Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ferska lambakjötið sem var kynnt á Skál.
Ferska lambakjötið sem var kynnt á Skál.
Mynd / Kristinn Magnússon
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði sauðfjárafurða til markaðssetningar á fersku kindakjöti utan hefðbundins sláturtíma. Ferska kjötið er markaðssett undir vörumerkinu Brákarey.

Samstarfsaðilar í verkefninu eru, auk bænda og veitingamanna, Landbúnaðarháskóli Íslands og Material Nord ehf. Að sögn Eiríks Blöndal, stjórnarformanns sláturhússins, hefur þetta verkefni verið í undirbúningi í nokkurn tíma – en með þessum styrk sé ætlunin að auka enn frekar markaðssetninguna fyrir ferska kjötið.

Frá kynningu á ferska lambakjötinu á síðasta ári á veitingastaðnum Skál á Hlemmi. Eiríkur Blöndal, stjórnarformaður Sláturhúss Vesturlands, er hér á milli þeirra Guðrúnar Sigurjónsdóttur, bónda á Glitstöðum í Norðurárdal, og Gísla Matthíasar Auðunssonar, veitingamanns á Skál. Mynd / Kristinn Magnússon

Veitingahús í föstum viðskiptum

„Það má segja að þetta tilrauna­verkefni hafi farið fyrir alvöru af stað síðasta vetur og við settum tvisvar ferskt lambakjöt á markað. Það reyndist bara frekar vel og hvatti okkur til að halda þessu áfram – og reyna að auka jafnvel framboðið til veitingahúsanna. Við höfum verið með valin veitingahús í föstum viðskiptum við okkur og reiknum með að halda því áfram, en veitingahúsin sækjast eftir því að fá lambakjöt í sérstökum gæðaflokki.

En þá þurfum við að markaðssetja vöruna betur og því sóttum við um þennan styrk,“ segir Eiríkur og reiknar með að það verði slátrað einu sinni í mánuði í vetur fyrir þennan markað.

Vel hangið kjöt

„Við vitum að veitingamennirnir vilja fá kjötið fullmeyrnað og því látum við það hanga vel hjá okkur eftir slátrun. Þetta kjöt stendur svo kröfuhörðum viðskiptavinum veitingahúsanna til boða og við fáum ágætlega greitt fyrir þessar afurðir okkar. En styrkurinn er sem fyrr segir hugsaður til að þróa frekari markaðssetningu á afurðunum. Þar erum við að hugsa um upprunatengingar líka svo sagan skili sér alla leið frá bænum þaðan sem kjötafurðin er komin,“ segir Eiríkur.

Hann segir að markmiðið sé ekki að stækka þetta verkefni mjög mikið, en samt sé vilji til að fá fleiri bændur og veitingamenn inn í það.

Sláturhús Vesturlands í Brákarey í Borgarnesi. Mynd / smh

Ekki bein samkeppni við „hefðbundið lambakjöt“

Að sögn Eiríks er þetta verkefni einhvers konar viðbragð við umræðunni um skort á þessari vöru og þörfinni á aukinni verð­mætasköpun í landbúnaði.

„Eins hafa rannsóknir hjá Matís sýnt fram á sérstöðu slíkrar ferskvöru. Íslenskt lambakjöt hefur mjög verðmæta sérstöðu og í þessu verkefni er verið að nálgast afmarkaðan markhóp sem vill enn meiri sérstöðu. Það er mikilvægt að finna og þjónusta verðmætan hluta markaðarins,“ segir hann.

Þegar hann er spurður hvernig Brákarey muni fara að því að geta reglulega boðið upp á þessa vöru, hvort ekki þurfi að breyta framleiðslukerfinu með fleiri burðartímum, segir hann svo ekki vera. „Í raun erum við bara að lengja í tímabilinu. Við búum svo vel hér að við höfum lítið sláturhús sem við rekum í Borgarnesi, mannað með úrvals fólki sem býr hér í nágrenninu – og getum því slátrað hvenær sem er ársins.

Við þurfum hins vegar að semja við þá bændur sem taka þátt í þessu verkefni með okkur, að geyma gimbrar úr sláturtíðinni fram á veturinn og fóðra þær vel við góðar aðstæður.

Svo reynum við líka að flýta slátrun á sumrin fyrir hefðbundna sláturtíð – og lengja í þeim enda líka,“ segir Eiríkur Blöndal.

Skylt efni: sláturhús | Brákarey

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...