Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Einar Kristján Eysteinsson og Sigrún Júnía Magnúsdóttir, bændur á Tjarnarlandi, með Óskadís, 15 vetra, frá Stóra Steinsvaði. Folaldið er Eldur frá Tjarnarlandi, undan Ský frá Skálakoti.
Einar Kristján Eysteinsson og Sigrún Júnía Magnúsdóttir, bændur á Tjarnarlandi, með Óskadís, 15 vetra, frá Stóra Steinsvaði. Folaldið er Eldur frá Tjarnarlandi, undan Ský frá Skálakoti.
Mynd / sá
Viðtal 25. ágúst 2025

Málefni ungra bænda krufin meðfram bústörfum og öðru brasi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ung hjón á Úthéraði hafa mörg járn í eldinum til að búreksturinn gangi upp. Auk þess að halda fé og hross sjá þau um sorpurðun, margmiðlun og vefhönnun er hluti af verkefnum hversdagsins. Þau nýta tækni og hugvit til að létta sér bústörfin.

Tjarnarland á Fljótsdalshéraði er um 300 hektara bújörð og þykir gott landbúnaðarland. Landið er ríkt af mýrum, vötnum og tjörnum. Klapparásar eru víða, klæddir mólendi og kjarri. Bærinn stendur í fögru landslagi, miðja vegu milli þjóðvegar um Úthérað og Lagarfljóts, nokkru norðar en Eiðastaður. Í austri rísa í fjarska mikilúðleg Dyrfjöllin og Beinageitarfjall.

Þau Sigrún Júnía Magnúsdóttir, frá Egilsstöðum, og Einar Kristján Eysteinsson, Tjarnlendingur að uppruna, búa jörðina ásamt tveimur sonum, Jóhanni Magna, sex ára, og Eysteini Hilmari, tíu ára. Hjónin eru með sauðfé, um 350 talsins, og 20 hross. Auk Tjarnarlands eiga hjónin helming aðliggjandi jarðar Stóra-Steinsvaðs, á móti frænda Einars, þar sem þau heyja tún og eru með skógrækt, auk hólfa fyrir hesta og graðhesta. Þau aka öllu sínu fé austur í fjall og láta það ganga á Sandbrekkuafrétti undir Dyrfjöllunum. Þau nýta því ekki lágsveitina til beitar.

Búskapurinn í blóð borinn

Þau tóku við búinu árið 2015 af foreldrum Einars, en þá keyptu þau jarðnæðið, öll hús, tæki og tól. Fé var skorið á búinu vegna riðu árið 1988 og ekki byrjað aftur með rollur fyrr en 2007 þegar unga parið hóf að viða að sér skepnum. Foreldrar Einars voru í millitíðinni með hesta og stofnuðu jafnframt sorphirðufyrirtæki 1992, en sorp af svæðinu er urðað í Tjarnarlandi.

Sigrún og Einar segjast ekki hafa vílað fyrir sér að kaupa búið og þau komist sæmilega af. „Ég sá mig alltaf fyrir mér hér í sveitinni, alveg frá unglingsárum,“ segir hann og er búskapurinn í blóð borinn. Sigrún kynntist sveitalífinu og skepnuhaldi hjá ömmu sinni og afa í Litla-Sandfelli í Skriðdal og kunni því vel. Hún er þó ekki einhöm.

„Ég útskrifaðist sem tölvunarfræðingur árið 2023 og hef síðan verið að taka að mér vefsíðugerð, hönnun og fleira, enda er ég einnig margmiðlunarhönnuður. Svo erum við náttúrlega með urðunina auk búskaparins,“ útskýrir hún. Einar segir þau vera með samning við sveitarfélagið Múlaþing þar að lútandi og urði utarlega í landi sínu það sem ekki sé unnt að koma í endurvinnslu. „Svo er ég aðeins að rúlla fyrir aðra á sumrin, en það er þó lítið,“ segir hann.

Ungu hjónin hafa byggt heilmikið upp undanfarin ár. Þau skiptu fljótlega um klæðningu á íbúðarhúsinu, gerðu upp hlöðuna, breyttu hesthúsi (reiðhöll) í fjárhús með sjálfgjafarkerfi (rúllum á gang, gefið þriðja til fjórða hvern dag með liðléttingi) og byggðu skemmu sl. haust sem er geymsla fyrir tæki og tól.

