplega 29.870 tonnum í 30. 847 tonn. Það er 3,3% framleiðsluaukning frá árinu 2015.
 
Sala á kjöti frá afurðastöðvum jókst hins vegar meira, eða um 1.500 tonn, sem gerir 6% aukningu milli ára. Hún var rúmlega 25.170 tonn árið 2015 en fór í 26.675 tonn á síðasta ári. 
 
Mest aukning í nautgripakjöti
 
Langmest aukning var í framleiðslu á nautgripakjöti á síðasta ári eða um 21,7%. Var heildar nautakjötsframleiðslan rétt tæplega 4.387 tonn á móti tæplega 3.074 tonnum árið áður. Salan frá afurðastöðvum var nokkurn veginn í takt við framleiðsluaukninguna. 
 
Aukin framleiðsla og sala á kindakjöti
 
Mest var framleitt af kindakjöti, þ.e. lambakjöti og af fullorðnu fé, eða samtals rúmlega 10.375 tonn. Er það 1,9% aukning á milli ára. Sala á kindakjöti frá afurðastöðvum á innanlandsmarkaði jókst um 4,3% frá árinu 2016 og var tæplega 6.742 tonn. 
 
Aukning í alifuglakjöti
 
Í öðru sæti er alifuglakjöt, en af því voru framleidd rúmlega 9.014 tonn á síðasta ári sem er 8,2% aukning frá árinu 2015. Sala á alifuglakjöti frá afurðastöðvum jókst enn meira, eða um 8,8%, þannig að gengið var á birgðir.
 
Samdráttur í svínakjöti
 
Í þriðja sæti er svo svínakjötsframleiðslan. Af því voru framleidd tæplega 6.089 tonn. Vekur athygli að töluverður samdráttur var í svínakjötsframleiðslunni á milli ára eða sem nam 717 tonnum. eða um -10,5%. Þá varð um 3,6% samdráttur í sölu á svínakjöti frá afurðastöðvum á milli ára. Skýrist samdrátturinn trúlega af samkeppni við stóraukinn innflutning á svínakjöti eins og sjá má í umfjöllun á bls. 15.  
 
Aukin hrossakjötsframleiðsla
 
Aukning var í framleiðslu á hrossakjöti á síðasta ári eftir 20,9% samdrátt á árinu 2015. Þannig jókst framleiðsla á hrossakjöti úr tæplega 946 tonnum í rúmlega 982 tonn, eða um 3,8%. Sala á hrossakjöti frá afurðastöðvum jókst enn meira, eða um 8,8%. Virðist því vera að skapast aukin eftirspurn eftir hrossakjöti á innanlandsmarkaði. 
 
Framleiðsluvirði jókst um 2,2%
 
Áætlað heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 2,2% á árinu 2016 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Var framleiðsluvirðið 65,9 milljarðar á grunnverði, þ.e. að meðtöldum vörustyrkjum en frátöldum vörusköttum. 
 
Búfjárrækt skilar 44 milljörðum og nytjaplönturæktun 18 
 
Virði afurða búfjárræktar er talið vera 44,3 milljarðar króna og þar af vörutengdir styrkir og skattar um 10,8 milljarðar króna. Virði afurða nytjaplönturæktar eru tæpir 17,8 milljarðar og þ.a. vörutengdir styrkir og skattar 316 milljónir króna. Aðfanganotkun landbúnaðarins í heild er áætluð 44,3 milljarðar árið 2016 og jókst um 6,9% frá fyrra ári.  
 
Aukningu í framleiðsluvirði árið 2016 má rekja til magnbreytinga. En breytingu á notkun aðfanga má rekja til 5,9% magnaukningar og 1,0% hækkunar á verði.
 
Framleiðsluverðmæti landbúnaðarins árið 2015 er metið 64,6 milljarðar á grunnverði miðað við uppfærðar tölur og er það heildarlækkun um 2,4% frá fyrra árinu, 2014. Þessa lækkun má rekja til 0,1% magnaukningar og 2,6% lækkunar á verði.

Skylt efni: kjötframleiðsla

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...