Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Litla stúlkan með eldspýturnar
Menning 22. desember 2023

Litla stúlkan með eldspýturnar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

„Það er nístingskuldi með fjúki, og það var orðið dimmt um kvöldið. Það var líka síðasta kvöldið á árinu, það var gamlárskvöld.“

Þannig hljóða fyrstu línurnar í ævintýrinu Litla stúlkan með eldspýturnar eftir H. C. Andersen, en sagan hefur fangað huga lesenda síðan árið 1845.

Saga litlu stúlkunnar með eldspýturnar varpaði ljósi á stóran hluta barna Evrópu sem áttu sér ekki málsvara en bjuggu við kúgun og örbirgð og gjarnan send af foreldrum sínum til þess að afla viðurværis á einhvern hátt eða betla á götum úti, á tíma þegar annað hvert barn lét lífið fyrir fimm ára aldur. Á þeim tíma sem sagan kemur út bjó almenningur við mikla hungursneyð og sjúkdóma og í raun mátti kalla stærstan hluta jarðarbúa undir fátæktarmörkum. Lífslíkur Evrópubúa voru um 40 ár, sem er svipað og í mörgum fátækustu ríkjum heims í dag.

Þung skref þeirra smáu

Rekur saga Hans Christians Anderssen sögu lítillar stúlku sem er send út í snjóhríðina á gamlárskvöld, klædd svuntugopa og ber á fótum sér klunnalega tréskó, bláfátæk og berhöfðuð. Gengur litla stúlkan um strætin og býður eldspýtur til sölu við litlar undirtektir annarra vegfarenda. Á hún fótum sínum fjör að launa er vagnar keyra næstum yfir hana og missir af sér skóna. Hleypur drengur burt með annan skóinn en hinn finnur hún ekki.

„Þannig gekk nú veslings stúlkan á berum fótunum, þeir voru rauðir og bláir af kulda ... enginn hafði gefið henni einn einasta eyri; þarna gekk hún sársvöng og nötrandi og var svo niðurdregin, veslings barnið.“

Ekki þorði hún heim því þar biðu hennar barsmíðar þegar illa gekk að afla fjár og hnipraði hún sig saman á milli tveggja húsa þar sem steikarilmurinn fyllti vitin og örlítið afdrep var fyrir vindinum.

Kveikir litla stúlkan á eldspýtu til að ylja sér og þykir loginn sem undurfagurt ljós sem hlýjar henni eitt augnablik. Hún kveikir á annarri og ímyndar sér að hún sé komin inn í hlýjuna við matarborðið þaðan sem steikarilmurinn berst og að lokum, með þriðju eldspýtunni sér hún fyrir sér stórt og fallegt jólatré. Hún réttir upp hendurnar til að snerta fallegu ljósin á jólatrénu en þá slokknar á eldspýtunni og stúlkan sér stjörnu hrapa á himninum.

Nú deyr einhver, segir hún við sjálfa sig, því amma hennar sem alltaf var henni svo blíð og góð hafði sagt að þegar stjarna hrapaði á himnum færi sál til guðs.

Hún kveikir á fjórðu og síðustu eldspýtunni og sér í loganum hana ömmu sína sem tekur hana í fangið.

Enginn vissi neitt um alla þá fegurð ...

Segir svo í textanum:

„Og amma hennar tekur litlu stúlkuna á handlegg sér, og þær lyftast í ljóma og fögnuði upp í hæstu hæðir, og þar var enginn kuldi, ekkert hungur og ekkert volæði.[...] En í skotinu milli húsanna sat litla stúlkan morguninn eftir með roða í kinnum og bros á vörum, hún var dáin; hún hafði orðið úti á síðasta kvöldi ársins. Nýársmorgunninn rann upp yfir litla líkið, sem sat með eldspýturnar í kjöltunni; einu eldspýtnabréfinu hafði hún því nær eytt. „Hún hefur ætlað að hita sér,“ sögðu þeir, er fram hjá gengu. Enginn vissi neitt um alla þá fegurð, sem fyrir hana hafði borið, enginn vissi í þvílíkri dýrð og ljóma hún gekk með ömmu sinni inn í hina eilífu nýársgleði.“

Er ekki annað hægt að segja en að sagan snerti hjarta þess sem les þetta sígilda verk sem einnig hefur verið sett á svið oftar en einu sinni, lesin í útvarpinu og birst á stóra tjaldinu.

Skrautsýning og söngleikur

Fyrst fregnist af Leikfélagi Vestmannaeyja í samstarfi við Kvenfélagið Líkn, sem býður upp á svokallaða „skrautsýningu Kvenfélagsins“ árið 1922 eða 1923, en þá var Litla stúlkan með eldspýturnar tekin fyrir. Samkvæmt tímaritinu Bliki frá árinu 1965 kemur fram að áhorfendum var sýningin sérstaklega minnisstæð vegna aðalleikkonunnar, Bergþóru Magnúsdóttur í Dal, „í hlutverki litlu stúlkunnar, enda hreif hún alla með fegurð sinni og góðum leik“.

Frá árinu 1937 má finna stutta teiknimynd um söguna vinsælu, framleidda af kvikmyndafyrirtækinu Colombia Pictures, og má í dag finna hana á vefmiðlinum YouTube undir nafninu The Little Match Girl (1937) fyrir áhugasama.

Annan jóladag árið 1939 var svo saga litlu stúlkunnar auglýst sem litskreytt teiknimynd í Nýja bíói og sýnd reglulega í kvikmyndahúsum næstu árin. Um vorið 1940 birtist hún sem framhaldsteiknimynd í Alþýðublaðinu og er líða tók á öldina hófu skólar á borð við Melaskóla undir stjórn tónmenntakennaranna, Magnúsar Péturssonar og Helgu Gunnarsdóttur og Árbæjarskóla, undir stjórn Áslaugar Bergsteinsdóttur, að setja upp ævintýrið sem söngleik. 

Í desembermánuði 1998 má finna grein í Morgunblaðinu þar sem sagt er frá unglingadeild Leikfélags Keflavíkur, hátt á þriðja tug barna og unglinga á aldrinum 11–16 ára sem hófu að sýna, sem var kallað „Fjölskylduleikritið Litlu stúlkuna með eldspýturnar undir stjórn Huldu Ólafsdóttur.“

Vertu til staðar

Svona mætti lengi telja enda snertir saga stúlkunnar streng í brjósti okkar margra. Skulum við gæta þess að enn í dag er litla stúlkan með eldspýturnar á sveimi hjá okkur í þjóðfélaginu með von um að fá brauðmola af borði allsnægta.
Því skulum við hafa í huga að öll ættum við að geta veitt þeim sem standa verr en við sjálf. Þó ekki væri nema bros. Þeir sem eiga erfitt með að tjá sig á þann hátt geta þess í stað styrkt eitthvert eftirfarandi samtaka sem finna má á vefsíðunni www. styrkja.is, nú eða líta til fólks í samfélaginu sem líður skort.

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir
Fréttir 5. desember 2025

Nýtt verkefni um vottaðar endurheimtaraðgerðir

Mýrkol er heiti nýs verkefnis um vottaðar aðgerðir í endurheimt votlendis.

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Þýskar heimsbókmenntir
3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Laufey
3. desember 2025

Laufey

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu
4. desember 2025

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu

Þúsund ár og þúsund enn
4. desember 2025

Þúsund ár og þúsund enn

Góður árangur náðst
4. desember 2025

Góður árangur náðst

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f