Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Nýtt hitastigulskort. Slíkar mælingar í borholum hafa reynst mjög gagnlegar við jarðhitaleit á Íslandi, til að finna svæði þar sem heitt vatn rennur um sprungur í jörðu. Hitastigull er þannig lykilþáttur til að meta varmaflæði um yfirborð landsins með varmaleiðingu. Kortið birtir hitastigul sem er reiknað út frá hita sem er mældur í grunnum holum, til dæmis 50–100 m. Síðan er það framreiknað á eins kílómetra dýpi.
Nýtt hitastigulskort. Slíkar mælingar í borholum hafa reynst mjög gagnlegar við jarðhitaleit á Íslandi, til að finna svæði þar sem heitt vatn rennur um sprungur í jörðu. Hitastigull er þannig lykilþáttur til að meta varmaflæði um yfirborð landsins með varmaleiðingu. Kortið birtir hitastigul sem er reiknað út frá hita sem er mældur í grunnum holum, til dæmis 50–100 m. Síðan er það framreiknað á eins kílómetra dýpi.
Mynd / Skýrsla ÍSOR um jarðvaramat, Gunnlaugur M. Einarsson o.fl., 2025
Fréttaskýring 13. október 2025

Mun auðugri auðlind en áður var talið

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Milljarði íslenskra króna var á dögunum úthlutað til verkefna í átaki stjórnvalda sem heitir „Jarðhitinn jafnar leikinn“. Á kynningarfundi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þar sem tilkynnt var um úthlutanir á styrkjunum, kom fram að íslenski jarðhitinn er mun auðugri auðlind en áður var talið.

Rúmlega 90% af heimilum landsins hafa í dag aðgang að hefðbundinni jarðhita hitaveitu, en markmið átaksins er að auka þetta hlutfall í þrepum svo að lokum verði allt Ísland hitaveituvætt. Þau tæpu tíu prósent heimila sem eftir standa, notast þá að mestu við raforku til húshitunar sem er bæði dýr og óhagkvæm leið í samanburði við jarðhitann.

Engin köld svæði

Uppfært jarðvarmamat fyrir Ísland, sem stofnunin Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) vann fyrir ráðuneytið í samstarfi við Umhverfis- og orkustofnun, var kynnt á fundinum þar sem fram kom að í raun séu engin svæði á Íslandi lengur skilgreind sem köld svæði þegar kemur að nýtingu á jarðhita. Uppfært jarðvarmamat gefur heildarniðurstöðu fyrir Ísland sem er um 18% hærra en eldra mat og skiptir þar mestu hærra mat fyrir gosbeltin.

Jóhann Páll Jóhannsson Mynd/Aðsend

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði á kynningarfundinum að jarðhitinn væri úti um allt, það þurfi bara að finna hann og beisla. Og það sé nákvæmlega það sem verið sé að gera með átaksverkefninu. Það snúist um að lækka húshitunarkostnaðinn þar sem hann sé mestur; létta kostnaði af atvinnulífinu, sveitarfélögum og grunnþjónustu. Enn fremur sé markmiðið að jafna aðstöðumun á landinu öllu varðandi orkusparnað og jafnt aðgengi að auðlindinni sem væri í sameign þjóðarinnar.

Sagði hann að svo virtist sem íslenska jarðhitaauðlindin væri jafnvel enn þá kraftmeiri en áður var talið og tækifærin enn meiri til nýtingar á henni. Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér, til þess þurfi pólitískan vilja til að beisla auðlindina og grípa þessi tækifæri.

Margþættur ávinningur

Með átaksverkefninu er því ekki aðeins stefnt að lægri orkukostnaði heimila og sveitarfélaga heldur einnig að verulegum sparnaði fyrir ríkissjóð og ávinningi í loftslagsmálum.

Jarðhitaátakið var kynnt síðasta vor og auglýst eftir styrkumsóknum. Mikil ásókn var í styrkina, en alls var sótt um styrki fyrir 48 verkefni og heildarupphæð fjórir milljarðar. Flestar umsóknir komu frá Vestfjörðum og Austurlandi, sem löngum hafa einmitt verið skilgreind sem „köld svæði“ og víða engin hefðbundin hitaveita í boði.

Styrkir til 18 verkefna

Styrkir voru veittir til 18 verkefna sem munu raungerast á árunum 2025–2027 og endurspegla þær ólíkar aðstæður á landinu hvað varðar aðgengi að heitu vatni.

