Lífsnautn eldhugans
Verður er verkamaður launa sinna. Það hefur brautryðjandinn Ólafur Sturla Njálsson garðyrkjusérfræðingur sýnt og sannað. Með elju og dugnaði hefur hann ræktað upp frá grunni garðplöntustöðina Nátthaga og miðlað þekkingu sinni og reynslu af kostgæfni. Ólafur hlaut á dögunum heiðursverðlaun garðyrkjunnar fyrir ævistarf sitt.
Nátthagi í Ölfusi er allt í senn; heimili Ólafs, garðplöntuframleiðsla, staðsetning plönturannsókna og gæðaprófana, trjá- og runnasafn, söluvettvangur og ræktunar- og uppeldisstöð. Býlið er eftirtektarverð gróðurparadís sem margir landsmenn kannast við og heimsækja reglulega til að auðga garðinn sinn – og jafnvel líf sitt um leið.
Þar er nefnilega um einstaklega auðugan garð að gresja enda úir og grúir af trjá- og runnategundum í hundraða tali. Land Nátthaga var hins vegar einungis lítt gróinn mói þegar Ólafur festi kaup á spildu árið 1987.
„Mér fannst staðurinn réttur. Fjallið á bak við mig og láglendi fyrir neðan mig. Í kvosinni á milli myndast þessi mikli hiti þegar maður er búin að búa til skjól. Landið snýr í vestsuðvestur, þannig að sólin er að hita landið mjög hægt upp. Því getur orðið rosalega hlýtt hérna á kvöldin. Hins vegar er staðurinn þekktur fyrir svakalega vindstrengi,“ segir Ólafur og segir því staðinn ekki þann æskilegasta fyrir garðyrkjustöð.
En með sleitulausri vinnu við uppbyggingu landsins síðustu áratugi hefur honum tekist að skapa þar þessa einstöku vin.
Flutti þekkingu frá Noregi
Ólafur er blátt áfram maður; djúpvitur hugsuður og skörungur á ýmsum sviðum. „Búir þú yfir einhverjum náttúrulegum hæfileika, láttu þá aðra njóta þeirra,“ sagði einhver einhvern tímann. Ólafur hefur á allri sinni starfsævi fylgt þeim hugsunarhætti. Hann er sannkallað sumarbarn, fæddur í júlí 1955 og á því stórafmæli í ár. Áhugi hans á trjám og gróðri vaknaði á barnsaldri.
„Afdrifaríkt fyrir ungan drenginn var er móðurafi hans, Marinó Ólafsson, stóð hann að því að klifra í reynitrjánum í garðinum að Reynimel 37, þá aðeins 5–6 ára gamall. Afinn var ekki hrifinn af því og bað Óla litla um að fara vel með trén, þau gætu skemmst. Drengurinn tók þetta nærri sér og hefur hugsað vel um trjágróður alla tíð síðan!,“ skrifar Ólafur á vef sínum, Nátthagi.is.
Ólafur nam garðyrkju í Noregi, fyrst í nyrsta garðyrkjuskóla í heimi, Statens Gartnerskole Rå, á 68°N og síðar í Statens Gartnerskole Dömmersmoen í Grimstad, þaðan sem hann útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur árið 1978. Síðar fór Ólafur í Landbúnaðarháskóla Noregs og útskrifaðist þaðan sem garðyrkjukandídat eftir fjögurra ára nám, þar sem hann tók allar fimm garðyrkjulínurnar en einungis þurfti tvær til að útskrifast.
Ólafur flutti heim eftir einn aukavetur í Noregi sem starfsnemi í tilraunastöð skólans. „Vorið 1984 var hringt í mig úr Gróðrarstöðinni Mörk og þannig komst ég heim,“ segir hann, en nefnir að kollegar hans í Noregi hafi ekki verið á því að missa hann úr landi. „Ég hefði lifað mun þægilegra lífi þar en hér. Áskoranirnar voru hins vegar hér og ég fór til Noregs með það að markmiði að taka þekkinguna með mér heim.“
Ári eftir heimkomu var Ólafur farinn að miðla þekkingu sinni í Garðyrkjuskólanum að Reykjum þar sem hann starfaði í níu ár samhliða því að byggja upp Nátthaga. Þá liggur eftir hann aragrúi af kennslu- og fræðsluefni.
Fylgir innsæinu
Garðplöntustöðvum á Íslandi fer fækkandi, sem Ólafur telur enga tilviljun. „Ungt fólk í dag sem kemur úr Garðyrkjuskólanum vill gjarnan vera í öruggri og þægilegri vinnu. Þá heilla störf hjá sveitarfélögum og ríkinu meira en að standa í einkarekstri. Því slíkt er eingöngu fyrir þá sem vilja hafa þetta sem lífsstíl og hafa nautn af því að vinna svona rosalega mikið.“
Rekstur garðyrkjustöðvar krefst mikillar elju. „Þetta er endalaus yfirlega, maður er vakinn og sofinn yfir þessu dag og nótt. Þegar háannatíminn byrjar þá sef ég aðeins fjóra til sex tíma að nóttu, frá marsbyrjun til októberloka.“
Enda eru handtökin hvern dag ansi mörg, fyrir utan að taka á móti fólki og miðla þekkingu sinni, en garðplöntusalan er opin alla daga frá maíbyrjun fram í október.
