Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Saumur 12-915 frá Ytri-Skógum er atkvæðamestur með 9 syni.
Saumur 12-915 frá Ytri-Skógum er atkvæðamestur með 9 syni.
Á faglegum nótum 5. janúar 2016

Lömbin komu falleg af fjalli

Höfundur: Eyþór Einarsson Ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt
Dramatískt framleiðsluár er að baki hjá sauðfjárbændum. Slæm veður settu strax strik í reikninginn um síðustu fengitíð sem leiddi af sér minni sæðingar á sumum svæðum.
 
Vorið reyndist erfitt og sumarið kalt en síðan tók við sannkallaður sumarauki með haustinu. Gróður í úthaga hefur að öllum líkindum verið óvenjulega kraftmikill óvanalega lengi fram eftir hausti víða um land.  Lömbin komu því betri af fjalli en margur hafði spáð og heildarniðurstaðan ákaflega góð. Verður hér stiklað á helstu niðurstöðum tengdum lambadómum haustsins 2015.
 
Umfangið
 
Alls voru skoðuð 74.608 lömb samkvæmt skráningum í Fjárvís.is. Megnið af þessum dómum fara fram á tímabilinu 15. september til 15. október eða 90% og þarf því öflugt lið til að skoðanir gangi sem greiðlegast. Ríflega 40 manna teymi kemur að þessari vinnu, þar af eru 25 dómarar sem stiga heltina af lömbunum. Aðeins var samdráttur í þátttöku í ómmælingum. Miðað við skráningar í Fjárvís.is, er u.þ.b. 10 þúsund færri lömb skoðuð í haust en haustið 2014.  Felst það að mestu leyti í umfangsminni gimbraskoðunum, en heimsóknir til bænda eru nánast jafn margar og árið áður eða u.þ.b. 900. Mestur var samdrátturinn í Norður-Þingeyjarsýslum og á Ströndum. Hugsanlega skýrist það í Þingeyjarsýslum af lakari vænleika lömbum.
 
Mikið af topplömbum
 
Það voru 58 lömb sem mældust með 40 mm þykkan bakvöðva eða þar yfir.  Í tveimur lambhrútum mældist 44 mm þykkur bakvöðvi sem er það mesta sem mældist í haust. Annar lambhrúturinn er frá Hrafnsstöðum í Suður-Þingeyjarsýslu og er hann sonur Hvata 13-926 frá Hesti. Hinn er frá Laxárdal 3 í Hrútafirði sonur Bósa 08-901 frá Þóroddsstöðum. Fimm gimbrar hlutu einkunnina 10 fyrir frampart og voru tvær þeirra dætur Læks 13-928 frá Ytri-Skógum.  Tveir lambhrútar hlutu einkunnina 10 fyrir malir. Annars vegar hrútur frá Gýgjarhólskoti undan Salamon 10-906 og hins vegar hrútur frá Sandfellshaga 1 undan Saumi 12-915.  Sandfellshagahrúturinn hlaut jafnframt 20 stig fyrir læri ásamt 11 öðrum lömbum í haust.  Eitt lamb hlaut einkunnina 10 fyrir samræmi en það var lambhrútur í Gýgjarhólskoti undan Guðna 09-902 frá Mýrum.  Vænsti lambhrútahópurinn var á Gásum í Hörgársveit en þar vógu 16 lambhrútar 60 kg að meðaltali, sá þyngsti 77 kg.  
 
Kjötmatið
 
Einn megintilgangur líflambamælinganna er að velja fyrir bættum skrokkgæðum og eiga því framfarir í líflambamælingum að skila sér til bóndans í betra kjötmati og þar með betri og verðmeiri vöru.  Niðurstöður haustsins úr kjötmatinu eru glimrandi góðar. Í slátrunum frá ágúst til lok október var lógað 531.481 lambi. Meðalfallþungi dilka var 16,19 kg, holdfyllingareinkunn 8,76 og fitueinkunn 6,39.  Frá því EUROP-matið var tekið upp er þetta hæsta meðaltal fyrir holdfyllingareinkunn, næst lægsta fitueinkunnin og þriðji mesti fallþunginn.
 
Úrval góðra lambhrúta
 
Meðalþykkt bakvöðva í lambhrútum var heldur meiri en sl. haust, eða 29,5 mm og er það hæsta meðaltal til þessa.  Í töflu 1 eru meðaltöl fyrir hrútlömb áranna 2014 og 2015.
 
Í töflu 2 er yfirlit yfir 5 hæst stiguðu lambhrúta hvers héraðs.  Hrútunum er raðað eftir stigum alls, síðan eftir samanlögðum stigum fyrir frampart, bak, malir og læri (gerð), síðan eftir þykkt bakvöðva, þá fituþykkt og síðan lögun bakvöðvans ef enn eru einhverjir jafnir. Hæst stigaði lambhrútur landsins er frá Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði og er hann sonur Kornelíusar 10-945 frá sama bæ sem bættist í hóp sæðingastöðvahrúta í haust. Lambhrúturinn hefur hlotið nafnið Grásteinn.  Móðurfaðir hans er Kroppur 05-993 frá Hagalandi. 
 
Jákvætt er að sjá að stór hluti þessara topphrúta eru undan veturgömlum hrútum.  Ekki kemur á óvart að stöðvahrútarnir eru áberandi sem feður, en helmingur þessara lamba er undan þeim. Saumur 12-915 frá Ytri-Skógum er atkvæðamestur með 9 syni og þá á hann einnig sonarsyni á listanum. Hvati 13-926 frá Hesti er einnig áberandi með 7 syni. 
 
Ýtarlegri skýrslur og niðurstöður úr skoðunum haustsins verða aðgengilegar á heimasíðunni www.rml.is.  
 
Að lokum
 
Við höfum náð góðum árangri með ræktun fyrir bættum skrokkgæðum og getum vel borið höfuðið hátt þegar við berum okkar íslenska landnáms­kyn saman við erlend sauðfjárkyn.  En það er ekki svo að við séum komin á endastöð.  Við eigum áfram mikla möguleika í því að hækka öll meðaltöl umtalsvert, t.d. með því að bæta lakari hluta framleiðslunnar og með því að efla eiginleika sem gera framleiðsluna hagkvæmari og betri. Þar leika lambadómarnir og ómmælingarnar stórt hlutverk.  
 
Það eru ótrúlega fá ár síðan að meðal lambshryggurinn var með tiltölulega þunnu kjöti og mikilli fitu.
 
Það er áhugavert að velta þessu fyrir sér þegar við gæðum okkur á léttreykta lambahryggnum á aðfangadagskvöld.
 
Smellið á myndirnar að neðan til að stækka þær.

3 myndir:

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...