Í grundvallaratriðum er hægt að skipta verkefnunum í tvennt. Annars vegar á svæðum þar sem staðfest er að jarðvarmi er til staðar og hann verður virkjaður með varmadælum og jöfnunartönkum. Þar er því auðvelt að meta áætlaðan orkusparnað. Hins vegar eru verkefni þar sem fara þarf í hefðbundna jarðhitaleit og boranir á svæðum þar sem vísbendingar eru um að nýtanlegan jarðhita sé að finna.

Verkefnin eru í nágrenni við þéttbýli og er áætlað að þau séu þjóðhagslega hagkvæm og skili miklum raforkusparnaði. Þar með er niðurgreiðsluþörf létt af stjórnvöldum sem leiðir til umtalsverðs sparnaðar fyrir ríkissjóð þegar til lengri tíma er litið.

Sparnaður sem jafngildir notkun 27 þúsund rafbíla

Umhverfis- og orkustofnun hefur áætlað að það losni um 80–120 gígavattstundir (GWst) af raforku í kerfinu samhliða því að verkefnin raungerist. Mest losni á veturna þegar raforkuþörf í kerfinu er hvað mest. Jóhann Páll sagði í kynningu sinni að 80 GWst samsvaraði raforkuþörf um 20 þúsund heimila og jafngilti raforkunotkun 27 þúsund rafbíla – sem væri um 80% af öllum rafbílaflotanum.

Vilhjálmur Hilmarsson, stjórnarformaður Loftslags- og orkusjóðs, kynnti verkefnin sem var úthlutað styrkjum. Hann sagði að talið væri að um 80 GWst af þeirri raforku sem losni í kerfinu muni tengjast rekstri nýrra kyntra veitna – verkefnum sem felist í frekari borunum, uppsetningu á varmadælum og jöfnunartönkum. Meiri óvissa sé um mögulegan ávinning af verkefnum sem lúta að jarðhitaleit, en þó sé áætlað að um 40 GWst raforkusparnaður geti falist í slíkum verkefnum fyrir kerfið.

Loftslagsbókhaldið vegur þungt

Sjö af verkefnunum 18 sem hlutu styrki eru á Vestfjörðum, fimm á Austurlandi, þrjú á Suðurlandi, tvö á Norðurlandi eystra og eitt á Vesturlandi. Hæsta styrkinn fær verkefnið „Jarðhitavæðing Víkur í Mýrdal“, eða 177 milljónir króna.

Í máli Vilhjálms kom fram að við úthlutun hafi verið lögð áhersla á gagnsæi við úthlutun og ætlunin sé að gefa út skýrslu um matskvarða og forgangsröðun sjóðsins.

Níu verkefni fá stuðning vegna rannsóknarborana með 473 milljóna króna heildarupphæð, sjö verkefni fyrir varmadæluverkefni upp á 509 milljónir króna og tvö verkefni sem tengjast varmageymslum upp á 50 milljónir. Við mat á umsóknum var horft til verkefna sem snúast um jarðhita til húshitunar og hvort um sé að ræða verkefni af hálfu sveitarfélaga eða orkufyrirtækja. Sérstaklega var metið hversu mikill samdráttur yrði í losun gróðurhúsalofttegunda – með rafmagns- og olíusparnaði – auk þess sem horft var til þess hvort í verkefnunum væri verið að nýta eða auka núverandi orkukerfi.

Markaðsvirði sparnaðar nemi 2–3 milljörðum

Hilmar sagði að gagnlegt geti verið að setja þennan væntanlega raforkusparnað í samhengi. Hann nefndi sem dæmi að Ljósafossvirkjun væri með orkuvinnslugetu upp á 105 GWst á ári.

Líklegt markaðsvirði af 80–120 GWst raforkusparnaði, miðað við verð til heimila án niðurgreiðslu, geti numið tveimur til þremur milljörðum króna á verðlagsárinu 2025. Það endurspegli gróflega þjóðhagslegan ábata af veitingu eins milljarðs króna til verkefnanna, sem sé óhætt að segja að sé ágæt arðsemi af styrkveitingunum fyrir ríkissjóð.

