Niðurstöður sauðfjárskýrsluhalds árið 2023
Á faglegum nótum 6. maí 2024

Niðurstöður sauðfjárskýrsluhalds árið 2023

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Árni Bragason, ráðunautar í sauðfjárrækt.

Uppgjör fyrir árið 2023 byggir á 274.744 ám, tveggja vetra og eldri, og eru skýrsluhaldarar um 1.530 talsins.

Þetta er nokkur fækkun frá síðasta ári en frá árinu 2014 hefur fjöldi kinda í skýrsluhaldinu dregist saman um rúm 20%. Mesta fækkunin frá árinu 2014 er í Gullbringu- og Kjósarsýslu 35,6%, Vestur-Skaftafellssýslu (30,5%), Barðastrandarsýslum (30,3%), Norður-Múlasýslu (28,8%) og Mýrasýslu (28,5%). Minnst fækkun hefur verið í A-Húnavatnssýslu (5%), Eyjafirði (13,1%) og V-Húnavatnssýslu (14,9%).

Meðalafurðir eftir hverja á voru 28,8 kg og aukast talsvert milli ára en árið 2022 voru minni afurðir á mörgum svæðum vegna óhagstæðs tíðarfars þá um sumarið. Mestar afurðir eftir hverja kind eru í V-Húnavatnssýslu, eða 31,7 kg. Næstir eru Strandamenn með 30,5 kg og svo Eyfirðingar með 30,2 kg.

Efstu búin

Þau bú í skýrsluhaldi sem skiluðu uppgjöri fyrir árið 2023 og eru með 100 fullorðnar ær eða fleiri eru samtals 891. Efstu búin á lista yfir kg kjöts eftir hverja á sýna hvað hægt er að ná miklum afurðum eftir hverja kind þar sem fer saman góð frjósemi, góð vaxtargeta lamba og hún nýtt til fullnustu. Árið 2023 voru 7 bú sem ná meira en 40 kg eftir hverja á.

Langefst stendur Gýgjarhólskot í Biskupstungum með 47,1 kg. Þetta bú hefur skipað efsta sætið samfellt frá árinu 2015 og alltaf náð meira en 40 kg eftir ána.

Annað og þriðja sæti hafa sætaskipti frá fyrra ári en Efri-Fitjar í Fitjárdal skipa annað sætið með 44 kg eftir hverja kind og Kiðafell í Kjós það þriðja með 43,9 kg. Næst koma öll með meira en 40 kg eftir hverja kind, Melar í Árneshreppi, Hóll í Sæmundarhlíð, Svínafell 3 í Öræfum (Bölti) og Úthlíð í Skaftártungu. 

Tafla 1. Efstu bú landsins samkvæmt afurðum eftir hverja fullorðna á. Einungis bú með 100 eða fleiri vetrafóðraðar ær.

Frjósemi og lömb til nytja

Afurðir eftir hverja á byggja á fjölda lamba til nytja og fallþunga lambanna. Þetta er því ekki algildur mælikvarði á útkomu sauðfjárbúa þar sem mismunandi framleiðslukerfi henta fyrir mismunandi bú. Sumir sjá hag sinn í því að koma með lömbin snemma til slátrunar en aðrir leggja áherslu á að bata lömbin lengur og nýta vaxtargetu þeirra að fullu. Í þessu sambandi er mikilvægt að allir leggi áherslu á að framleiða góða vöru en lömbin mega hvorki vera of holdlítil né of feit. Alltaf er grundvallaratriði að lömbin séu í góðu standi og framför þegar kemur að slátrun þeirra.

Eitt mikilvægasta atriði m.t.t. afkomu sauðfjárbúa, er að ná sem flestum lömbum til nytja. Frumskilyrði er að ærnar séu frjósamar en síðan eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á lifun lambanna. Meðalfrjósemi árið 2023 var 1,83 lömb eftir ána.

Frjósemin hefur heldur potast upp á síðustu árum þó landsmeðaltalið hreyfist mjög hægt. Því ber þó að halda til haga að mörg bú hafa náð þarna frábærum árangri og eru með frjósemi í kringum tvö lömb eftir ána en það er jú ræktunartakmarkið.

Alls eru 104 bú (12%) með 2 lömb eða fleiri fædd eftir hverja kind á búum með fleiri en 100 fullorðnar kindur á skýrslu. Hins vegar eru búin miklu fleiri sem eiga mikil sóknarfæri í því að bæta frjósemina og hér þyrfti að nást aukinn árangur á næstu árum og hvað mest tækifæri í bættri rekstrarafkomu hvers bús. Nokkur munur er á milli landsvæða í frjósemi. Best er frjósemi ánna í Vestur-Húnavatnssýslu þar sem hver ær fæðir 1,88 lömb að jafnaði og næst kemur Eyjafjarðarsýsla með 1,87 lömb að jafnaði fædd hjá hverri kind. Frjósemi er minnst í Ísafjarðarsýslum eða 1,61 lamb og Suður-Múlasýslu 1,75 lömb.

Til nytja eru að jafnaði 1,63 lömb eftir ána sem er minna en síðustu ár en í samhengi við minni frjósemi milli ára.