Þau segja afkomuna fara skánandi. „Þetta er að lagast, eftir dýfuna 2016–17 þegar verðið lækkaði um 40% eða þar um bil. Kúrfan er aðeins að lagast og verðið að hækka. En auðvitað er þetta alltaf basl, þannig séð,“ segir Einar. Þau leggja inn á Húsavík, um 400 lömb. „Auðvitað vildi maður að það gæti verið nær. Norðlenska býður þó upp á morgunbíla, þá eru lömbin tekin á milli kl. 7 og 8 á morgnana og þeim lógað seinnipartinn, sem hentar vel.“

Þau nefna að staðan í slátruninni sé snúin, bændur fáir í stóru landi og einhvern veginn verði að ná samlegð og hagræðingu. „Þetta verður alltaf erfitt en við erum ekkert hrædd við þessa samþjöppun,“ segja þau og vísa þá m.a. til nýgengins dóms um samruna afurðastöðva.

Tjarnarland er um 300 hektara jörð og gott landbúnaðarland. Landið er ríkt af mýrum, vötnum og tjörnum. Klapparásar eru víða, klæddir mólendi og skógum.

Málefni ungra bænda í Úti á túni

Sigrún hefur ásamt Jóni Elvari Gunnarssyni, nágranna sínum á Breiðavaði, haldið úti hlaðvarpinu Úti á túni frá árinu 2020. „Þetta er bara ég að finna mér eitthvað að gera – og of mikið!“ segir hún hlæjandi. „Hér var haldinn fundur ungra bænda og ég bar hugmynd um hlaðvarp undir Jón Elvar sem var alveg til í það. Svo ég fór á netið daginn eftir og keypti allar græjur til að taka upp hlaðvarpsþátt. Fór á Youtube og lærði hvernig á að klippa allt saman og „fiffa“ þetta. Svo byrjuðum við bara hér heima í einu herberginu og þá fór boltinn að rúlla,“ útskýrir hún.

Síðan hafa farið í loftið tugir þátta, þar sem spjallað er um málefni líðandi stundar hjá ungum bændum, hvað þeir eru að gera, hvað er að gerast í hagsmunamálum þeirra, um mismunandi framleiðslugreinar, sæðingar, kynbótastarf, tæknimál fyrir landbúnað og sníkjudýr, svo eitthvað örfátt sé nefnt af þeim fjölmörgu viðfangsefnum sem hlaðvarpið hefur tekið fyrir. Viðmælendur eru gjarnan í forystu fyrir ýmsa málaflokka landbúnaðarins.

Undanfarið hefur hlaðvarpið verið tekið upp í fundarsal Búnaðarsambands Austurlands á Egilsstöðum. Um 300–400 hlustanir eru á hvern þátt en í allt eru hlustanirnar orðnar um tólf þúsund. Hlé varð á þáttagerðinni um og eftir Covidtímann en þau eru byrjuð aftur. „Við reynum líka að taka til dæmis það sem kemur í Bændablaðinu og ræða það, málefni dagsins, hvað við erum að brasa núna og hvað er fram undan. Jón Elvar er í byggrækt svo við höfum rætt þau mál; hann er einn af forsprökkunum í að koma hér upp þurrkstöð,“ útskýrir Sigrún enn fremur.

„Fyrstu þættirnir voru oftast viðtöl við unga bændur sem voru að taka við af foreldrum eða ömmum og öfum hér á svæðinu og vangaveltur um þeirra framtíðarsýn. Fólk er forvitið um annað fólk,“ bætir Einar við og hefur lög að mæla.

Rennslið milli kynslóðanna

Staða ungra bænda er þeim hugleikin. Einar bendir á að þau viti dæmi þess í nærumhverfinu að unga fólkið sé tilbúið að taka við búum en foreldrarnir ekki tilbúnir til að hætta heldur hangi áfram á jörðunum. „Fólkið eldist, skepnum fækkar, viðhald túna minnkar og viðhaldi bygginga verður ábótavant. Auðvitað getur maður skilið að það er erfitt fyrir eldri kynslóðina að hætta og leyfa yngri að taka við en það er stundum bara gert of seint. Þá er yngra fólkið kannski búið að koma sér upp fjölskyldu og farið að vinna annað og ekki tilbúið til að stökkva og taka við þegar allt er komið í hálfgerða niðurníðslu,“ segir hann.