Brothættur rekstur Orkubús Vestfjarða

Síðast úthlutaði Orkusjóður styrkjum til sambærilegra verkefna í nóvember árið 2023. Þá fékk Orkubú Vestfjarða 188 milljón króna styrk til þriggja verkefna á sviði jarðhitaleitar á Ísafirði og Patreksfirði.

Elena Dís Víðisdóttir, frá Orkubúi Vestfjarða. Mynd / Aðsend

Elena Dís Víðisdóttir frá Orkubúi Vestfjarða greindi á kynningarfundinum frá framvindu verkefnanna. Hún sagði að staðan á þessum svæðum væri í dag sú að skerðanleg raforka væri þar notuð til húshitunar, sem ekki væri hægt að stóla á.

Orkunýtnin á hitun með raforku væri ekki góð, eða einn á móti einum. Sem þýðir að fyrir hverja kílóvattstund raforku fengist ein kílóvattstund af hita. Lágt verð á skerðanlegri orku hafi verið grundvöllur fyrir því að þessum veitum á Vestfjörðum var komið á koppinn. En að undanförnu hefðu raforkuverðshækkanir orðið nokkrar auk þess sem skerðingar hafi aukist og staðið lengur yfir. Þegar kæmi til skerðinga í raforkukerfinu væri olía brennd til húshitunar með miðlægum olíukötlum eða brennurum – með tilheyrandi aukakostnaði og stærra kolefnisspori.

Rekstur veitna á þessum svæðum hafi þannig þyngst með tímanum og væri svo komið að rekstur þeirra væri orðinn brothættur. Ljóst sé að rekstur á þeim eigi sér ekki framtíð í óbreyttri mynd.

Fjárfest í varmadælum

Elena sagði enn fremur að með verkefnunum sem styrkt voru í fyrri úthlutun Orkusjóðs hefði markmiðið verið annars vegar að finna nægilega heitt vatn til húshitunar, en einnig volgt vatn í miklu magni sem mætti þá nýta með notkun á varmadælum. Það hafi verið mikilvæg áherslubreyting sem var afrakstur samstarfs við jarðfræðinga hjá ISOR, sem lögðu nýtt mat á stöðuna á þessum svæðum og í kjölfarið voru staðsettar nýjar rannsóknar- og vinnsluholur.

Niðurstöður úr rannsóknum í kjölfar fyrri styrkveitingar hafi leitt til þess að hægt var að ráðast í tilraunaboranir. Afraksturinn af þeirri vinnu væri sá að nú séu til staðar afkastamiklar vinnsluholur, bæði á Patreksfirði og Ísafirði. Árangurinn væri vægast sagt góður.

Sagði hún að í framhaldinu hafi verið tekin ákvörðun um að virkja þessi svæði með fjárfestingum í varmadælum, sem nýta orku úr jarðhitavatninu og flytja hana inn á lokað dreifikerfi hitaveitunnar. Með því snarminnki raforkuþörf veitnanna auk þess sem gert sé ráð fyrir því að orkunýtnin aukist sexfalt, úr hlutföllunum einn á móti einum í einn á móti sex.

Dælupróf vinnsluholunnar á Ísafirði, sem ber heitið TD-09.
Mynd / Orkubú Vestfjarða
Gjörbreytt sviðsmynd

Á sviðsmynd sem Elena sýndi, sem byggir á átaksverkefnunum, er gert ráð fyrir að orkunotkun Hitaveitu Ísafjarðar (sem er hin stærsta í rekstri Orkubús Vestfjarða) gjörbreytist. Að hún fari úr 60% rafmagnsnotkun og 40% olíunotkun – eins og hún var á síðasta ári – yfir í 83% jarðhitanýtingu og 17% nýtingu á rafmagnsknúnum varmadælum.

Ávinningurinn væri því sá að raforkuþörfin drægist saman um tæp 80 prósent. Á svæðinu losnaði um 51 GWst af raforku á ári, sem væri ígildi 8 MW virkjunar. Sá raforkusparnaður væri án þess kostnaðar sem bygging nýrrar virkjunar hefði í för með sér og tilheyrandi umhverfisáhrifa.

Rafkyntar hitaveitur beri ábyrgð á langstærsta hlutanum í kolefnisspori Vestfjarða. Með þessu verkefni sé gert ráð fyrir að kolefnisspor Orkubús Vestfjarða minnki um 75%. Verkefnið sé þannig í takti við loftslagsmarkmið Orkubús Vestfjarða og stjórnvalda, þar sem jarðefnaeldsneyti er skipt út fyrir græna orkugjafa.

