Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lykilhlutverk og ábyrgð
Af vettvangi Bændasamtakana 29. ágúst 2024

Lykilhlutverk og ábyrgð

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Þegar loftslagsmál eru annars vegar hvílir mikil ábyrgð á herðum bænda um allan heim. Í þeirra umsjón er langstærsti hluti óbyggðs ræktanlegs lands sem þar af leiðandi er kjörið til mögulegra mótvægisaðgerða gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Öll erum við farin að þekkja vágestina sem knýja dyra samfara hlýnun loftslags, bráðnun jökla, hækkandi yfirborðs og súrnun sjávar, aukna öfga í veðurfari og röskun alls kyns vistkerfa. Ég tel mig ekki þess umkominn að geta fullyrt um hverjar rætur þessa vanda eru en ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því lykilhlutverki sem bændur geta gegnt í því að hægja á þróunarferlinu og vonandi um síðir að snúa vörn í sókn.

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Í þessum efnum eru íslenskir bændur ekki einungis hluti af stórri heild á heimsvísu. Þeir hafa kjörnar aðstæður og í raun beinlínis skyldur til þess að gefa tóninn, setja alþjóðleg gæðaviðmið og gera kröfur um að allir þeir sem grundvalla matvælaframleiðslu sína á landnýtingu leggist með þeim á árarnar. Auðvitað er ég meðvitaður um að sökum smæðar okkar sé rödd Íslands ein og sér ef til vill svolítið mjóróma. En þá er gott að hafa það í huga að Bændasamtök Íslands hafa í langan tíma ræktað mikilvæg tengsl við bændur í öðrum löndum. Í þeim efnum, eins og reyndar á svo mörgum öðrum sviðum, skiptir samband okkar við frændur okkar og nágranna á Norðurlöndunum ekki bara miklu – heldur væntanlega mestu – máli.

Í síðustu viku vorum við gestgjafi hins árlega samráðsfundar norrænu bændasamtakanna, NBC (Nordisk Bondeorganisations Centralråd). Að þessu sinni var fundurinn haldinn á Reykjavík Natura hótelinu, enda Bændahöllin og Hótel Saga komin með nýtt hlutverk. Samtökin eru komin á tíræðisaldurinn og þátttaka Íslands hefur í gegnum áratugina skotið þar föstum rótum. Við ræddum sameiginleg hagsmunamál okkar, styrkleika, tækifæri og ógnanir, að venju í þaula. Allan tímann stóð það upp úr að Norðurlöndin hefðu um þessar mundir mikil tækifæri til þess að skapa sér afdráttarlausa sérstöðu á heimsvísu hvað gæði og hreinleika matvælaframleiðslunnar varðar.

Með hliðsjón af reglunni „stærri hljómsveit – meiri kraftur“ er í mínum huga engin spurning um það að við eigum að taka öflugan þátt í samstarfi á þessum vettvangi. Á honum heyrist rödd okkar hátt og skýrt enda vel tekið eftir þeim náttúrulegu kjöraðstæðum sem íslenskir bændur búa við og nýta til hins ítrasta enda þótt sumrin séu stutt og veður oft válynd.

Norræna frændur okkar skortir vissulega sumt af því sem er á gnægtaborði hinnar íslensku náttúru. En þeir hafa eins og við aðgang að því sem víða er orðin verulega takmörkuð auðlind – vatninu. Og þau forréttindi eru ekki lítil þegar landbúnaður er annars vegar. Vatnsskortur er langalvarlegasta vandamál hinnar alþjóðlegu matvælaframleiðslu. Víða er hann nú þegar að standa hefðbundnum afköstum landnýtingar fyrir þrifum og sums staðar hefur skortur á náttúrulegu hreinu vatni beinlínis stöðvað hana með öllu. Á norðlægari slóðum er staðan sem betur fer önnur og ekki síst hér á landi þar sem við brynnum öllum skepnum okkar að grænmetinu ógleymdu með sama kranavatninu og við drekkum sjálf.

Á þessum vel heppnaða norræna samráðsfundi var sjálfbærni landbúnaðarins eðlilega í öndvegi. Loftslagsvænni matvælaframleiðsla, mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika, vönduð nýting jarðnæðis, þáttur innlends landbúnaðar í eflingu fæðu- og matvælaöryggis hverrar þjóðar var á meðal þess sem skipst var á skoðunum um. Og talandi um sjálfbærni var innlegg Samtaka ungra bænda eins og svo oft áður bæði hressandi og lífsnauðsynlegt.

Steinþór Logi Arnarsson, formaður samtakanna, reifaði nýliðunarvandann í bændastéttinni sem reyndar er því miður ekki séríslenskt vandamál heldur alþjóðlegt. Ef nýjar kynslóðir taka ekki við keflinu frá hinum eldri er tómt mál að tala um aðra þætti sjálfbærninnar. Steinþór nefndi þrjár meginástæður þess að hugur ungs fólks, og allra síst þeirra sem ekki hafa sterk tengsl við sveitalífið, stæði sjaldnast til landbúnaðarstarfa. Umhverfið og samfélagið, ímyndin og viðhorfið, leika þar stórt hlutverk en mestu skiptir hin efnahagslega afkoma í búrekstrinum. Og þar eru Íslendingar langt á eftir nágrönnum sínum á Norðurlöndum. Skuldsetning vegna kaupa á bújörðum og fyrsta flokks tækjabúnaði í núverandi vaxtaumhverfi íslensku krónunnar er einfaldlega ókleifur hamar fyrir ungt fólk sem ekki hefur beinlínis fæðst inn í landbúnaðinn og nýtur fjölskyldutengsla og frændhygli. Það er mikið áhyggjuefni.

Eitt af mörgum ábyrgðarhlutverkum íslenskra bænda er að yrkja jörðina og umgangast land sitt af alúð og nærfærni. Grundvallaratriði í hvers kyns sjálfbærni er að skila því til komandi kynslóða í betra, eða að minnsta kosti sama, ástandi og við því var tekið. En það er líka skylda hvers bónda að nýta þetta land og gjöfular auðlindir hinnar íslensku náttúru til öflugrar verðmætasköpunar – ekki bara fyrir sjálfan sig heldur samfélagið. Það er ábyrgðarhlutverk.

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 5. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...