Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
„Fiskurinn, ekki síst þorskurinn, er einn af traustustu hornsteinum íslenskrar menningar og sjálfsvitundar.“
„Fiskurinn, ekki síst þorskurinn, er einn af traustustu hornsteinum íslenskrar menningar og sjálfsvitundar.“
Lesendarýni 27. ágúst 2025

Menningararfur, aðdráttarafl, dýpt

Höfundur: Hannes Lárusson, myndlistarmaður og húsvörður Íslenska bæjarins.

Viðureign forfeðra og formæðra við fyrirliggjandi aðstæður hefur ávallt kallað á hugmyndaflug og útsjónarsemi, aðlögun að daglegu lífi í mismunandi myndum og návígi við eigin líkama og annarra. Þessi viðureign kynslóð fram af kynslóð skilur óhjákvæmilega eftir sig afrit, viðteknar athafnir, siði, hluti og fágun sem stundum nær að endurspegla æðri víddir mannskepnunnar. Þessar æðri víddir eru stærri en eintaklingurinn, frumspekilegar forsendur, svið þar sem aðalleikarinn heldur á lofti boltum í frumlitunum þremur, grænum, brúnum og gráum, þar sem hver bolti endurspeglar á víxl, vísindi, trúarbrögð og listsköpun. Þennan boltaleik köllum við menningararf, akkerisfestinguna sem færir lífi einstaklingsins innri dýpt og tilgang.

Menningararfur þrífst á athöfnum og lausnum sem hafa sannað gildi sitt mann fram af manni og skapað tilteknum samfélögum sérstöðu þar sem tvinnast saman lífsstíll, notagildi og fagurfræði. Þessi afrit og arfur geta jöfnum höndum framkallast í byggingu húsa, beitingu sérhæfðra véla og verkfæra, tungumáli og tónum eða verkun og framsetningu á matvælum; viðhorf sem í gegnum aldirnar byggir upp næmi fyrir gæðum og lausnum sem jöfnum höndum auka atgervi, skapa gleði og byggja upp sjálfstraust.

Flest í okkar menningararfi hefur í gegnum aldirnar verið tengt dreifbýli og viðureign við lífsskilyrði til lands og sjávar. Fram á fyrstu áratugi tuttugustu aldar áttu flestir íslendingar heima í sveitum landsins í byggingum sem aðlagast höfðu landslaginu og fyrirliggjandi byggingarefnum í meira en þúsund ár. Lífsstíllinn í þessu samfélagi einkenndist löngum af þéttri samveru og hópefli sem skilaði af sér fáguðum afurðum þar sem notagildi og fagurfræði vega salt, hvort heldur það er bærinn sem á hnitmiðaðan hátt er aðlagaður umhverfi sínu eða askurinn, rúmteppið, peysan, grútarlampinn eða rifinn þorskhaus sem liggur á borðinu. Öll skilningarvitin eru virkjuð í listrænni upplifun sem þó er um leið umvafin áru notagildisins.

Þrátt fyrir að hin nauðsynlega nútímavæðing á lífsstíl hafi af ofurkappi, myndarskap og dugnaði óvart sópað burtu af sviðinu stórum hluta þúsund ára menningararfs má þó enn finna aukaleikara að bauka með afurðir þessa arfs í skugganum, einsemdinni og rónni baksviðs. Í þessu nafnlausa leikriti finnast enn aukaleikarar með nýsmíðaða torfljái og pála, vefstóla, prjóna og pönnur tilbúnir þegar kallið kemur, og þarna má líka greina nokkra í nýprjónuðum peysum með sjálfskeiðunginn og nýsmíðaða flugbeitta hnífa að rífa þorskhaus með smjörið og sölin innan seilingar.

Græn torfa

Handverk sem stundað er kynslóð fram af kynslóð þróast og fágast, tilfinning fyrir hráefninu eykst, verkfærin verða betri og útfærslur verða fjölbreyttari og djarfari. Lifandi handverk þrífst í viðureigninni við lausn nauðsynlegra verkefna. Þessi viðureign byggir upp útsjónarsemi og alúð sem leiðir til niðurstöðu sem stendur á eigin fótum jafnt verktæknilega og fagurfræðilega. Prjónaskapur íslenskra kvenna, og karla, í gegnum aldirnar er gott dæmi um lifandi menningararf og afreksíþrótt. Torfskurður, torfstunga, hefðbundnar veggjarhleðslur, eldsmíði, bátasmíði, baðstofusmíði, verkun og framsetning hertra þorkshausa er hins vegar dæmi um Menningararfur, aðdráttarafl, dýpt menningararf þar sem liðverkir, sinadráttur og glámskyggni draga úr afrekum og getu til að lesa leikinn, halda boltanum á lofti, taka sviðið og hitta í mark.