Sviðsmynd um hvernig orkunotkun Hitaveitu Ísafjarðar verður eftir breytingarnar. Mynd / Orkubú Vestfjarða

Varmaforði og varmaflæði

Í nýju jarðvarmamati ÍSOR fyrir Ísland er gefin heildarmynd fyrir mat á varmaforða í berggrunni Íslands og varmaflæði um ystu lög jarðskorpunnar í samhengi við framtíðarmöguleika jarðhitanýtingar á Íslandi.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar geta 25% af náttúrulega varmaflæðinu staðið undir allri frumorkunotkun landsins.

Ástæða til bjartsýni

ÍSOR er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og starfar á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði. Tekna er aflað með með sölu á rannsóknum, ráðgjöf og þjónustu á sviði náttúrufars og auðlindarannsókna, innanlands og á alþjóðlegum markaði. Helstu verkefni varða jarðhitarannsóknir og -nýtingu en einnig grunnvatn og neysluvatn, jarðefni, hafsbotnsrannsóknir og jarðtæknilegar rannsóknir.

Steinunn Hauksdóttir, forstöðumaður auðlindarannsókna og alþjóðasamskipta hjá ÍSOR. Mynd / Aðsend

Steinunn Hauksdóttir, forstöðumaður auðlindarannsókna og alþjóðasamskipta hjá ÍSOR, segir niðurstöður uppfærðs jarðvarmamats gefa ástæðu til bjartsýni varðandi framtíð jarðhitanýtingar á Íslandi. „Forsendur þess eru áframhaldandi efling þekkingar og tækniframfara og sjálfbær nýting auðlindarinnar. Heildstætt jarðvarmamat fyrir Ísland getur einmitt orðið mikilvægur grunnur og hvatning til þeirrar nýsköpunar og tæknilegu framþróunar sem nauðsynleg er fyrir þróun jarðhitanýtingar. Auðvitað þarf að taka mið af ýmsu öðru en tæknilegum áskorunum, eins og kröfum og þörfum samfélagsins.“

Þekking aukist verulega

Spurð um hvað helst hafi breyst frá fyrra mati segir Steinunn að heilmiklum gögnum hafi verið safnað. „Þetta eru rannsóknir og gögn um nýtingu jarðhitans, um náttúrulegan jarðhita, boranir, afköst holna og jarðhitasvæða ásamt mælingum á hitastigli í jarðskorpunni, sem gefa gleggri mynd af því hvernig breytileikinn er á varmaforða og varmaflæði skorpunnar. Með úrvinnslu á grundvelli 14 landsvæða var hægt að greina gróflega þann breytileika ásamt því að uppfæra forsendur sem voru vanmetnar í eldra mati.“

Síðasta heildstæða jarðvarmamat, sem var gert árið 1985, skilaði ágætri þekkingu á því að í skorpu landsins býr óhemjumikill varmaforði. Steinunn segir að frá þeim tíma hafi þekkingin á jarðhitaauðlindinni aukist verulega.

Árangur náðst á Vestfjörðum

„Staðfest er að varmaforðinn og varmaflæðið á Íslandi er óvenju mikið – og meira en áður var talið,“ heldur Steinunn áfram. „Þannig sýnir varmaforði jarðskorpunnar á Íslandi, í samanburði við önnur svæði í heiminum, að ekkert svæði á Íslandi telst vera raunverulega kalt og fræðilega má alls staðar sækja varma í jarðskorpu landsins. Það þarf að finna þá vinnslutækni sem hentar hverju svæði og á þeim grundvelli er rétt að nota frekar hugtakið „krefjandi“ um þau svæði.

