Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Miklir óvissutímar fram undan
Fréttir 30. apríl 2020

Miklir óvissutímar fram undan

Höfundur: Guðjón Einarsson

Markaðir fyrir ferskfisk frá Íslandi eru hrundir vegna farsóttarinnar. Stærstu saltfiskmarkaðirnir í Miðjarðarhafslöndunum eru lamaðir. Markaðir fyrir frystar afurðir hafa hins vegar haldist opnir og flutningar milli landa eru óheftir. Fullkomin óvissa ríkir um þróunina næstu vikur og mánuði.

Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi hafa fengið undanþágu til starfa áfram þrátt fyrir fjöldatakmarkanir á vinnustöðum og hafa aðlagað sig að breyttu umhverfi. Mörg minni sjávarútvegsfyrirtæki eru einnig áfram í rekstri og veiðar hafa að stærstum hluta haldið áfram þrátt fyrir farsóttina.

Útgöngubann

„Þegar samkomutakmarkanir og síðar útgöngubann tók gildi í helstu viðskiptalöndum okkar fyrir nokkrum vikum og veitingastöðum, hótelum, mötuneytum og opnum fiskborðum í verslunum var lokað stöðvaðist sala á ferskum fiski nánast að öllu leyti,“ segir Friðrik Þór Gunnarsson, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í samtali við Bændablaðið. „Eftirspurn eftir frystum afurðum af hálfu erlendra smásölukeðja hefur hins vegar haldist áfram og því hafa íslensku fiskvinnslufyrirtækin, sem það geta, ráðstafað hráefninu sem áður fór í ferskfiskframleiðslu í frystingu og í sumum tilvikum aukið saltfiskvinnslu sína. Enn sem komið er hefur aukið framboð á frystum afurðum ekki leitt til verðlækkana, hvað sem síðar verður. Það hefur þó sett strik í reikninginn að eftir að Bretar settu á útgöngubann var öllum Fish&chips búðum þar í landi lokað en þær hafa keypt mikið af sjófrystum flökum frá Íslandi. Reynt hefur verið að koma þeirri vöru inn í smásöluverslanir en annars er framleitt í birgðir.“

Ítalía og Spánn illa úti

Eins og kunnugt er hafa Ítalía og Spánn farið sérstaklega illa út úr farsóttinni, en þar eru einmitt mikilvægustu saltfiskmarkaðir Íslendinga. Þar á ofan er tímabilið í aðdraganda páskanna helsti sölutíminn á árinu og því hefur orðið mikill samdráttur í saltfisksölu í þessum löndum, að sögn Friðriks. Hins vegar hefur Portúgal ekki orðið eins illa úti í þessum hörmungum og nágrannalandið Spánn og hefur saltfisksala þangað haldið áfram þrátt fyrir farsóttina.

Bandaríkin voru opin eitthvað lengur en Evrópulöndin, þar sem farsóttin kom þangað seinna, en nú er veiran að breiðast ört út þar vestra og því má búast við svipaðri þróun þar og orðið hefur í Evrópu.

Óvæntar útflutningstölur

Eins og áður sagði hafa ferskfisk­markaðir Íslendinga að mestu hrunið vegna farsóttarinnar en ferskar afurðir gefa að jafnaði hvað hæst verð fiskafurða. Útflutningsverðmæti ferskfisks nam um 80 milljörðum króna á síðasta ári, eða um 30% af heildarverðmæti sjávarafurða.

Forvitnilegt er að vita hvaða áhrif farsóttin hefur haft á verðmæti útfluttra sjávarafurða í marsmánuði, fyrsta mánuðinum sem áhrifa veirunnar gætti. Hagstofa Íslands birti bráðabirgðatölur um það rétt fyrir páska og koma þær óneitanlega nokkuð á óvart, því verðmætið nam 25,5 milljörðum króna og jókst um rúmlega 17% í krónum talið miðað við mars í fyrra, en að teknu tilliti til gengisáhrifa var aukningin tæplega 9%, þar sem gengi krónunnar gaf verulega eftir í marsmánuði vegna COVID-19.

Að sögn Friðriks ber að hafa í huga í þessu sambandi að útflutningstölur fyrir tiltekinn mánuð endurspegla ekki að öllu leyti það sem flutt var út í viðkomandi mánuði. Þar kemur tvennt til. Annars vegar það að hluti af afurðunum kann að hafa verið fluttur út fyrir alllöngu þótt hann rati ekki inn í gögn Hagstofunnar frá tollayfirvöldum fyrr en síðar. Hins vegar það að fyrri hluta marsmánaðar var eftirspurn góð og verð hátt. Það var ekki fyrr en fyrstu útgöngubönnin erlendis voru sett á um miðjan marsmánuð að áhrifa farsóttarinnar fór að gæta í útflutningi frá Íslandi.

Fullkomin óvissa

,,Það er ómögulegt á þessari stundu að áætla það tjón sem hljótast mun af farsóttinni fyrir útflutning sjávarafurða. Það fer allt eftir því hve lengi þetta ástand varir. Ef núverandi ástand verður gengið um garð eftir einn eða tvo mánuði spyr maður sig hvort hægt verði að endurheimta síðar á árinu eitthvað af þeirri eftirspurn sem minnkaði. Um það getur enginn dæmt núna,“ sagði Friðrik Þór Gunnarsson. 

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...