Mögnuð vörn í beinni
Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýjung í sjónvarpi sem boðið hefur verið upp á síðan í haust.
Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Bridgesambands Íslands, er heilinn á bak við Úrvalsdeildina í bridds, þar sem unnendur briddsíþróttarinnar hafa átt þess kost að fylgjast með sterkustu spilurum landsins etja kappi í beinni útsendingu. Hægt er að fylgjast með viðureignunum, ýmist í beinni undir hatti Rafíþrótta Símans, á Youtube eða Twitch, en margir nýta sér að skoða leikina eftir á.
Mörg „sjónvarpsaugnablik“ hafa verið í mótinu til þessa. Eitt hið örlagaríkasta var þegar Rúnar Einarsson og Guðjón Sigurjónsson í sveit Málningar melduðu sig upp í harða en fallega laufslemmu gegn sveit Grant Thornton. Við fyrstu sýn virtist sem ekkert gæti banað slemmunni, sjá stöðumynd. Þrjú grönd spiluð á hinu borðinu, 12 slagir.
En Gunnar Björn Helgason og Húsvíkingurinn Guðmundur Halldórsson voru á öðru máli.
Ef eitthvert annað útspil en tígull kemur út hjá suðri, Gunnari, liggja flest vötn til Rómar hjá sagnhafa. En Gunnar hitti á tígul út og sagnhafi setti lítið í blindum sem norður drap með ás. Eftir nokkra umhugsun komst Guðmundur Halldórsson að þeirri hárréttu niðurstöðu að eina leiðin til að spilið færi niður væri að hleypa sagnhafa „ódýrt“ inn í blindan til að framkvæma svíningu í tromplitnum. Hann spilaði tígli til baka. Sagnhafi kastaði hjartasjöunni í tígulkóng. Og nú er eðlileg spilamennska að svína strax laufi með það í huga að trompa svo spaða síðar. Enda svínaði Rúnar strax. Suður fékk því á blanka laufdrottningu. Einn niður.
Athugið að ef Guðmundur spilar laufi mun sagnhafi fyrst taka trompás með það í huga að trompa svo tígul, kasta hjarta í kónginn og vinna spilið. Ef hjarta er spilað heppnast svíningin og þá er líka tempó til að leggja niður laufás.
26 impa sveifla og Grant Thornton flaug í úrslitaleikinn. Meistarataktar.

Önnur deildin leikin í Hafnarfirði
Skemmtilegt mót er fram undan á vegum BSÍ og verður spilað í sal Bridgesambands Íslands í Hafnarfirði. Mótið kallast Önnur deildin og er opin öllum spilurum. Leikirnir verða stuttir svo allt getur gerst. Þetta er mótið sem nýliðar gætu nýtt sér til að taka fyrstu skref í keppnisbridds. Spiluð verður sveitakeppni þannig að ekki færri en fjórir eru í hverju liði. Nánari upplýsingar hjá Bridgesambandi Íslands.
