Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ólafur Ögmundarson.
Ólafur Ögmundarson.
Mynd / ál
Fréttir 5. desember 2025

Matvæli hluti af þjóðaröryggi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands skilaði fyrir skemmstu af sér tillögum að neyðarbirgðum matvæla á Íslandi.

Helstu niðurstöður voru kynntar á málþingi um stöðu fæðuöryggis á vegum atvinnuvegaráðuneytisins. Stríð, farsóttir og loftslagsbreytingar hafa beint athygli að því hversu viðkvæm samfélög geta verið.

Í skýrslunni má sjá yfirlit um tillögur að neyðarbirgðum matvæla á Íslandi ef upp koma þær aðstæður að innflutningur og viðskipti lokast. Miðað er við að orkuþörf einstaklings sé í kringum 2.000 hitaeiningar á dag. Heildarmagn birgða miðast við fólksfjölda sem er að jafnaði 450.000, að ferðamönnum meðtöldum. Skoðað var hvaða magn þyrfti fyrir þrjú tímabil: þrjár vikur, þrjá mánuði og sex mánuði.

Kornvara með gott geymsluþol

Ólafur Ögmundarson, dósent og forseti matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands, kynnti skýrsluna á áðurnefndu málþingi. Hann fagnar því að núna séu stjórnvöld farin að tengja matvæli við þjóðaröryggi. „Þegar öllu er á botninn hvolft hlýtur að vera algjört forgangsatriði þegar kemur að því að tryggja þjóðaröryggi að þú getir tryggt þegnunum matvæli þannig að þeir lifi af,“ segir Ólafur í samtali. „Eins þurfum við að tryggja að í boði sé menntun sem stuðlar að fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi.

Í mjög stuttu máli erum við að horfa til þess að neyðarbirgðir séu byggðar á matvælum sem hafa langt geymsluþol. Við miðum við að 70 prósent orkunnar komi frá kornvörum og hrísgrjónum. Fimmtán prósent orkunnar ætti að koma frá sykri og fimmtán frá innlendum próteingjöfum, sem er kjöt og fiskur.

Við bendum á að til þess að auka viðnámsþrótt væri gott að auka fjölbreytileika í innlendri matvælaframleiðslu, og þá sérstaklega með áherslu á grænmeti til þess að uppfylla steinefna- og vítamínsþarfir.“ Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir umtalsverða innlenda matvælaframleiðslu felist veikleikar í því hversu háð hún er innfluttum aðföngum á borð við eldsneyti, áburð, fóður sáðvöru og fleira. Rof á aðfangakeðjum geti fljótt haft áhrif á búgreinar sem reiða sig að miklu, eða öllu leyti, á innflutt aðföng.

Tillögurnar eiga að dekka ólíkt mataræði

„Það sem við leggjum til er „spartanskt“ en mjög í anda annarra landa sem við horfum til. Þegar á hólminn er komið þarf ríkið að tryggja borgurunum orku og það gerum við með þessu. Þetta dekkar líka þá sem aðhyllast annað en hefðbundið mataræði, því það er mikið af kornvörum og hrísgrjónum sem allir ættu að geta borðað og dýraafurðir fyrir þá sem það vilja. Þetta eru bara tillögur sem við komum með og þær eru ekki hafnar yfir gagnrýni. Svo er það á endanum ríkisins, í samvinnu við stærstu hagaðila, að ákveða hvernig skuli útfæra þetta og hvaða matvæli teljist að lokum til neyðarbirgða.“

Þegar Norðurlöndin eru borin saman séu Finnar komnir lengst á veg í þróun neyðaráætlana. Þar eru fyrirtæki samningsbundin til að eiga ákveðið magn af tilteknum vörum á svokölluðum veltulager, sem kemur í veg fyrir að birgðirnar fyrnist. Þar í landi eru til kornvörur sem geta staðið undir 8,5 mánuðum af venjulegri neyslu landsmanna. Eins vinna Finnar að því núna að koma upp neyðarverslunum sem hafa aðgengi að varaafli.

Rafmagn fyrir grænmetisrækt til

Á málþinginu kom Ólafur stuttlega inn á að hægt væri að framleiða allt grænmeti sem Íslendingar þurfa með minni raforku en fer í öll gagnaver landsins eins og staðan er í dag. Inntur eftir frekari skýringum útskýrir Ólafur að við matvæla- og næringarfræðideildina í háskólanum sé unnið að verkefni þar sem skoðað er hvað þurfi mikla raforku ef Íslendingar ætla að framleiða allt sitt grænmeti. Byggir verkefnið á meistararitgerð sem Danielle Napier skrifaði við HÍ og Ólafur var meðleiðbeinandi að.

„Til að setja þetta í samhengi benda fyrstu niðurstöður útreikninga okkar til þess að það þyrfti um 460 gígavattstundir til að framleiða allt grænmeti fyrir innanlandsmarkað miðað við meðaltalsorkuþörf nokkurra grænmetistegunda ef notast er við LED-lýsingu. Til samanburðar er raforkan sem fer til gagnavera í ár um 1.200 gígavattstundir.“

Ólafur tekur fram að í þessum reikningum um orku til grænmetisframleiðslu sé ekki tekin með sú orka sem fer í að kynda gróðurhús – enda þar yfirleitt notast við hitaveitu. „Til gamans höfum við líka skoðað ávexti og innlenda framleiðslu umfram það sem nú þegar er framleitt af þeim. Til þess að uppfylla alla þörf á bæði grænmeti og ávöxtum með innlendri framleiðslu benda fyrstu útreikningar til að við séum að tala um minna en 2.000 gígavattstundir. Eins og staðan er í dag, samkvæmt opinberum tölum frá orkufyrirtækjum, eru ekki nema 25 gígavattstundir að fara í grænmetisframleiðslu á ári.“

Skylt efni: fæðuöryggi

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...