Sigrún bætir við að yngra fólkið reyni svo auðvitað að létta sér verkin. „Með tækni og hagræðingu. Við settum t.d. örmerki í okkar fé og þar af leiðandi þurfum við ekki að taka hverja einustu kind til að lesa á merki. Við höfum breytt því hvernig rekstrargangurinn er, höfum keypt okkur rekstrargang, og vog, til að auðvelda verkin. Hér eru engir spottar til að binda allar grindur. Það eru örugglega hátt í hundrað sauðburðargrindur hér á vorin og það er ekki einn spotti notaður heldur bara þægileg læsing. Við fengum okkur afrúllara til að þurfa ekki að handmoka heyinu. Allt svona telur fyrir okkur sjálf í vinnu,“ segir hún.

Aðspurð hvernig þeim lítist á stöðu ungra bænda og þeirra sem hyggja á búskap svara þau því til að þetta sé alltaf að verða erfiðara. „Vaxtaskilyrðin í landinu, jarðir eru að hækka, ferlið er flókið. Fyrir ungt fólk sem er að útskrifast úr Bændaskólanum á Hvanneyri og á ekki aðgang að sveit til að taka við er þetta varla gerlegt, því miður,“ segir Einar og heldur áfram: „Mögulega þó í kúabúskapnum, það er meiri velta þar; meira inn og meira út, öðruvísi velta en í sauðfénu.“

Sigrún bendir á að ríkið eigi fullt af jörðum um land allt sem séu í eyði. „Kannski ætti ríkið aðeins að fara að hugsa um að laga sínar eigur svo fólk geti mögulega búið eitthvað af þessum jörðum,“ segir hún. Það sé raunverulegt vandamál ef meðalaldur bænda sé orðinn 60 ár.

Um 20 hross eru að jafnaði á Tjarnarlandi og sér Einar að mestu leyti um ræktun og tamningar. Hryssan á myndinni heitir Elva Rós og er frá Tjarnarlandi. Jarpskjótt folaldið er Snælda frá Tjarnarlandi, undan Spuna frá Vesturkoti.

Umræða á villigötum

Innt eftir hvort þau finni fyrir vaxandi áhuga almennings á innlendum landbúnaði segja þau svo ekki vera. „Það er verið að tala um fæðuöryggi í landinu, fæðuframboð, birgðir og þörfina á að rækta og framleiða. Sú umræða kemur samt sem áður bara upp þegar einhver krísa er úti í heimi. Þá fer þetta svolítið á flug. Svo þegar réttist úr ástandinu hætta stjórnvöld að pæla í þessu,“ segir Einar. Hann minnist líka á neikvæða umræðu um styrki til bænda. „Halda ber til haga að styrkirnir eru til að við og fólkið í þéttbýli geti keypt íslenskar landbúnaðarvörur á tiltölulega lágu verði. Þetta er því fyrst og fremst styrkur til neytenda. Ef þessir styrkir væru ekki til okkar bænda myndi lambakjötið, nautakjötið, mjólkin og allt annað kosta tvisvar sinnum meira.“

Sigrún segir líka oft vilja gleymast að býlin um allt land séu einfaldlega lítil og meðalstór fyrirtæki. „Þetta er ekki bara einhver einn bóndi, heldur fyrirtæki; debet og kredit, bókari sér um vaskinn og allt þarf að vera í lagi. Þetta er síður en svo eitthvert rassvasabókhald.“

Einar hnýtir við þetta að sem betur fer séu þau komin með ljósleiðara því að í rauninni séu þau í gríðarmiklu skýrslufargani í búrekstrinum.

Svo það er nóg að gera hjá ungu hjónunum, í búrekstri, sorpurðun, margmiðlun og vefhönnun, og þau una hag sínum vel á hinu fagra Úthéraði.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f