Tafla 2. Efstu bú landsins skv. fjölda lamba til nytja eftir hverja fullorðna á. Bú með 100 eða fleiri vetrarfóðraðar ær.

Veturgömlu ærnar

Veturgamlar ær eru 57.805 á skýrslum árið 2023. Meðal frjósemi þeirra er 0,95 lömb. 12,8% ánna voru geldar og 12,7% af þeim var ekki haldið undir hrút. Meðalafurðir eftir hverja veturgamla á voru 11,9 kg. Mestum afurðum eftir veturgamlar ær (miðað við bú með 20 eða fleiri veturgamlar ær) náði búið í Gýgjarhólskoti eða 29,4 kg eftir hverja kind.

Afurðir eftir allar ær búsins (fullorðnar og veturgamlar)

Nú er í annað sinn birtur nýr afrekalisti í samantektum yfir niðurstöður skýrsluhaldsins. Það er listi yfir mestar afurðir eftir allar ær og veturgamlar ær á búinu þá með í hópnum. Búið í Gýgjarhólskoti stendur á toppnum hér með 43,7 kg eftir hverja á. Fullorðnu ærnar eru 285 en þær veturgömlu eru 69 og eru þetta algerlega frábærar afurðir eftir hjörðina. Í öðru sæti er bú Bergþóru og Sigurbjörns að Kiðafelli í Kjós með 39,4 kg og í þriðja sæti er búið á Efri-Fitjum með 39,2 kg eftir hverja kind en það er langstærst þessara þriggja búa með 1.006 ær alls á skýrslum. Þegar þessi mælistika á afurðir er notuð skiptir að sjálfsögðu máli hver hlutur veturgömlu ánna er í heildarfjölda áa og vert að hafa það í huga þegar þessi afrekalisti er skoðaður. Hér má einnig sjá hve mikilli framleiðslu er hægt að ná ef tækifærin eru nýtt eins og kostur er og tekst að láta allt ganga vel upp.

Jafnframt er í aftasta dálki á þessum lista reiknað nytjahlutfall lamba sem segir til um hversu hátt hlutfall af fæddum lömbum kemur til nytja að hausti. Þar hefur þróunin verið á verri veg, þ.e. að hlutfallið fer lækkandi milli ára. Nánari greining á nytjahlutfalli og þróun þess eftir árum og milli aldurshópa kinda bíður betri tíma.

Tafla 3. Efstu bú landsins samkvæmt afurðum eftir allar ær (veturgamlar og fullorðnar). Bú með 100 eða fleiri vetrarfóðraðar kindur.

Listi yfir bú sem ná góðum árangri (úrvalsbú)

Í nokkur ár hefur verið birtur listi á heimasíðu RML yfir bú sem náð hafa mjög góðum árangri með sína hjörð að teknu tilliti til margra þátta. Þessar viðmiðanir hafa verið í mótun og tekið breytingum gegnum árin en nokkrar breytingar urðu á forsendum fyrir ári síðan. Það er eðlilegt að svona viðmiðanir taki nokkuð örum breytingum í takt við vonandi almennt betri árangur hjá fleirum.

Listann má finna á heimasíðu RML þar sem hann er að finna meðal annarra niðurstaðna skýrsluhalds í sauðfjárrækt árið 2023.

Niðurstöður fyrir flokkun sláturlamba

Í skýrslum fjárræktarfélaganna fyrir framleiðsluárið 2023 eru upplýsingar um 404.345 dilka. Meðalfallþungi þeirra var 17,6 kg, einkunn fyrir holdfyllingu 9,60 og einkunn fyrir fitu 6,76. Miðað við 100 sláturlömb eða fleiri er það 31 bú sem nær þeim frábæra árangri að holdfyllingareinkunn sláturlambanna sé 11,5 eða hærri. Árið 2022 voru það 23 bú og árið 2021 voru þau 17 þannig að sífellt fleiri bú eru að skora hærra í holdfyllingarmati sláturlamba. Hæst gerðarmat var hjá Sigurfinni Bjarkarssyni í Brattholti í Árborg en 100 dilkar frá honum fengu að meðaltali 12,8 í gerð.

Næst í röðinni koma lömbin hjá Ægi í Stekkjardal með 12,49 og þriðja í röðinni var búið á Efri- Fitjum með 12,33.

Tafla 4. Efstu bú landsins samkvæmt einkunn fyrir holdfyllingu sláturlamba (gerð) þar sem fjöldi sláturlamba eru 100 eða fleiri.

Að lokum

Niðurstöður skýrsluhaldsins hjálpa okkur til að greina hvað má bæta. Listar yfir hæstu bú hjálpa okkur að sjá hvaða árangri er hægt að ná og eiga að virka sem hvatning.

Til að ná góðum árangri þarf margt að spila saman, s.s. öflugar kynbætur og þekking á gripum hjarðarinnar, góðir búskaparhættir, góðir sumarhagar ásamt hagfelldu tíðarfari.

Nánari upplýsingar varðandi niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir árið 2023 má finna á heimasíðu RML.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...