Stuðningur stjórnvalda við jarðhitaleit, sem ráðherra kynnti á fundinum „Jarðhitinn jafnar leikinn“, hefur reynst mjög mikilvægur og árangursríkur til að finna nýtanlegan jarðhita í nágrenni þéttbýla um allt land. Því átaki var hleypt af stokkunum í kjölfar úttektar ÍSOR árið 2023 á stöðu hitaveitna landsins, en hún sýndi að nauðsynlegt var fyrir þær að fá stuðning stjórnvalda til að bregðast við þeim áskorunum sem þær standa frammi fyrir. Nú þegar hefur árangur náðst á nokkrum svæðum, eins og á Ísafirði og Patreksfirði, sem fengu styrk í síðustu úthlutun. Önnur svæði hafa fengið styrk í ár og eru vonir um að fleiri þéttbýli finni raunhæfar lausnir til nýtingar jarðhita til húshitunar.“

Möguleikar djúpborana

Spurð um stöðu á möguleikum djúpborana á Íslandi segir Steinunn að í jarðvarmamatinu komi skýrt fram að gosbeltin, utan háhitasvæðanna, séu stór varmaauðlind, sem séu þó að mestu leyti ókönnuð. Það gildi bæði hvað varðar yfirborðsrannsóknir og rannsóknarboranir. „Þau svæði gætu hentað til nýtingar með svokallaðri EGS-tækni, en nú þegar eru öflugir aðilar í Bandaríkjunum og Evrópu í að vinna að þróun á henni og íslensk orkufyrirtæki hafa einnig hafið undirbúning á því.

Horft hefur verið til þess að nýta betur orkuna sem býr í háhitasvæðum á Íslandi með djúpborun. Þau gætu verið mjög öflugir orkugjafar ef tekst að nýta rætur þar sem hiti er hár og orkuinnihald vökva mjög mikið. Áhugi á þessu sviði hefur aukist mikið í heiminum á síðustu misserum og Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem hafa verið leiðandi, en áskoranir eru varðandi þessa nýtingu. Rannsóknir undanfarna áratugi hafa þó skilað mikilvægum áföngum á því sviði.“

Í sérstökum lögum um auðlindir á Íslandi er kveðið á um hverjir hafa nýtingarrétt á jarðhitaauðlindinni. Þar segir að landeigendur geti sótt um eða tilkynnt um rannsóknir, en þeir þurfa síðan leyfi til nýtingar. Mynd / Orkubú Vestfjarða
Nægir í 45 þúsund ár

Steinunn segir að til dæmis hafi ÍSOR þróað sérstök tengi fóðringa í háhitaholur og er með einkaleyfi á þeirri hönnun og í þróun sé djúpsýnataka ásamt fleiri nýsköpunarverkefnum, í samstarfi við orkufyrirtækin, háskóla og erlendar rannsóknastofnanir.

„Nú þegar hafa verið boraðar tvær djúpborunarholur á Íslandi, ein í Kröflu og önnur á Reykjanesi, og unnið er að undirbúningi þeirrar þriðju, líklega á Nesjavöllum. Einnig er í undirbúningi djúpborunarverkefni á Kröflusvæðinu sem mun einnig fela í sér eldfjallafræðilegar rannsóknir með borun í kviku.

Sú orka sem unnin verður með djúpborun getur bæði falið í sér vinnslu á raforku og varmaorku (heitt vatn).

Í skýrslunni er samantekt um jarðhitanýtinguna eins og hún er í dag á Íslandi, þar sem fram kemur að tveir þriðju hlutar frumorkunotkunar eru með jarðhita. Jarðhitaauðlindin okkar er mögulega okkar mikilvægasta auðlind,“ segir hún.

Þegar Steinunn er beðin um að áætla möguleika auðlindarinnar, ef hægt verði að hagnýta hana alla, segir hún afar ólíklegt að við getum nokkurn tíma nýtt alla jarðhitaauðlindina. „En hún er gífurlega mikil og er til dæmis lýst þannig að eitt prósent varmaforðans í jarðskorpu Íslands myndi nægja núverandi orkuþörf landsmanna í 45.000 ár.“

Jarðhiti í lykilhlutverki í grænum orkuskiptum

Steinunn útskýrir að á heimsvísu séu nýsköpun og rannsóknir í jarðhita leiddar áfram af rannsóknarog fjárfestingarsjóðum, ásamt orkufyrirtækjum, og í sífellt meiri mæli séu olíufyrirtæki að færa sig yfir í jarðhita og leita nýrra lausna á grundvelli sérþekkingar þeirra.