Þegar menningararfur deyr eða er í andarslitrunum og verður jaðarsettur liðast viðmið og leiðarstef gjarnan í sundur og lenda í einum graut þar sem blindur leiðir blindan ýmist í glannaskap eða bókstafstrú. Þegar það sem áður þótti sjálfsagt og var alltumlykjandi og fínpússað í aldanna rás verður hjáróma og sú niðurstaða fengin að betra sé að stjákla í lausamöl og taka út malbik en bjóða gestum að þræða göng hinna manngerðu furðuverka, þá er fátt í spilunum annað en að byrja að læra upp á nýtt í barnslegri einfeldni eins og leitandi landnámsmenn eða nýgræðingar; – eða skila arfinum aftur undir græna torfu sáldraða minningabrotum. Í þessum efnum er ekki bæði hægt að halda og sleppa.

Þorskhausinn

Fiskurinn, ekki síst þorskurinn, er einn af traustustu hornsteinum íslenskrar menningar og sjálfsvitundar. Harðfiskur er sú fæðutegund sem einna helst hefur stuðlað að góðri heilsu og langlífi Íslendinga og vænlegasta verkunin og geymsluaðferðin í gegnum aldirnar var einfaldlega að þurrka fiskinn án mikilla tilfæringa. Útiþurrkaður fiskur fer í gegnum gerjunarferli sem léttir niðurbrot og eykur bragðgæði sem einkennist af því að vel verkaður harðfiskur verður það sem kallað er maltur. Hjallþurkaður harðfiskur er ekki bara heilsufæði, þegar smjöri og sölvum hefur verið bætt við, sem tekur flestum fæðutegundum fram, heldur hefur að geyma jafndjúpa sögu og byggðin í landinu þar sem kórónan er herti þorskhausinn. Í þeim hausi er einmitt að finna allt sem einkennir hnarreistan menningararf sem hefur í sér fólgið handverk, formfræði, fágun, bragðgæði, orðkynngi og sérstöðu sem gerir herta þorskhausinn með allt sem honum fylgir að þjóðararfi sem jafnframt ætti verðugt tilkall sem einstakur heimsarfur.

Ekki er seinna vænna að kalla herta þorskhausinn fram á sviðið og gera honum skil í orðum, formfræði, handverki og sem fulltrúa háþróaðrar matarmenningar og lífsstíls. Þann 30. ágúst eru allir þeir sem haft hafa kynni af bjöllunni, koddanum, bóginum, kellingasvuntunni, skollaskyrpunni, krummafiskinum, kjaftafiskinum, kinnfisknum, undirfisknum, baulunni og auganu boðnir velkomnir á Torfdaginn í Íslenska bænum að AusturMeðalholtum í Flóa þar sem þorskhausinn hefur hangið til þurrks meira og minna frá landnámi. Stefnt verður að því að greina og gera hverjum hluta í þorskhausnum skil með tilliti til útlits, forms, staðsetningar, nafns, bragðtilbrigða og vænlegrar framsetningar.

Torffuglinn

Torfdagurinn hefur verið haldinn án mikillar viðhafnar á hverju sumri árum saman en var í fyrsta skipti settur í formlegan ramma síðasta sumar, með eftirfarandi hætti: „Torfdagurinn er hugsaður sem árleg hátíð og samráðsvettvangur áhugafólks á öllum aldri um aldagamla íslenska hleðslutækni og byggingararf og jafnframt vettvangur til að kveikja áhuga og nýsköpun á þessu sviði; sem hefur óþrjótandi möguleika. Á dagskrá verðu torfrista, torfstunga og veggjarhleðsla, sýning á torfhnausum og hefðbundnum verkfærum, umfjöllun um handbók um hleðsutækni, fyrirlestur um stærsta uppistandandi vegg á Íslandi, kynning á fuglalífi og gróðurfari mýrarinnar og lykillplöntur í torfstungumýrum kynntar til leiks, staðbundum byggingum á keltneskum svæðum lýst, eldsmíði þar sem torfljár verður smíðaður, langspilsleikur, ljóð, teikning og leirmótun. Á borðum verður kaffi og grasate, kleinur, súkkulaðifuglar, og frumsmökkun á torfsúkkulaði.“

Megináhersla Torfdagsins árið 2025 er sem fyrr handverk, fagurfræði og djúpar rætur sem lúta að sérstöðu og menningararfi sem þrátt fyrir firringu og jaðarsetningu býr yfir óþrjótandi möguleikum, þar sem aflvakinn er hugmyndaflug, einlægur áhugi, áunninn skilningur, nýtt samhengi, nærvera, bein snerting, virðing og agi. Við nánari skoðun er ekki langt á milli þess að rífa þorskhaus með góðum hníf og leysa bjöllu, kodda og bóg úr læðingi eða stinga hnaus og sniddu, rista streng, dæludúllu eða mýrarkóng, allt af sömu djúpu rótunum runnið og hluti af sömu sviðsmyndinni.

Þegar lokið er tekið af fjársjóðskistunni leysist aðdráttaraflið og forvitnin jafnan úr læðingi, og þess vegna mun torffuglinn taka flugið í fyrsta skipti þann 30. ágúst, 2025 með vel malta bjöllu í gogginum.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...