„Með apótek trjáa og runna þá eru þetta milljón smáatriði sem þú smám saman tileinkar þér. Þú vinnur þetta algjörlega eftir innsæi.“
Framandi tegundir
Segja má að Ólafur lifi með gróðrinum sínum og segist hann geta virt hann endalaust fyrir sér. Hann bendir á mikilfenglegt sjö metra hátt tré með skemmtilega bylgjóttum blöðum. „Þetta er snælenja sem kemur frá Suður-Ameríku og myndar þar mikla skóga. Hún er spes í laginu, ólík því sem við erum vön að sjá, mjög fínleg tegund en hefur merkilega mikið þol gagnvart snjóbroti.“
Í áranna rás hefur Ólafur flutt til landsins margar nýjar tegundir trjáa og runna úr nokkrum söfnunarferðum í skógarmörkum Alpafjalla og Pýreneafjalla sem hann hefur svo prófað hér á landi. Sumar tegundirnar hafa haslað sér völl í íslenskum görðum í framhaldi.
Gangandi um Nátthaga bendir Ólafur á sérstaklega japanselrirunna. „Ég kom með þennan frá Hokkaido í Japan árið 1996 og hann stendur sig betur en sitkaelri. Hann myndar milljónir fræja og framleiði ég hann. Úr sömu ferð komu gullklukkurunni og kjarrfura sem þrífast vel hér.“
Á Nátthaga má finna nokkrar langtímarannsóknir og mikilvæg plöntusöfn. Ólafur nefnir dæmi. „Eitt skjólbelti er samsett úr öllum víðiklónum og tegundum sem ég hef framleitt.“ Með því getur hann fylgst með framgangi og seiglu þess milli ára.
Tveir reitir eru helgaðir mörgum perusortum frá Finnlandi og Ólafur fylgir þeim eftir við íslenskar aðstæður. Þannig á við um alla ávaxtatrjáarækt Ólafs, en á jörð Nátthaga eru til að mynda mörg hundruð eplatré sem Ólafur er með til rannsókna og framleiðslu.
Þá er Ólafur sérfróður um lyngrósir og á Nátthaga má sjá fjöldann allan af lyngrósum sem hann hefur flutt inn og prófað. Ástæða þess að hún er í uppáhaldi hjá garðyrkjumanninum er einföld. Lyngrós er sígræn. „Blöðin eru skraut allt árið, en blómin bara í einn mánuð. Þú getur fengið lyngrósir með alls konar blaðgerð, hvítar, appelsínugular og fleira,“ segir Ólafur og bendi á eina.
„Lyngrós ættuð frá Tyrklandi er ættmóðir ´Cunninghams White´sem er einstaklega auðveld í ræktun og viljug til að blómstra. Að byrja á henni fær fólk frekar til að treysta sér til að prófa fleiri sortir.“
Duglegar plöntur
Talið berst að stafafuru. „Það er búið að vera svolítill áróður gegn því hvað stafafuran er dugleg að sá sér út. Og það er í svo neikvæðum tón að bændur vildu helst ekki taka við henni á Norðurlandi um tíma. Það er svo illt og neikvætt að tala svona um gróður. Undir tvö prósent af Íslandi er skógur. Vissulega sjáum við trén í byggð og það finnst sumum of mikið. Stafafuran er tiltölulega fljótþroska og getur sáð sér í erfitt land. Við þurfum aldeilis á því að halda hér. Hún er svo sniðug að hún vex upp í vegköntum í möl. Hún ásamt sitkagrein eru í sínu besta loftslagi til að sá sér út hér á landi og munu mynda mikla skóga með tímanum. Þeir munu geta endurnýjað sig með sjálfssáningu sem kemur til góða því trén skila timbrinu og þá verða sjálfsáðu plönturnar bara tilbúnar að taka við.“
Hann vill því ekki heyra á orðanotkunina um ágengar plöntur minnst. „Ég kalla þær plöntur sem geta sáð sér út í íslensku loftslagi duglegu plönturnar. Þetta eru duglegar plöntur, alls ekki ágengar.“
Ætlar að njóta ávaxta erfiðisins
Ólafur segist vera lagður af stað í þá vegferð að fara að huga að starfslokum í garðplöntuframleiðslu og sölu þó engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Hann hyggst þó áfram ætla að búa og vera á Nátthaga og njóta ávaxta starfsævi sinnar, enda er gróðurparadísin fyrst og fremst heimili Ólafs.
„Þegar ég fer úr rekstrinum þá verð ég með nóg af verkefnum,“ segir hann og vísar þar til dæmis til allra þeirra plönturannsókna sem eru til staðar á Nátthaga. „Ég mun halda áfram með þetta eins og hvert annað hobbí, fylgja ávaxtatrjánum eftir og skrá hjá mér framvindu þeirra.“
Aðalmálið sé þó að halda góðri heilsu enda sé hún forsenda lífsgæða. „Það eiga allir að vita að til að halda góðri heilaheilsu þarf maður að vera í stöðugri aksjón, að taka almennilega líkamsrækt; hvort sem það heitir skógrækt, göngutúrar eða crossfit. Þú þarft átakahreyfingu öðru hvoru alla vikuna. Það er það sem bústar og heldur heilanum unglegum sem lengst.“