„Með áframhaldandi nýsköpun mun jarðhiti gegna lykilhlutverki í grænum orkuskiptum á heimsvísu. Fjölþættari nýting auðlindarinnar, bæði hvað varðar það hvernig varminn er sóttur og hvernig hann er nýttur á yfirborði, ásamt bættri nýtni og háþróaðri djúpborun, til viðbótar við samþættingu við aðra hreina orkugjafa, mun tryggja að jarðhitinn verði mikilvægur þáttur í sjálfbæru samfélagi framtíðarinnar.“

Hugsað enn stærra í næsta fasa

Jóhann Páll sagði í lokaorðum sínum á kynningarfundinum, í tengslum við úthlutanir styrkja í átaksverkefninu, að óhætt væri að segja að hvergi í heiminum léki jarðhiti jafnstórt hlutverk og á Íslandi.

Fyrri kynslóðir á Íslandi hafi hugsað stórt með því að beisla jarðhitann, en stefnumótun hafi skort fyrir nýtingu jarðhitans á Íslandi. Næsti fasi í átakinu hefjist um leið og verkefnastyrkirnir hafa verið afhentir og verkefnin sett af stað. Þá verði hugsað enn stærra og ekki bara um jarðhitann sem tæki til að jafna lífskjör á Íslandi heldur einnig sem drifkraft verðmætasköpunar og atvinnuþróunar um allt land. „Hver veit nema við beinum sérstaklega sjónum að nýjum aðferðum, meiri hita, dýpri holum, að jarðhitanýtingu framtíðar og næstu kynslóðar þar sem Ísland hefur alla burði til þess að vera í leiðandi hlutverki,“ sagði Jóhann Páll.

Regluverk einfaldað

Að sögn Jóhanns Páls verður næsta jarðhitaauglýsing úr Loftslags- og orkusjóði í þessum anda – ætlunin sé að styðja við nýsköpun og tækniframfarir á sviði jarðhitanýtingar sem uppsprettu fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Þegar sé frátekið fjármagn í þetta og munu styrkir verða auglýstir strax á næstu vikum.

Samhliða sé ætlun stjórnvalda að ganga rösklega til verks til að einfalda regluverk og stjórnsýslu þegar kemur að jarðborunum. Fyrstu skrefin verði stigin með lagabreytingum sem stefnt er að að mæla fyrir á Alþingi strax í þessum mánuði, þar sem afnumin verður krafan um að gefin séu út sérstök starfsleyfi fyrir hverja einustu borframkvæmd. Með því sé leyfisferillinn styttur umtalsvert og liðkað fyrir mikilvægum framkvæmdum.

Þá sé ætlunin í nálægri framtíð að nálgast kortlagningu svæða með hagnýtari hætti, með því að forgangsraða svæðum í þágu samfélagsþarfar og í takti við orkustefnu ríkisstjórnarinnar. Auk þess sé stefnt að því að styrkja alþjóðlegt forystuhlutverk Íslands á sviði jarðhita, dýpka samstarf við vinaþjóðir og beita sér fyrir því að jarðhitinn njóti sannmælis í evrópsku regluverki – sem sé í örri þróun um þessar mundir.

Almenningur hefur ekki aðgengi að auðlindanýtingu

Í sérstökum lögum um auðlindir á Íslandi er kveðið á um hverjir hafa nýtingarrétt á jarðhitaauðlindinni. Þar segir að landeigendur geti sótt um eða tilkynnt um rannsóknir, en þeir þurfa síðan leyfi til nýtingar. Almenningur hefur í raun ekki aðgengi að auðlindanýtingu nema með eignarhaldi á landinu, en sveitarfélög geta leitt slíkar framkvæmdir og þá í samvinnu við landeigendur.

Umhverfis- og orkustofnun veitir rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi vegna jarðhitanýtingar. Stofnunin safnar einnig gögnum frá hitaveitum landsins sem hluta af eftirliti með þessum leyfum og sölu á heitu vatni. Nýtingarleyfi setja nýtingunni skorður og er markmiðið að nýting sé þjóðhagslega hagkvæm. Þá veitir stofnunin einnig virkjunarleyfi, meðal annars fyrir jarðhitavirkjanir.

Verkefnin sem var úthlutað styrkjum.

Matvæli hluti af þjóðaröryggi
Fréttir 5. desember 2025

Matvæli hluti af þjóðaröryggi

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands skilaði fyrir skemmstu af sér til...

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur
Fréttir 5. desember 2025

Skerpt á reglugerðum um erfðabreyttar lífverur

Breytingar á reglum um erfðabreyttar lífverur hafa verið kynntar til umsagnar í ...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f